Matur getur haft áhrif á andlega líðan og andleg líðan á fæðuval

Anna Sigríður Ólafsdóttir doktor og prófessor í næringarfræði.
Anna Sigríður Ólafsdóttir doktor og prófessor í næringarfræði.

Erfitt er að henda reiður á öllum þeim upplýsingum sem berast úr öllum áttum um næringu og mataræði. Anna Sigríður Ólafsdóttir segir að kórónuveirufaraldurinn hafi líklega breytt fæðumynstri margra til hins verra. 

Sennilega eru flestir lesendur í þeim sporum að þeir myndu ekki fúlsa við að missa örfá kíló, fá mjótt mitti, kröftuga vöðva og vera til í hvað sem er. Reglulega skjóta upp kollinum kraftaverkakúrar sem eiga að hjálpa fólki að léttast og losna við alls konar kvilla, helst með sem minnstri fyrirhöfn, og þökk sé samfélagsmiðlum dreifast fregnir af nýjum ofurmatvælum og undralausnum á ógnarhraða um netið. Við fáum upplýsingar úr öllum áttum um hvað er og hvað er ekki hollt og gott mataræði, og iðulega stangast það sem einn segir á við það sem sá næsti fullyrðir að sé lykillinn að fegurð og heilsu. Er nema von að aldrei hafi verið erfiðara að vita hvað er satt og rétt.

Anna Sigríður Ólafsdóttir er prófessor í næringarfræði við Menntavísindasvið HÍ og segir að bylgjur og tískusveiflur í mataræði virðist núna koma hraðar en áður, dreifast alþjóðlega og innan hópa frekar en þvert á lönd eða bæjarfélög eins og var vaninn áður fyrr. „Samfélagsmiðlar, streymisveitur og fréttamiðlar hvers konar tryggja bæði hraðara og meira flæði upplýsinga, en um leið getur verið erfiðara að átta sig á því hvað er byggt á traustum grunni og hvað er síður ígrundað. Hröð dreifing og endurtekið áreiti sem auk þess er miðað að völdum markhópum og innan samfélagshópa sem maður samsamar sig við getur hratt haft áhrif á neysluvenjur,“ segir hún. „Það má samt velta fyrir sér hvort árlega kúrabylgjan sé ekki að líða undir lok og hvort ástandið sem ríkt hefur vegna kórónuveirufaraldursins hafi ekki kallað fram aðra forgangsröðun hjá mörgum, sérstaklega þar sem breytingar hafa orðið á daglegri rútínu og jafnvel lífsskilyrðum fólks.“

Breytingar á högum fólks breyta mataræðinu

Einn af þeim straumum sem eru hvað mest áberandi í mataræðis-umræðunni þesssi misserin er aukin áhersla á jurtafæði. „Sífellt fleiri sýna grænkerafæði áhuga þótt fáir fari alla leið. Þá eru æ fleiri sem leggja áherslu á að matreiða frá grunni, hafa ákveðinn einfaldleika í matseldinni og velja gott hráefni,“ segir Anna Sigríður. „Samhliða því eykst áherslan á að velja fæðu úr heimabyggð og draga úr matarsóun. Þessir áhersluþættir eru ólíkir kúrum eða lífsstílslausnum sem voru lengi vel þungamiðjan og mátti reikna með að kæmu með fyrstu haustlægðinni. Bólurnar virðast færri og tískustraumarnir staldra lengur við.“

Inn í þetta spilar síðan hvernig framleiðendur reyna að mæta ólíkum þörfum neytenda og bendir Anna Sigríður á að til dæmis hafi aldrei verið auðveldara að vera grænkeri, þökk sé ágætu framboði á tilbúnum og hálftilbúnum réttum sem innihalda engar dýraafurðir. Að sama skapi er framboð á matvörum sem henta lágkolvetna-lífsstíl nú með mesta móti. Breytingar á högum fólks virðast líka hafa áhrif. „Ef við hugsum sérstaklega um það ástand sem ríkt hefur þetta ár má horfa til þess að sumir hafa meiri frítíma en áður og njóta þess jafnvel að verja meiri tíma í matargerð. Þetta má meðal annars sjá á miklum vinsældum súrdeigsbaksturs. Á móti kemur að aðrir hafa kannski minni tíma en áður til að huga að mataræði og matseld, auk þess sem streita og áhyggjur geta haft afgerandi áhrif á bæði matarlyst og löngun til að matreiða.“

Aukakíló á tímum faraldurs

Þessu tengt þá benda erlendar kannanir til að hjá mörgum hafi fæðumynstrið breyst vegna kórónuveirufaraldursins, og oftar til hins verra. Þar spilar inn í streita, breyttir heimilishagir og breytt starfsumhverfi, fjárhagslegar þrengingar og breytt aðgengi að mat. „Covid-kílóin hafa verið títtnefnd í fjölmiðlum og hjá almenningi. Það kann að kalla fram togstreitu og ýta undir að fólk vilji fara í átak til að ná sér aftur á strik en á sama tíma eru það eðlileg viðbrögð við streitu og áhyggjum að matarlyst breytist og fæðuvalið með. Það þarf því að fara varlega í ásökunum og hvatning til heilsusamlegra lífshátta ætti alltaf að vera á jákvæðan hátt og beinast að vellíðan og heilsu en ekki holdafari.“

Vilji fólk breyta mataræðinu og jafnvel prófa nýjustu kúrana gildir að lesa sér vel til og leita að traustum upplýsingum, gjarnan með stuðningi fagaðila, og hafa það hugfast að yfirleitt reynast viðráðanlegar langtímabreytingar betur en öfgakenndir kúrar. „Það má heldur ekki gleyma því að matur snýst ekki bara um að næra kroppinn og tryggja þau næringarefni sem hann þarf til vaxtar og viðhalds heldur gegna máltíðir bæði félagslegu og menningarbundnu hlutverki og andlegi þátturinn er sterklega tengdur við mat. Þannig getur matur haft áhrif á andlega líðan og andleg líðan á fæðuval,“ segir Anna Sigríður.

Meira grænt og minni sykur

Ein nýjasta bylgjan í næringarmálum er svokallað macros-matræði sem felst í því að fólk vigtar allt sem það borðar og telur hitaeiningar og orkuefni af nákvæmni. Anna Sigríður segir þessa nálgun að vissu leyti afturhvarf til megrunarkúra fyrri tíma en stóri munurinn er sá að snjallforrit leika núna stórt hlutverk og auðvelda næringarútreikningana. „Þá er víða hægt að fá útreiknaða matseðla og jafnvel heimsendan mat sem hefur verið útbúinn í samræmi við ákveðna orkuþörf.“

Um macros-matræði hefur Anna það að segja að vissulega geti hjálpað fólki að læra betur á matinn sem það neytir að vigta hann og reikna næringarinnihaldið. Þá geti vigtunin dregið úr líkunum á að fólk borði án umhugsunar. „Það er reyndar kostur að enginn matur er skilgreindur sem bannvara og macros-mataræði því ekki takmarkandi. Samt má velta fyrir sér hversu skynsamlegt það er að telja matinn ofan í sig á þennan hátt og hætt við að kjarni máltíðanna og eðlilegt flæði tapist. Auk þess þarf að hafa í huga að of miklar áhyggjur af því hvað við látum ofan í okkur geti verið hamlandi og aukið á kvíða og óeðlilegt samband við mat,“ segir hún. „Fyrir flesta – nema þeir hafi þeim mun meira gaman af tölulegum upplýsingum og umstanginu sem fylgir – er einfaldara ráð að gæta að því að auka trefjamagnið í fæðunni, auka hlut grænmetis, ávaxta og grófs jurtafæðis og draga úr neyslu mikið unninna og næringarsnauðra mat- og drykkjarvara. Benda rannsóknir almennt til þess að fyrir þyngdarstjórnun skipti meira máli að velja trefjaríkan og hollan mat og forðast viðbættan sykur, einföld kolvetni og mikið unnar vörur frekar en að einblína á hlutfall orkuefna í hverri máltíð. Borða ætti venjulegan mat, mest úr jurtaríkinu, og borða hæfilega mikið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »