„Lykillinn er að byrja daginn á hreyfingu“

Lily James.
Lily James. AFP

Hollywood-leikkonan Lily James áttaði sig á því í útgöngubanni vegna kórónuveirunnar að það hjálpaði henni að búa sér til sína eigin rútínu. Hún segir hreyfingu sterkasta vopnið. Æfing á morgnana setti tóninn fyrir daginn hjá James þegar hún var ekki að vinna. 

„Ég komst að því að lykillinn er að byrja daginn á hreyfingu. Þegar ég æfi reglulga finn ég strax ávinninginn,“ sagði James í viðtali við Shape. Hún líkir þessu við dómínóáhrif. Þegar hún hreyfir sig meira borðar hún hollari fæðu, drekkur minna áfengi og er svo aftur orkumeiri daginn eftir til þess að mæta aftur á æfingu. 

Það skiptir þó máli að stunda hreyfingu sem er skemmtileg. 

„Í útgöngubanninu þurfti ég að gera æfingarnar skemmtilegar, annars hefði ég misst áhugann. Í staðinn fyrir venjulega jóga- og pílatestíma fór ég daglega í danstíma hjá Formation Studios. Ég lærði skemmtilega dansrútínu snemma og gat ekki hætt að dansa. Næsta dag kallaði nágranni minn á mig: „Ó guð Lily, þú spilaðir þetta lag í þrjá og hálfan tíma.““

James sagðist einnig hafa byrjað að hjóla aftur meðan á kórónuveirunni stóð. 

„Ég hjólaði allt sem ég fór þegar ég flutti til Lundúna, þangað til hjólinu mínu var stolið. Þá byrjaði ég að nota Uber. Nýlega fékk ég mér aftur hjól og það hefur verið svo mikil gjöf. Það fylgir því mikið frelsi að hjóla án stefnu. Það hjálpar mér að hugsa ekki of mikið og tengir mig við núið.“

Hún segir það skipta mestu máli að finna gleðina sem fylgir því að hreyfa sig. 

„Ég veit að ég þarf að vera í góðu formi og ég veit að hreyfing er góð fyrir mig. En það er svo miklu betra þegar það lætur mér líða vel í stað þess að þetta sé eitthvað sem ég neyðist til að gera,“ segir James sem leggur þó einnig mikið upp úr því að vera góð við sjálfa sig og er ekki hörð við sig ef hún er löt einn dag og sleppir æfingu.

Lily James.
Lily James. AFP
mbl.is