Fimm ráð til að sofa betur

Getty images

Allir vilja vakna fullir af orku en þá skiptir máli að gæði svefns séu sem mest. Það er margt hægt að gera til þess að tryggja betri nætursvefn ef engin alvarleg vandamál eru sem skerða svefninn. Allir ættu að geta gert aðeins betur til þess að fá sem mest út úr nóttinni. Hér eru nokkrar einfaldar leiðir sem hjálpa til við að auka gæði svefns, sem síðan skilar vonandi afkastabetri degi. 

1. Skapaðu rólegt umhverfi

Svefnherbergið á að vera griðastaður. Það er mikilvægt að þar líði manni vel. Því er mikilvægt að taka vel til í því. Það er ekki í boði að hafa þar inni fjall af þvotti sem á eftir að ganga frá, leikföng barnanna eða vinnutengda hluti. Hreinsaðu út allt sem á ekki heima inni í svefnherberginu. 

Þá er mikilvægt að svefnherbergið þjóni aðeins hlutverki svefnherbergis. Ekki vinna í rúminu og ekki horfa á sjónvarpið þar. Þar inni má bara sofa. Gættu einnig að hitastigi herbergisins. Það er allt of algengt að fólk sofi illa því það er of kalt eða of heitt í herberginu.

2. Búðu um rúmið

Margir halda því fram að þeir sem búa alltaf um rúmið sitt áorki meiru yfir daginn. Þá er líka fátt betra en að leggjast upp í rúm að kvöldi sem er hreint og umbúið. Hugaðu líka að sængurverunum. Það er líklegra að þér líði vel ef sængurfötin eru falleg, mjúk og samstæð.

3. Farðu að sofa á réttum tíma

Það að fara að sofa alltaf á ákveðnum tíma dags skiptir mjög miklu máli fyrir gæði svefns. Þá skiptir einnig máli að vakna alltaf á sama tíma, líka um helgar. Þannig hjálpar maður líkamsklukkunni að viðhalda réttu svefnmynstri.

4. Hafðu góða kvöldrútínu

Kvöldrútínan getur verið misjöfn eftir fólki. Gott ráð er til dæmis að takmarka allan skjátíma klukkutíma fyrir svefninn. Svo er hægt að fara í heitt bað, kveikja á ilmkertum eða lesa góða bók. Bara alls ekki kíkja á símann!

5. Hlustaðu á eitthvað róandi

Mörgum finnst gott að hlusta á róandi umhverfishljóð fyrir svefninn. Finna má slík hljóð til dæmis á Spotify. Mörgum finnst gott að hlusta til dæmis á sjávarnið, fuglasöng eða frumskógarhljóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál