Svala fékk alvarlega áfallastreitu og er enn bílhrædd

Svala Björvins fékk alvarlega áfallastreitu eftir bílslysið.
Svala Björvins fékk alvarlega áfallastreitu eftir bílslysið. Andres Putting

Svala Björgvinsdóttir, sem var orðin stjórstjarna í poppbransanum á unga aldri er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Svala hefur tekið alls kyns beygjur á ferlinum, en alltaf haldið í ástríðuna fyrir að búa til tónlist. Hún þekkir ekkert annað en að eiga einn frægasta einstakling Íslands sem pabba og fékk músíkina nánast í vöggugjöf. Erfiðasta tímabil lífs hennar og það sem breytti henni mest var þegar hún lenti í bílslysi þar sem bæði hún og kærastinn hennar til margra ára voru mjög hætt komin.

„Ég varð gríðarlega bílhrædd eftir þetta og gat ekki keyrt bíl í nokkur ár á eftir og átti alltaf erfitt með að vera í bíl. Þetta bjó til áfallastreitu sem tók mig nokkur ár að ná mig úr. Ég er í raun enn bílhrædd við aðra bíla, af því að þetta atvik var þannig að það var annar bíll en okkar sem missti stjórnina og keyrði síðan framan á okkur. Hann var á 120 kílómetra hraða, þannig að þetta bjó til hræðslu við aðra bíla og aðra ökumenn.“

Bæði Svala og ekki síst kærastinn hennar til margra ára, Einar Egilsson, voru hætt komin eftir slysið.

„Þegar ég lenti í bílslysinu 2008 kom heilt ár sem var mjög erfitt. Það var alvöru áfall. Svona atvik breytir lífi manns algjörlega. Ég var með Einari fyrrverandi kærastanum mínum og hann var í öndunarvél í heila viku og fór í margar aðgerðir, ég var á gjörgæslu með innvortis blæðingar og þetta var bara rosalegt. Við vorum að fara á tónleikaferðalag í Skandinavíu og við vorum með pabba Einars og bræðurnir þrír og svo ég í bílnum. Einar setti mig í belti bara fimm mínútum áður en það var keyrt á okkur, þannig að hann bjargaði mér líklega. En lifrin á mér fór í sundur og það voru innvortis blæðingar og mar út um allt. Einar slasaðist samt mest af okkur af því að hann var bara með tveggja punkta belti. Það voru bara helmingslíkur á að hann myndi lifa af í tvo daga og ég fékk meira að segja að kveðja hann ef hann færi. Þegar þú lendir í svona hugsar þú alltaf eftir það að þú getir farið hvenær sem er og áttar þig betur á því að lífið er bara núna og það er hverfult. Maður þarf að vanda sig í lífinu. Þetta breytir lífssýninni. Ég skoða alltaf myndirnar af þessu hvert ár, til að minna mig á að vera þakklát. Pabbi hans Einars (Egill Eðvarðsson) tók myndir af öllu saman. Þegar Einar var í öndunarvél og ég á gjörgæslu og allt hitt. Hann myndaði þetta allt. Maður verður að muna að lífið er brothætt.“

Í viðtalinu ræða Svala og Sölvi um kvíða sem hún burðaðist með í áraraðir, sem tók sig upp eftir bílslysið, en er núna undir góðri stjórn.

„Ég fæ mitt fyrsta kvíðakast þegar ég var sex ára og ég man það eins og það hafi gerst í gær. Af því að ef ég fæ kvíðakast í dag þá er það sama kvíðakastið. Það skrýtna við þetta að þetta var ekki út af neinu merkilegu. Ég hélt að mamma og pabbi væru að skilja mig eftir, en þau voru bara að leita að mér í hverfinu og ég sé bílinn keyra í burtu. Þá fékk ég mitt fyrsta kvíðakast og gleymdi þessu aldrei, þó að þau hafi komið aftur mínútu seinna eða eitthvað. Ætli ég hafi ekki bara verið tilfinninganæmt barn. En kvíðaköst eru agalegt fyrirbæri. Svakalegur hjartsláttur, kaldur sviti, óraunveruleikatilfinning og maður nær varla andanum. Á tímabili þegar ég var unglingur byrjaði þetta að koma úr engu bara þegar ég var að horfa á sjónvarpið. En þetta er komið undir mikla stjórn hjá mér í dag.“

Svala segir að það hafi breytt öllu fyrir sig að fá hjálp og fara í bæði samtals- og lyfjameðferð.

„Svo komst ég bara að því þegar ég var 25 ára að ég var bara ekki að framleiða nógu mikið seratónín og þess vegna var ég að fá kvíða. Ég var sett á seratónín lyf og þá lagaðist ég mjög mikið og fór að líða mun betur. Ég var búin að vera á hnefanum fram að því og skammaðist mín rosalega fyrir þetta. Ég þurfti aðstoð við að læra undir próf og fara í próf og á verstu köflunum gat ég bara ekki farið úr húsi af því að ég var með kvíða frá því ég vaknaði þangað til ég fór að sofa.“

Í viðtalinu fara Svala og Sölvi yfir magnaðan feril Svölu, ótrúleg augnablik á ferðalaginu og nýja kaflann í lífi hennar eftir að hún flutti heim til Íslands á nýjan leik í eftir margra ára útlegð í Bandaríkjunum.

Viðtalið má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is