Heilbrigð fjölskylda góð fyrir heilsuna

Arndís segir að í Kramhúsinu megi allir vera eins og …
Arndís segir að í Kramhúsinu megi allir vera eins og þeir eru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arndís Kristjánsdóttir segist oft heyra að hún sé í dæmigerðri ítalskri fjölskyldu, þar sem mikil nánd er á milli kynslóða. Hún er framkvæmdastjóri Kramhússins og segir Hafdísi Árnadóttur, tengdamömmu sína og stofnanda Kramhússins, vera einn þann besta vin sem nokkur kona gæti eignast í lífinu.

„Þessa dagana erum við í Kramhúsinu á fullu að undirbúa haustönnina okkar sem hefst 7. september og er að vanda með fullt af sjóðheitum námskeiðum. Yngsti sonur minn er svo að fermast í september, sá eldri að flytja til Flateyrar í lýðskólann og stjúpsonurinn til New York í leiklistanám. Þá var að flytja til okkar sjúklega sæt lítil kisa, Fluga, og það er eins konar aðlögunartímabil í gangi á heimilinu því fyrir eigum við labradortík, Móu, og það samneyti hefur verið örlítið flókið. Svo eigum við maðurinn minn, Ingólfur Ásgeirsson, laxveiðifyrirtækið Starir ásamt viðskiptafélögum. Sá rekstur hefur verið áskorun í sumar vegna kórónuveirunnar og Ingólfur því verið við árnar sem við rekum í allt sumar. Þegar ég er nett að bugast á þessu öllu þá er besta stresslosunarmeðalið að fara til Hafdísar tengdamóður og stofnanda Kramhússins, fá eitt rauðvínsglas og þiggja góð ráð,“ segir Arndís.

Dansaði sjálf brjálaðan afródans

„Þegar við þurftum að loka húsinu skyndilega vegna veirunnar, fórum við af stað með fjarkennslu sem sló rækilega í gegn. Við settum svo af stað í fyrsta skipti í sögu hússins sumarönn í júní og Íslendingar voru svo dansþyrstir eftir kórónuveirutímabilið að öll námskeið fylltust. Þá buðum við, í samstarfi við Reykjavíkurborg, upp á útidanstíma út um allan miðbæ í allt sumar sem vakti mikla ánægju hjá þátttakendum og áhorfendum og kryddaði miðbæjarlífið.

Við verðum með fullt af nýjum spennandi námskeiðum eins og Afróbeat/dancehall, Flex body með Siggu Ásgeirs eðaldívu, RuPaul og PartyWorkout. Auðvitað verða hinir klassísku og sívinsælu tímar eins og Afro, Beyoncé, magadans og pilates á dagskrá svo eitthvað mætti nefna.“

Hvernig er fyrsta minning þín frá Kramhúsinu?

„Mín fyrsta minning um Kramhúsið er einmitt af því að dansa brjálaðan afródans við dynjandi trommuslátt sem var alger upplifun. Þá dreymdi mig ekki um að ég myndi giftast inn í þessa orkumiklu fjölskyldu og njóta þess að eiga eilífðarsnillinginn Hafdísi Árnadóttur sem tengdamóður,“ segir Arndís. Fjölskyldu hennar er oft líkt við ítalska fjölskyldu þar sem ömmurnar leika stórt hlutverk.

„Vinir okkar lýsa okkur oft þannig að við séum eins og ítölsk fjölskylda þar sem amma Haddy og amma Alla eru kjarninn í flestu af því sem við tökum okkur fyrir hendur. Við erum dugleg að fara í ferðalög og þá eru ömmurnar gjarnar með. Svo elskum við að halda matarboð og þá eru ömmurnar alltaf með í boðinu. Hafdís elskar líka að bjóða okkur í mat og þá er uppáhaldsmaturinn hans Ingós mannsins míns yfirleitt á boðstólum, ostar og vínber í forrétt og hryggur í aðalrétt, gott rauðvín og talað mjög hátt um allt milli himins og jarðar. Þetta eru okkar bestu stundir.“

Arndís Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Kramhússins.
Arndís Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Kramhússins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arndís og Ingólfur hafa verið gift í 15 ár og segir hún að Hafdís sé sín fyrirmynd í lífinu.

„Hafdís er ekki bara mín helsta fyrirmynd heldur jafnframt mjög náinn trúnaðarvinur og við höfum verið það nánast frá fyrsta degi.

Sumir myndu halda að það væri dálítið erfitt að vinna með tengdamóður sinni en það á sko alls ekki við um Hafdísi. Hún hefur átt og rekið Kramhúsið í 36 ár og þekkir hvern krók og kima rekstursins og hefur reynt flest. Samt er hún ótrúlega nýjungagjörn og óhrædd við að taka áhættu og leyfa nýju fólki eins og mér að spreyta sig.

Henni verður tíðrætt um hvað ég sé ung og orkumikil eitthvað sem mér sjálfri finnst oft alger fjarstæða. Hún stofnaði hins vegar sjálf Kramhúsið þegar hún var á mínum aldri, einstæð móðirin, þannig að henni finnst ég eiga allt lífið eftir. Þarna hittir hún einmitt naglann á höfuðið því aldur er afstæður og í raun snýst hann fyrst og fremst um hugarfar.

Það eru þvílík forréttindi að eiga Hafdísi sem tengdamóður því hún tekur öllum opnum örmum og býður þá velkomna nákvæmlega eins og þeir eru. Þannig hefur hún líka alltaf rekið Kramhúsið. Hér geta allir dansað með sínum takti. Aðalmálið er að gleðjast og njóta.“

Ekki að reyna að breyta fólki

Hvað mælir þú með að fólk geri sem langar að hreyfa sig en hefur ekki komið sér af stað?

„Það sem skiptir langmestu máli upp á að vilja hreyfa sig er hvatningin. Því tel ég það vera mjög mikilvægt að velja sér hreyfingu sem maður hefur áhuga á.

Allt of margir eru með neikvæða líkamsmynd og í raun nærist viðskiptamódel hefðbundinna líkamsræktarstaða einmitt á því. Við förum í ræktina til að fá „six pack“ eins og Beckham eða rass eins og Kardashian og viljum vera stæltari eða grennri en við erum. Síðan hömumst við og hömumst en gleymum að hafa gaman. Þetta verður því allt of oft svona átak sem endar eins. Við hættum og fáum svo geðveikt samviskubit.

Kramhúsið hefur ekki áhuga á að breyta einum né neinum. Hér er enginn tími sem snýst um að minnka fituhlutfallið eða komast í kjólinn fyrir jólin því í okkar huga eru allir líkamar fallegir. Í Kramhúsinu þarf enginn að verða neitt. Hér er fólk bara komið til að vera og eiga sína stund án þess að nokkur sé að pæla í manni.

Margir hverjir sem koma í Kramhúsið hafa einmitt ekki áhuga á hefðbundinni líkamsrækt og velja sér því kannski að fara frekar í dansleikfimi eða á Hips dont lie eða RuPaul-dansnámskeið heldur en í ræktina.“

Arndís segir að svefnvandamál og streita sé það sem er oft og tíðum að hrjá nútímamanninn og tengir hún við það hvort tveggja.

„Mér hefur verið mjög umhugað um svefn og streitu að undanförnu. Það er eitthvað sem ég hef glímt við alla ævi og með aldrinum verður þessi lífsstíll sífellt erfiðari. Streitan er auðvitað algert eitur og í raun ástæða svefnvandamála minna og eflaust flestra. Ég hef reynt ýmislegt til að ná tökum á henni en viðurkenni að ég er ekki með neina töfralausn. Það sem mér hefur fundist skipta mestu máli er að hreyfa mig reglulega því orkan og gleðin henni samfara keyrir upp endorfín líkamans og það er mikil heilun í því fyrir mig bæði andlega og líkamlega.

Í raun hef ég oft velt því fyrir mér hvort við gætum ekki dregið verulega úr fjárútlátum ríkisins vegna kvíðastillandi lyfja með því að styrkja fólk til hreyfingar. Ég held að það myndi auka vellíðan þjóðarinnar til muna.“

Hvernig finnst þér að eldast?

„Mér finnst ég auðvitað alltaf svo ung í anda – þó svo að 14 ára syni mínum finnist það ekki þegar hann er að kenna mér á TikTok. Ef Hafdís tengamóðir mín hefur kennt mér eitthvað þá er það að aldur er ekkert nema hugarfar. Hún er 81 árs og kennir ennþá leikfimi ásamt því að vita miklu betur en ég hvað er að gerast hjá unga fólkinu. Mamma mín sem heitir Aðalheiður Jóhannesdóttir er líka ekki síðri hvað þetta varðar. Þær eiga það sammerkt að vera með ótrúlega létt lundarfar, eru afslappaðar, alltaf hlæjandi og elska að vera í kringum fólk. Svo hafa þær báðar alla tíð verið mjög duglegar að hreyfa sig, labba allt og nota hvert tækifæri til að dansa og gleðjast. Það er að mínu mati lykillinn að skemmtilegu lífi á hvaða aldri sem er.

Heilbrigði fyrir mér er að líða bæði andlega og líkamlega vel, huga jafnvel að andlegum og líkamlegum þörfum og passa vel upp á sig. Enda helst þetta tvennt í hendur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »