Kláraði maraþonið rétt fyrir fertugt

Erlendur Steinn mælir með hlaupum fyrir alla.
Erlendur Steinn mælir með hlaupum fyrir alla.

Erlendur Steinn Guðnason er 48 ára gamall Vesturbæingur sem ákvað fyrir nokkrum árum að skella sér úr sófanum í hlaupagallann. Síðan þá hefur hann hlaupið nokkur þúsund kílómetra á malbiki og fimm maraþon.

Erlendur hleypur yfirleitt þrisvar sinnum í viku með KR-skokkhópnum en jafnvel oftar þegar hann er að æfa fyrir maraþon. Hann hljóp sína fyrstu 10 km í Norræna skólahlaupinu árið 1984 þegar hann var tólf ára gamall og byrjaði að æfa fyrst hlaup þegar hann ákvað að taka þátt í Kaupmannahafnarmaraþoninu árið 2012. 

Hvað varstu gamall og í hvernig formi varstu þá?

„Ég var 39 ára og náði að klára maraþonið nokkrum dögum áður en ég varð fertugur. Ég var um tíu kílóum þyngri og formið var ekki upp á sitt besta.“

Áttu fimm góð ráð fyrir þá sem þrá að hlaupa úti en geta það ekki?

„Já ég mæli með að fólk eigi góða skó. Því það er mikilvægt að eiga hlaupaskó sem eru þægilegar að hlaupa í. Síðan mæli ég með því að fólk fari bara rólega af stað. Enda ætti enginn að æða af stað þar sem slíkt gæti endað með meiðslum. Svo skiptir bara öllu máli að mæta í hlaupin eða gönguna. Ég mæli með því að hlaupa eða ganga í 20 - 30 mín. þrisvar í viku. Það sem skiptir einnig mjög miklu máli er að fólk reyni að finna sér vin/vinkonu til að mæta með sér í hlaupin. Eða að fólk skrái sig í hlaupahóp. Það gerir allt skemmtilegra. Svo er bara að muna að brosa. Hlaup eiga að vera skemmtileg og búa til vellíðan fyrir líkama og sál.“

Hvernig hlaupaskóm mælir þú með?

„Ég á hlaupaskó frá mörgum framleiðendum og reyni að hlaupa til skiptis í nokkrum pörum til að breyta álaginu. Núna eru uppáhaldshlaupaskórnir Nike Zoom Fly 3 og mæli ég hiklaust með þeim.“

Hvernig fatnaði hleypur þú í?

„Ég kaupi fatnað frá mörgum merkjum og blanda saman eftir veðri og hentugleika. Compressport, Asics, Inov8, Casall og Boss eru nokkur af þeim merkjum sem ég á fatnað frá.“

Getur þú borðað hvað sem er þar sem þú hleypur?

„Ég er að brenna meira þar sem ég hleyp og gæti því leyft mér að borða meira eða óhollara.  Ég kýs þó að borða minna af kjöti og meira af grænmætisréttum og finnst það skila sér í betri líðan.“

Hvað kom þér á óvart tengt hlaupunum?

„Upphaflega hóf ég hlaupin til að stunda líkamsrækt en nú snýst það ekki síður um félagsskapinn. Það er fjölbreyttur hópur fólks sem stundar hlaupin og ég er búinn að kynnast mörgu frábæru fólki í gegnum hlaupin.“

Hvað er eftirminnilegasta hlaup sem þú hefur farið í?

„Ég tók þátt í Berlínarmaraþoninu árið 2019 og er það stærsta og flottasta hlaup sem ég hef tekið þátt í.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál