„Ég hef þurft að gera allt sjálf“

Thelma Rut Magnúsdóttir fór í magaermaraðgerð fyrir einu ári.
Thelma Rut Magnúsdóttir fór í magaermaraðgerð fyrir einu ári. Ljósmynd/Aðsend

Frá því að Thelma Rut Magnúsdóttir var barn sveiflaðist líkamsþyngd hennar mikið til en auk þess að reyna alla megrunarkúra á fullorðinsaldri glímdi hún við lotugræðgi frá unglingsaldri. Líf Thelmu Rutar, sem býr í Kristiansand í Noregi, breyttist mikið þegar hún fór í magaermaraðgerð í ágúst í fyrra. Thelma Rut hefur þurft að hafa fyrir breytingunum sjálf og segir aðgerðina ekki töfralausn. 

Thelma Rut valdi að fara í magaermi frekar en aðrar aðgerðir vegna þess að henni fannst minnsta inngripið í þeirri aðgerð. Í aðgerðinni eru 80 til 85 prósent af maganum fjarlægð og ekkert átt við smáþarmana. Thelma framleiðir enn magasýrur til að hjálpa við meltinguna og tekur upp eitthvað af vítamínum úr matnum.

„Þessi aðgerð hefur hjálpað mer að horfa öðruvísi á mat, þar sem ég get borðað mikið minna í einu en áður og ég vil frekar borða mat með næringu en ekki fylla mig af óþarfa,“ segir Thelma Rut um hverju aðgerðin breytti fyrir hana. 

Var búin að prófa allt

Thelma Rut var búin að reyna alla kúra áður en hún fór í aðgerðina. Hún taldi ofan í sig hitaeiningar, hún var á Herbalife, prófaði Whole30-kúrinn, lágkolvetnakúrinn og svo mætti lengi telja. „Það hjálpaði mér tímabundið, ég léttist kannski um 30 kíló en bætti svo aftur á mig rúmlega því,“ segir Thelma Rut.

Thelma Rut segir reyndar að líkami hennar hafi sveiflast eins og jójó síðan hún var barn. Hún fékk einnig lotugræðgi þegar hún var 15 ára og segir að sjúkdómurinn hafi gert var við sig af og til alveg þar til hún byrjaði í undirbúningsferlinu fyrir aðgerðina en í dag er hún 34 ára. „Ég þurfti að fara til geðlæknis sem sérhæfir sig í átröskun áður en ég fór á þetta 10 vikna námskeið,“ segir Thelma Rut um undirbúninginn.

Hvernig var ástandið á þér áður en þú fórst í aðgerðina?

„Ég var alltaf þreytt og með kæfisvefn, ég var eiginlega svolítið búin að gefast upp á því að ná markmiðum mínum. Ég var óörugg með sjálfa mig, mér fannst ég aldrei fín i neinum fötum, gekk bara í víðum kjólum því mér fannst þeir fela magann. Sjálfsmyndin var i molum og mér leið ekki vel,“ segir Thelma Rut.

Andlega líðanin hefur batnað til muna enda hefur hún unnið mikið í henni. Hún segist lifa á besta dópinu, endorfíni. „Ég veit ekkert betra en að finna fyrir þessu gleðihormóni streyma um líkamann eftir góða æfingu.“

Thelma Rut er dugleg að mæta á æfingar.
Thelma Rut er dugleg að mæta á æfingar. Ljósmynd/Aðsend

Agi fyrir og eftir aðgerð

Þrátt fyrir að aðgerðin hafi breytt miklu fyrir Thelmu Rut leggur hún áherslu á að aðgerðin sé ekki töfralausn.

„Ég hef þurft að gera allt sjálf, það eina sem þessi aðgerð gerir er að minnka magnið af mat sem fer niður. Ef ég borðaði snakk og nammi alla daga myndi ég bara bæta á mig. Ég þurfti að missa 10% af þyngdinni minni fyrir aðgerð. Ég þurfti að minnka lifrina og var því á sérfæði í fjórar vikur fyrir aðgerð. Ég borðaði 800 kaloríur á dag á sérstaklega hönnuðu mataræði. Ég semsagt borðaði tvær hrökkbrauðssneiðar þrisvar sinnum á dag með áleggi sem var á listanum og svo borðaði ég kvöldmat. Ég borðaði mikið af fiski og grænmeti, ég mátti til dæmis bara borða fimm grömm af smjöri eða fitu á dag en ég sparaði það fyrir fiskinn.“

Til að ná þeim árangri sem Thelma Rut hefur náð hefur hún þurft að halda áfram að vera dugleg eftir aðgerðina.

„Ég mæti í ræktina fimm sinnum í viku. Ég fer alla virka daga klukkan fimm um morguninn að æfa, þegar allt var lokað í vor út af kórónuveirunni fór ég út klukkan fimm að skokka eða hlaupa. Ég vildi alls ekki detta út úr rútínunni að hreyfa mig. Þannig að já ég hef svo sannarlega þurft að vinna alla vinnuna sjálf.

Líkamleg líðan er þúsund sinnum betri en fyrir aðgerð, enda er ég í besta líkamlega formi sem ég hef verið í á ævi minni. Ég get miklu meira en áður, eins og að hlaupa eða fara í langa göngutúra. Ég tók þá ákvörðun í sumar að ganga til Søgne sem er næsti bær við þar sem ég bý. Ég gekk það alein, 18 kílómetra, á þremur klukkustundum. Þegar ég var komin þangað ákvað ég að skella mér upp að Søgnaskiltinu, sem er uppi á fjalli þar.  Þetta hefði ég aldrei getað fyrir aðgerð. Ég er með króníska verki í baki og þeir eru enn til staðar en þar sem vöðvarnir í kring eru orðnir sterkari höndla ég verkina betur.“

Thelma Rut geislar af gleði en hún fær mikið út …
Thelma Rut geislar af gleði en hún fær mikið út úr því að hreyfa sig reglulega. Ljósmynd/Aðsend

Að grennast bara bónus

Thelma Rut er dugleg að birta myndir á samfélagsmiðlum af ferðalagi sínu í átt að betri heilsu. Hún segist ekki vera feimin við það og vonar að síðan sé öðrum hvatning.

„Ég vona bara innilega að ég hjálpi einhverjum að byrja að æfa, sé hvetjandi fyrir þá sem fylgja mér. Ég myndi aldrei gera neitt annað en að vera hreinskilin og koma til dyranna eins og ég er klædd. Við lifum á svo skemmtilegum tímum og að vera samkvæmur sjálfum sér og sýna frá bæði því góða og því vonda gerir okkur bara mennsk,“ segir Thelma Rut.

Ertu komin á áfangastað eða ertu enn með markmið sem þú átt eftir að ná?

„Ég er langt komin, ég vil verða sterkari en líkamlega og andlega er ég mjög ánægð. Ég vil láta fjarlæga svuntuna þar sem hún er fyrir mér, en það bíður betri tíma. Markmiðið var aldrei að verða grönn. Það er bara kaupaukinn þegar maður byggir upp vöðva að vöðvar brenna fitu.“

mbl.is