Stefnir að því að verða atvinnudansari í framtíðinni

Íris Ásmundardóttir er tvítugur dansnemi, hún er búsett í suðvesturhluta London og segir lífið spennandi þótt tímarnir séu harla ólíkir því sem hún er vön. Íris stundar nám við Rambert School en hefur á undanförnum árum verið að vinna að skemmtilegu verkefni með Láru Stefánsdóttur danshöfundi.

„Ég hef brennandi áhuga á öllu sem við kemur dansi og danssköpun, ásamt heilsusamlegum lífsstíl í sinni breiðustu mynd.

Síðastliðinn júní ákvað menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar að úthluta Láru menningarstyrk til að vinna með nokkrum ungum dönsurum sem hún valdi. Lára var ein af 43 sem valin voru úr 750 umsóknum. Ég var einstaklega þakklát fyrir að vera ráðin í verkefnið og þá sérkstaklega á tímum sem þessum þar sem sviðslistamenn hafa þurft að halda sig til hlés síðastliðna mánuði. Ferlið er búið að vera mjög lærdómsríkt og skemmtilegt og Lára hefur gefið okkur dönsurunum gott rými til að koma okkar eigin tillögum og sköpun á framfæri samhliða hennar hugmyndum og „kóreógrafíu“.

Dansað með viðunandi fjarlægð

Hugmyndirnar í dansverkinu hafa vissulega litast af aðstæðum þessa árs, kórónuveirufaraldrinum og þeim tilfinningum og áskorunum sem samfélagið og í raun heimurinn hefur upplifað.

„Það er í sjálfu sér mjög áhugavert því listin hefur alltaf haft lag á því að taka aðstæður samtímans og bregða þeim í nýjan búning. Koma með nýtt samhengi og önnur sjónarhorn fyrir upplifanir fólks og ég er persónulega spennt að sjá hvað hinir ýmsu listamenn munu gera til að túlka þetta tímabil. Við vorum líka mjög lánsöm að fá afnot af rúmgóðri aðstöðu í Hreyfingu sem gerði okkur kleift að fylgja þeim sóttvarnareglum sem voru í gildi. Við stefnum svo að því að sýna dansverkið í desember á þessu ári eða í byrjun janúar á næsta ári.“

Hvernig er námið í Rambert?

„Námið úti er algjörlega frábært í alla staði! Þetta er BA-nám í ballett og nútímadansi sem inniheldur meðal annars tæknitíma í klassískum ballett og þremur mismunandi nútímadanstæknum sem og danssmíði og spuna auk bóklegra tíma, styrktar- og þolþjálfunar og skapandi vinnuferla með danshöfundum.

Það má því segja að ég öðlist mikla breidd innan dansins í þessu námi sem er afar mikilvægt fyrir dansara í dag. Dagarnir eru mjög fjölbreyttir og skemmtilegir og geta einnig svo sannarlega verið krefjandi þegar ég er að byrja klukkan hálfníu á morgnana og koma heim hálftíu á kvöldin. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt og innan um svo mikið af skemmtilegu fólki allan daginn að þetta er allt þess virði. Skólinn sér vel um nemendurna sína og við tölum alltaf um okkur sem eina stóra fjölskyldu. Nú er ég að hefja þriðja árið svo nú hefjast rannsóknir og aukin ritgerðarvinna samhliða dansnáminu. Þetta árið fæ ég einnig skólastyrk úr listasjóði í Bretlandi sem skólinn tilnefndi mig til. Ég er afar þakklát fyrir það.“

Sumarið öðruvísi en hún áætlaði

Íris var ánægð með sumarið þótt það hafi verið öðruvísi en hún hafði búist við.

„Ég átti að klára skólann um miðjan júlí og fara þaðan beint á sumarnámskeið hjá danskompaníi Mark Bruce. Ég tók hins vegar alla þriðju önnina í gegnum netið og var í 12 vikur í danstímum í gegnum Zoom inni í stofu. Það heppnaðist þó betur en ég hefði getað ímyndað mér. Þetta gaf mér einnig tíma fyrir aðra hluti sem falla oft í skuggann þegar það er mikið að gera. Mér finnst ég hafa náð að nýta þennan tíma skynsamlega og ákvað meðal annars að taka kennararéttindi í Barre sem er styrktarþjálfun sem á rætur sínar að rekja til grunnundirstöðuatriða í klassísku balletttækninni. Ég hef sótt þessa tíma um helgar þegar ég er úti og finnst þeir algjör snilld! Þessar æfingar eru einnig notaðar af afreksíþróttamönnum úr margvíslegum dans- og íþróttagreinum sem viðbótarþjálfun og hafa skilað frábærum árangri.“

Hvernig er að búa í London?

„Það er alveg hreint frábært að búa í London! Ég er mjög mikið í skólanum en ég nýti helgarnar vel til þess að skoða mig um. Þá fer ég á viðburði og danssýningar. Stunda jóga, barre og hitti vini mína. London er svo margslungin og fjölmenningarleg að það er einhvern veginn alltaf eitthvað nýtt og spennandi að skoða. Ég bý í Richmond og það er mjög rólegt og kósý hverfi. Ég bý rétt við Thames-ána sem er ákveðin stemning og svo er Richmond Park skammt frá líka. Þar er eins og maður sé komin upp í sveit með víðáttuna og dádýrin út undan sér. Það er líka gott að búa í London danslega séð þar sem það er mikil gróska í listalífinu í borginni. Ég átti að taka þátt í dansverki eftir Julie Cunningham núna í mars sem var hluti af sýningu í Sadlers Wells-leikhúsinu í London og er samsett úr þremur dansverkum sömdum við tónlist eftir tónskáldið Nico Muhly. Það þurfti þó að aflýsa henni vegna kórónuveirunnar. Ég er með krossaða fingur um að hún verði tekin upp aftur í náinni framtíð.“

Segir heilsuna skipta miklu máli

Þegar kemur að heilsunni segir Íris að hún sé alltaf ofarlega í huga hennar.

„Ég veit hvað heilsan skiptir miklu máli og þá sérstaklega þegar maður er undir miklu líkamlegu og andlegu álagi. Ég er mjög meðvituð um hvað ég borða því til að ná sem mestum árangri og forðast meiðsli þarf ég hollt og gott eldsneyti sem kemur mér í gegnum langa daga. Svo er einnig mjög mikilvægt að hlúa vel að andlegu heilsunni og þar hefur hugleiðsla komið sterk inn fyrir mig. Þegar mikið er að gera og hugurinn á það til að fara á flug finnst mér gott að setjast niður þó ekki sé nema í tíu mínútur og komast aftur í tengingu við mig. Í sumar hef ég einnig verið að ganga mikið því mér finnst það ákveðin hugleiðsla út af fyrir sig.“

Íris er mikill fagurkeri og hefur áhuga á tísku.

„Ég vil eiga vandaðar flíkur úr góðum efnum sem endast vel. Eftir að hafa flutt út þá hefur merkið American Vintage verið í miklu uppáhaldi. Fötin frá þeim eru látlaus og falleg sem hægt er að klæða upp og niður. Ég er einnig hrifin af íslenskri hönnun og þar standa eflaust flíkurnar frá Hildi Yeoman og Báru Hólmgeirs í Aftur upp úr.“

Hún segir dansinn klárlega hafa haft áhrif á fatastílinn hennar.

„Maður er einhvern veginn alltaf í æfingafötum og því vil ég velja þau á þann hátt að ég geti líka notað þau sem hversdagsflíkur. Ég hef mikið notað æfingafötin frá Casall þar sem efnin eru góð og sniðin flott. Það er líka einhver klassi yfir þeim sem mér finnst passa vel við dansinn. Svo er merkið með flotta umhverfisstefnu sem skemmir ekki fyrir! Ég á líka orðið ógrynni af ballettbolum sem ég hika ekki við að nota bara við gallabuxur.“

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

„Ég stefni á atvinnumennsku í dansinum eftir að ég klára námið úti. Ég hlakka til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér í þeim efnum. Dansinn er svo fjölbreyttur svo það er alltaf að koma eitthvað nýtt og spennandi fram á sjónarsviðið. Ég hef einnig mikinn áhuga á barre-þjálfuninni og að skoða og fylgjast með hversu langt hún nær þegar kemur að almenningi og afreksíþróttafólki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »