Er til betri leið til að nota líkamsræktina?

Sveinn Þorgeirsson.
Sveinn Þorgeirsson.

Besta heilsuræktin, segir Sveinn Þorgeirsson, er sú sem fólk hefur gaman af og nýtur þess að iðka.

Reglulega fara nýjar kenningar á kreik um betri, þægilegri, fljótlegri, skilvirkari eða skemmtilegri leiðir til að gera kroppinn spengilegan, stækka vöðvana og brenna fitu. Þegar svipast er um á netinu eða flett í gegnum glanstímarit um líkamsrækt má sjá að kenningarnar spanna allan skalann: á einum stað er kannski mælt með að lyfta þungum lóðum og lyfta sjaldan, á meðan annar sérfræðingur lofar mestum árangri með því að lyfta léttum lóðum og lyfta oftar. Einn leggur til að gera þolæfingar að morgni dags, á fastandi maga, en annar vill meina að það sé allra meina bót að gera þolæfingarnar á kvöldin. Svona mætti lengi telja.

Sveinn Þorgeirsson segir skiljanlegt að hinn almenni borgari eigi ekki auðvelt með að átta sig á hvað er rétt og hvað er rangt í þessum fræðum en vísindalegar rannsóknir virðist þó renna æ sterkari stoðum undir þau meginlögmál sem hafa vísað veginn í líkamsrækt undanfarna áratugi: „Líkaminn bregst við áreiti með því að virkja vöðvaþræðina og auka getu þeirra. Með skipulögðu áreiti má svo efla þá enn frekar og stækka sé það markmiðið en ef áreitið er of lítið tapast styrkur og úthald vöðvanna og þeir rýrna. Líkaminn aðlagast síðan álaginu og þarf að reyna meira á vöðvana til að sjá meiri árangur. Fátt er nýtt undir sólinni í þeim efnum.“

Sveinn er aðjúkt við íþróttafræðideild HR og verkefnastjóri hjá afreksíþróttasviði Borgarholtsskóla og segir að fyrir hinn almenna Íslending skipti ekki endilega höfuðmáli að eltast við allra nýjustu kenningar sem yfirleitt eru sniðnar að þörfum afreksíþróttafólks í leit að ögn meira forskoti á sínu tiltekna sviði. Fyrir mestu er að hafa gaman af að hreyfa sig hvort sem það er í líkamsræktinni, í íþróttum eða útivist því ef hreyfingin er ekki ánægjuleg er erfiðara að koma því upp í vana að reyna á líkamann og auðveldara verður að hætta. „Besta hreyfingin er sú sem fólk hefur einlægan áhuga á og elskar að iðka.“

Æfingaáætlun sem hæfi hverjum og einum

Bendir Sveinn á að mörgum þyki líkamsræktarstöðvar hreinlega alls ekki skemmtilegir staðir til að vera á, og fyrir þann hóp geti verið gagnlegra að finna aðra leið til að stunda reglulegar æfingar. Að því sögðu geta tækin í líkamsræktarstöðvunum komið að miklu gagni ef þau eru notuð rétt. Ættu þeir sem þykir gaman að mæta í ræktina – og tekst að viðhalda áhuganum – að geta séð árangur nokkuð hratt og vel. Þar segir Sveinn að skipti lykilmáli að gera persónusniðna æfingaáætlun sem smellpassar við getu og þarfir hvers og eins. „Í sumum líkamsræktarstöðvum er hægt að finna rekka með tilbúnum æfingaáætlunum en fyrir mér er það alveg verðlaus pappír enda er fólk svo breytilegt. Áætlun sem hentar einum getur verið mjög óhentug fyrir annan og jafnvel skapað hættu á slysum og álagsmeiðslum.“

Fólk ætti að þreifa sig áfram og vera ófeimið við að prófa nýja tegund hreyfingar, útivistar og íþrótta þar til það finnur eitthvað við sitt hæfi. Sumum gæti hentað best að fjárfesta í góðu hjóli eða gönguskíðum, ellegar kaupa sundlaugarkort og taka nokkra hringi í lauginni í byrjun dags eða eftir vinnu. Enn aðrir finna sig í danstímum ellegar bumbubolta með gömlum félögum, eða finnst það veita gott aðhald að stunda asískar bardagaíþróttir þar sem agi og virðing fléttast saman við það að færast upp á nýtt og nýtt stig með nýju belti.

Sveinn segir að það geti samt alltaf gerst að áhuginn dali eða eitthvað valdi því að iðkendur geri hlé á æfingum og finnist erfitt að byrja aftur. Hægt er að beita nokkrum góðum ráðum til að forðast þannig gildrur og missa ekki móðinn. Að sögn Sveins eru félagsleg tengsl einhver sterkasti hvatinn til að mæta á æfingar og erfitt að svíkjast um að mæta ef að æfingafélagi bíður eftir manni eða vinahópinn vantar liðsmann til að hafa jafnt í liðum í körfubolta. „Það getur verið freistandi að búa til alls konar afsakanir fyrir því að komast ekki í ræktina, t.d. eftir langan og erfiðan vinnudag, en þá er björninn oft unninn með því einu að mæta á staðinn. Viðhorfið breytist oft þegar gengið er inn um dyrnar og í búningsklefann.“

Ekki láta glepjast

Ýmis æfingakerfi og forrit lofa miklum árangri og auglýsa sig með „fyrir“- og „eftir“-myndum af fólki sem tókst að breytast á nokkrum mánuðum úr búttuðum meðaljónum í stælt og stæðileg kyntákn. Gallinn við þessi kerfi er að þó svo myndirnar kunni að segja sannleikann þá vantar ljósmyndirnar af öllum þeim sem gáfust upp og náðu litlum sem engum árangri s.s. vegna þess að harkan í æfingunum var of mikil.

Vissulega hafa sumir þann aga, tíma, og gen sem þarf til að takast á við virkilega krefjandi æfingar sem valda því að fitan fuðrar upp og vöðvarnir þrútna, og státa má af miklum árangri á skömmum tíma. En fyrir allan þorra fólks duga töfralausnirnar skammt og betra að fara hægar í sakirnar, og stefna á að ná árangri á rólegri hraða yfir lengri tíma frekar en að ætla að vera vaxinn eins og grísk stytta strax fyrir næstu jól. Markvissar en viðráðanlegar lífsstílsbreytingar til langframa eru líklegri til árangurs en skammtímaheilsuátök með óraunhæf markmið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál