Greindist með átröskun en náði tökum á henni

Helga Kristín Ingólfsdóttir segir dansinn yndislegan en mikilvægt sé fyrir þá sem stefna langt í þeirri listgrein að þeir hafi bein í nefinu. Hún glímdi við átröskun um tíma og upplifði mikinn kvíða. Helga Kristín var að hefja sitt annað ár í sálfræði í Háskólanum í Reykjavík.

„Ég var einnig að stimpla mig út úr sumarstarfinu hjá fjármálasviði Skeljungs en þar hef ég starfað síðastliðin þrjú sumur. Þá er ég að hefja störf hjá Jazzballettskóla Báru, JSB, og ætla að kenna þar í vetur samhliða náminu og er á fullu að undirbúa kennsluna. Síðustu dagar hafa því verði ansi annasamir.“

Hvað getur þú sagt mér um áhuga þinn á ballett?

„Ballett er falleg listgrein. Klassíska tónlistin sem dansað er við er svo falleg og maður kemst bara inn í annan heim þegar maður hlustar á hana og dansar. Aðalástæðan fyrir því að ég byrjaði í ballett var sú að mig dreymdi um að verða atvinnudansari úti í heimi einn daginn. Nútímadansinn heillaði og á þeim tíma hafði ég mjög gaman af því að fara á sýningar hjá Íslenska dansflokknum í Borgarleikhúsinu. Ég leit mikið upp til dansaranna þar og mig dreymdi um stóra sviðið. Ballettinn er undirstaða nútímadansins og til þess að ná mínum markmiðum um atvinnumennsku þá skipti ég úr samkvæmisdansi í ballett 12 ára og var ákveðin í að láta drauminn rætast.“

Langt ferli að ná tökum á heilbrigðu mataræði

Helga Kristín segir að það hafi tekið hana tíma að ná tökum á heilbrigðu mataræði.

„Ég fór í gegnum langt ferli hvað mataræði varðar til þess sem það er í dag. Segja má að matur hafi verið stór hluti af lífi mínu í jákvæðri og neikvæðri merkingu allt mitt líf. Nokkurra vikna gömul var ég lögð inn á spítala þar sem ég vildi ekki nærast og eftir ýmsar rannsóknir var niðurstaða læknanna sú að það væri í raun ekkert að mér. Ég væri bara ákveðin lítil stúlka sem vildi láta hafa fyrir sér og hafa hlutina eftir eigin höfði. Seinna meir kom í ljós að það var kannski eitthvað til í þessu hjá læknunum því eina leiðin til að láta mig drekka var þegar ég var sofandi.“

Greindist með átröskun árið 2015

„Þegar ég var yngri borðaði ég alltaf hollan og fjölbreyttan mat án þess að leggja einhverja sérstaka áherslu á það. Það var bara hluti af uppeldinu. Ég pældi aldrei í magninu. Ég borðaði allan mat og hafði aldrei áhyggjur af holdafarinu enda alltaf æft mjög mikið. Ég velti því aldrei fyrir mér hvort matur hefði áhrif á líkamsþyngd mína. Nammidagar voru ekki hefð hjá mér og fjölskyldunni. Það var engin sérstök ástæða fyrir því. Við bara einfaldlega sóttum lítið í sælgæti. Sælgæti var samt ekki á neinum bannlista en mamma vildi að við systkinin kynnum að umgangast nammi án þess að missa okkur einu sinni í viku í sykursukkinu. Þegar mann langaði í nammi þá var það borðað með bestu lyst og án allra áhyggja. Þessi lífsstíll minn breyttist hins vegar einn daginn þegar kona sagði við mig að ég ætti ekki að fá mér ábót af hádegismatnum í grunnskólanum því þá gæti ég fitnað. Í kjölfar þessa birtist hinn endalausi bannlisti í hausnum á mér þar sem sælgæti, gos, brauð og pasta fengu að blómstra á toppnum. Að sleppa úr máltíðum og aðeins borða einn skammt af mat eru dæmi um strangar hefðir sem hófust í mínu lífi. Þegar menntaskólinn tók síðan við þá jókst þetta enn meir og greindist ég síðan með átröskun í byrjun árs 2015.

Á þessum tíma var sjálfsöryggið horfið, hugmyndir mínar um mat og líkama minn urðu mjög brenglaðar. Ég sá sjálfa mig í allt öðru ljósi en áður og hætti að hlusta á allt góða fólkið í kringum mig sem var tilbúið að vera til staðar fyrir mig. Ég var hætt að geta klárað dansæfingar og kom grátandi út af sviði eftir hverja einustu danssýningu vegna þess að líkaminn og ég sjálf höfðum ekki lengur orku í þetta. Vitandi það að hafa komið út af sviði og ekki náð að gera mitt allra besta var einnig hræðileg tilfinning. Það skrítna við þetta allt saman var það að ég var mjög hrædd við átröskun. Ég vissi hverjar afleiðingarnar voru en samt ögraði ég sjálfri mér með öllu þessu „bulli“. Að minnka til dæmis matinn fyrir sýningar, menntaskólaböll og hina ýmsu viðburði eru dæmi um „bull“ en með þessu taldi ég að ég yrði „besta“ útgáfan af sjálfri mér. Kvíði yfir því að borða með öðrum og þörfin fyrir það að skoða matseðla á heimasíðum veitingastaða áður en haldið var þangað með vinkonum var einnig fastur liður í lífi mínu.“

Foreldrarnir gripu inn í

Foreldrar Helgu Kristínar gripu fast inn í ferlið þegar þau sáu hana komna í vanda.

„Það gekk mikið á en ég á ákveðna foreldra sem gripu strax inn í og hjálpuðu mér að komast á rétt strik og fyrsta skrefið í því var að mæta reglulega upp á Hvítaband, átröskunarteymi Landspítalans. Þar var ég studd af yndislegu fólki í nokkra mánuði eða þar til ég flutti til Svíþjóðar til þess að hefja nám við Konunglega sænska ballettskólann. Ég leit á það sem langtímaverkefni að koma matarhegðun minni í lag og þurfti að einbeita mér stöðugt að því að koma þessu í lag. Ég var ekki búin að ná fullum bata þegar ég flutti til Svíþjóðar en ég held að á margan hátt hafi það gert mér gott. Það var gott að breyta um umhverfi og að standa á eigin fótum. Ég kynntist nýju fólki og tókst á við ný og krefjandi verkefni sem hjálpaði mér. Þar var ég líka ein og vissi að ég gat ekki bara treyst á fjölskylduna til að bjarga mér. Ég varð að gera þetta sjálf.“

Náði bata og segir hollustuna skipta máli

Þó þessi tími hafi verið áskorun þá komst hún í gegnum hann og á betri stað.

„Þetta var erfiður tími en í dag tel ég mig vera á mjög góðum stað hvað varðar líkamlega og andlega heilsu. Í dag legg ég mikla áherslu á að borða reglulega yfir daginn. Ég borða hollan, hreinan og fjölbreyttan mat. Eins borða ég sælgæti þegar ég vil en hef hugfast að allt er gott í hófi.“

Helga Kristín segir mat skipta gríðarlegu máli fyrir líf okkar og heilsu.

„Við þurfum hollan og góðan mat sem gefur okkur orku til þess að líkaminn og heilinn virki rétt. Sú lífsreynsla að greinast með átröskun kenndi mér að velja mér betri lífsstíl. Það var ekki létt og á leiðinni urðu margar hindranir en þannig er það í lífinu. Það er ekki alltaf slétt og fellt. Þetta var minn bardagi og ég vann.“

Hvað getur þú sagt mér um tíma þinn í Konunglega sænska ballettskólanum?

„Dvöl mín í Svíþjóð var mjög lærdómsrík og skemmtileg en einnig krefjandi. Þetta var í fyrsta skipti sem ég flutti frá fjölskyldu og vinum þó ég hefði áður búið tvö sumur í New York og stundað nám við The Alvin Ailey-dansskólann. Að flytja til Svíþjóðar var í raun mitt fyrsta skref í þá átt að standa á eigin fótum og þarna lærði ég bæði á lífið og sjálfa mig. Samhliða náminu í Svíþjóð var ég í fjarnámi úr Verzlunarskóla Íslands og útskrifaðist ég úr báðum skólum sumarið 2016. Þetta var pínu klikkað en gaman.“

Upplifði margt óeðlilegt í dansinum

Nú eru allskonar sögur um óeðlilegan aga og óraunhæfar kröfur á atvinnustigi nútímadansara. Upplifðir þú slíkt?

„Draumur minn um að verða atvinnudansari rættist þegar ég fékk starf við The National Theater í Mannheim í Þýskalandi en þar var ég í tvö ár. Í atvinnumennskunni kynntist ég hinum harða heimi dansins. Mér hefur alltaf fundist mikilvægt að það séu settar kröfur á mig sem dansara og þegar maður er hluti af dansflokki þá skiptir það mig miklu máli að það ríki agi á vinnustaðnum mínum. Agi þarf ekki að vera neikvæður og ekki kröfur heldur ef þeim er beitt skynsamlega. Þetta tvennt ætti einungis að hvetja mann til þess að gera betur en eins og þú segir, um leið og þetta er farið að verða ,,óeðlilegt“ þá er það mín skoðun að þetta fari að vinna gegn dansaranum og geti brotið hann niður.

Því miður ríkir enn gamaldags hugarfar í dansheiminum að mínu mati. Óeðlilegar kröfur um líkamlegt ástand og mataræði sem helst svo ekki í hendur við öll þau dansspor sem maður á að geta gert. Vinnuálagið er einnig mjög mikið. Ég hef kynnst ýmsu á mínum ferli og upplifað margt sem mér finnst ekki eiga heima í nokkurri atvinnustétt.

Það sem skiptir hins vegar öllu er að maður verður að standa á sínu og setja sjálfan sig í fyrsta sæti. Það eru til ótal dansflokkar í heiminum og áherslur þeirra eru mismunandi og ég trúi því að ef maður leitar vel þá finni maður þann dansflokk sem maður er til í að vera partur af og gerir mann að betri dansara og manneskju.“

Áttu ráð til ungra dansara sem setja markið hátt?

„Mitt ráð er að vera maður sjálfur og bera virðingu fyrir sjálfum sér. Það skiptir líka máli að hafa bein í nefinu!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál