Þetta gerir Benna til þess að verða ekki veik

Benedikta Jónsdóttir heilsuráðgjafi tók heilsuna í gegn fyrir 20 árum …
Benedikta Jónsdóttir heilsuráðgjafi tók heilsuna í gegn fyrir 20 árum og sér ekki eftir því.

Benedikta Jónsdóttir eða Benna eins og hún er kölluð er búin að vera á fullu í heilsunni síðastliðin 20 ár. Hún hefur haldið fjölmörg námskeið á heilsusviðinu og hefur starfað hjá heildsölum með lífrænar vörur lengi. Hún segir að það skipti miklu máli að kunna að lesa á umbúðir og borða mat sem eldaður er frá grunni. Hún deildi sinni lífssýn í Heilsublaði Nettó. 

Hvað gerir þú til þess að lifa heilbrigðu lífi?

„Eitt það mikilvægasta er að hafa brennandi áhuga á heilsumálum og fræðast og læra endalaust. Ég vel lífrænt eins og kostur er á eða matvæli  sem eru hrein og óunnin. Sniðgeng kemísk gerviefni og erfðabreytt matvæli. Tek mikið af völdum bætiefnum en nota aldrei áfengi, tóbak né lyf. Ég syndi í sjó og vötnum þegar ég er erlendis og er mikill sóldýrkandi. Ég hreyfi mig reglulega m.a. með því að vinna, en hef aldrei farið í líkamsræktarstöð. Reyni að sjá það kómíska í flestum aðstæðum og vera jákvæð, bjartsýn og hlæja oft,“ segir hún. 

Finnst þér mataræði skipta miklu máli?

„Mataræðið skiptir miklu máli þótt það sama eigi ekki við alla. Grundvallarreglan er að velja eins mikið lífrænt og kostur er á eða ómengað og án kemískra gerviefna og sleppa erfðabreyttum matvælum. Elda frá grunni.“

Telur þú að bætiefni séu mikilvæg?

„Bætiefni eru mikilvæg. Þeirra er þörf í hröðu nútíma þjóðfélagi. Skortur á þeim getur orsakað ýmsa sjúkdóma. Fólk heldur oft að það sé að fá vítamínin, steinefnin, snefilefnin, amínósýrurnar og fitusýrurnar sem það þarf á að halda úr matnum. En spurningin er; hvaða mat? Hve mikið mælist af þessum efnum í matvælum eftir vinnslu og eldun? Maður þyrfti að búa á sólarströnd og rækta allt sitt grænmeti í ríkum jarðvegi, tína ávextina af trjánum og berin af runnunum, allt ferskt. Baða sig í söltum sjónum, ekkert stress og nægur svefn. Bara þakklæti og gleði yfir öllu.“

Hvaða bætiefni tekur þú?

„Sjálf tek ég mikið af góðum bætiefnum og hef gert í rúmlega 20 ár. Magnesíum, Co-Q10, Astaxanthin, B-vítamín, K-2 mk7, C-vítamín, fitusýrur, Lesitín og Lutin fyrir augun. Góða gerla og ensím fyrir meltinguna eftir því hvað ég er að borða. Öðru hvoru þarf ég Silimarin, Glutathion, kol og fleira til að hreinsa lifrina og styðja við önnur líffæri. Maca og góðar jurtir fyrir hormónakerfið af og til,“ segir Benna. 

Hvað tekur þú til þess að verjast kvefi og öðrum pestum?

„Kvef og pestir lít ég svo á að þær hjálpa mér bara að styrkja ónæmiskerfið. Ég læt ekki hinar árlegu flensur raska ró minni. Verð einstaka sinnum fárveik en hef þá vit á að fara í rúmið, sofa, hvílast og nærast á sterkri hvítlauks- og grænmetiskraftssúpu. Hendi bara öllu í stóran pott og læt malla. Síðan tek ég stóra skammta af C-vítamíni, túrmeriki, engiferi og sólhatti. Bæti við extra Zinki Selen og L-Lysine. Auðvitað líður manni ömurlega en ég læt mig hafa það í nokkra daga meðan ónæmiskerfið er að berjast við vírusa og bakteríur. Ilmkjarnaolíur virka líka vel á mig og svo tek ég bara Pollýönnu á þetta.“ 

Ferðu einhvern tímann út af sporinu í heilbrigðu líferni?

„Prinsessutertur sem fást í bakaríum í Svíþjóð er minn veikleiki. Annars langar manni ekki í það sem er óhollt fyrir mann þegar maður er búin að fræðast um skaðsemi til dæmis gervisykurs, MSG, slæmrar fitu og HFCS (high-fruktose corn syrup) og finnur hve slæmt það er fyrir líkamann. Ég geri undantekningar með sumt í veislum og hjá gestum. Krossa mig í bak og fyrir og tek svo kol þegar ég kem heim til að hreinsa út ef einhver slæm efni hafa verið í matnum. Það eru til góð heilsuráð við flestu.“   

Einhver heilsuráð sem þú vilt deila?

„Fræðist um heilsu og sækið fyrirlestra um allt sem viðkemur heilsu. Forðist gerviefni og eiturefni hvort sem er í matvælum, snyrtivörum, híbýlum, rafmagni, pípulögnum eða umhverfinu. Takið gæðabætiefni. Drekkið hreint kranavatn. Hreyfið ykkur og farið út í sólina. Syndið eða vaðið í sjó og vötnum. Farið í náttúrulaugar og sauna. Andið djúpt og sjáið til þess að fá nægan svefn. Látið gott af ykkur leiða. Látið ykkur dreyma, sáið fræjum og ræktið garðinn ykkar og framtíðin verður betri, sjálfbær, lífræn og eiturefnalaus.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál