Sykur getur verið meira ávanabindandi en kókaín

Það þarf ekki að vera flókið að hætta að borða …
Það þarf ekki að vera flókið að hætta að borða sykur í september. Þeir sem setja sykur út í kaffið geta prófað að sleppa því í mánuðinum. Margt smátt gerir eitt stórt. mbl.is/Colourbox

Sykurneyslan í heiminum hefur aukist mikið á undanförnum árum. Talið er að í hinum vestræna heimi borði meðalmanneskja talsvert meira en góðu hófi gegnir. Ástæðan fyrir því er meðal annars sú að sykur leynist víða, meðal annars er hann notaður til að bragðbæta matvæli. 

Að sögn landlæknis ætti fólk að forðast að borða mikið af viðbættum sykri. 

„Sykurvíma er sú sælutilfinning sem kemur í kjölfarið á að einstaklingur borðar sætt. Sykur  og önnur ávanabindandi vímuefni valda örvun á sömu svæðum í heilanum og veldur losun taugaboðefna á borð við dópamín. Þetta hafa einhverjir notað sem rök fyrir því að sykur sé ávanabindandi eitur,“ segir á vef Landlæknis. 

Matarfíknarráðgjafinn Esther Helga Guðmundsdóttur bendir á rannsóknir sem sýna að sykur getur verið meira ávanabindandi en kókaín. Esther þykir í hópi helsta fagfólks í heimi á sínu sviði. 

American Heart Association gengur lengra en margar aðrar stofnanir og hvetur fólk til að sneiða hjá viðbættum sykri. Enda eru vísbendingar um að sykur leiði til margs konar sjúkdóma hjá fólki ef of mikils magns er neytt. Mælt er með því að karlmenn fari ekki yfir 36 grömm af sykurinntöku daglega og konur haldi sig við 25 grömm eða minna. 

Á vefnum Mataræði má finna greinar sem vísa í rannsóknir þar sem fram kemur að miðlæg offita getur aukið hættu á krabbameini í ristli og að tengsl séu á milli óhóflegrar sykurneyslu og hjarta- og æðasjúkdóma. Hjartalæknirinn Axel F. Sigurðsson er umsjónarmaður vefsins. 

Það getur því verið til mikils að vinna að ná tökum á sykurátinu. Sykurlaus september getur verið góð leið til að komast að því hversu auðvelt er að sneiða hjá sykri og auka meðvitund fólks um hvaða matvælaframleiðendur sýna samfélagslega ábyrgð gagnvart innihaldsefnum í matvælum. 

Þeim sem hafa hug á að taka sykurlausan september er bent á facebookhóp Smartlands, þar sem fjallað verður um áhugavert efni sem getur stutt fólk áfram í átt að markmiðum sínum. 

Mataræði

American Heart Association

mbl.is

Bloggað um fréttina