Æjjji, ég þarf bara að skipuleggja mig betur

Sara Oddsdóttir markþjálfi og ráðgjafi.
Sara Oddsdóttir markþjálfi og ráðgjafi. mbl.is/Árni Sæberg

„Oft heyri ég fólk tala um hvað því langar til að gera eða koma í verk. Þið vitið, To-Do listinn sem geymir fullt af einhverju sem maður er alveg að fara byrja á. Hver kannast ekki við að telja upp hluti, sem hafa verið lengi á listanum, en enda svo á að segja „æjjji ég þarf bara að skipuleggja mig betur“ eða „ég þarf bara að fara í þetta, koma mér í gírinn.“ Friða þannig sjálfan sig með óskhyggju um að betra skipulag græi þetta, en vitandi að ekkert á þessum lista verður framkvæmt á þessu ári. Og örugglega ekki því næsta. Eins og það felist ákveðin losun í að telja upp listann og um leið hugga sig með fölsku loforði um betra skipulag,“ segir Sara Oddsdóttir í sínum nýjasta pisti:

Hringir þetta einhverjum bjöllum?

Týpísk atriði á þessum blessaða lista eru: að byrja í ræktinni, læra eitthvað nýtt, borða hollt, byrja að hugleiða, læra á gítar og svo framvegis. Hvort sem þetta eru mikilvæg atriði, eins og huga að heilsunni eða gamlir draumar, þá eiga allir þessir listar eitt sameiginlegt. Í þeim felst einhverskonar sjálfsrækt. Það er að veita sjálfum sér eitthvað sem nærir líkama og sál. En láta samt alltaf eitthvað annað ganga fyrir. Setja sjálfan sig í annað sæti eða fresta því sem raunverulega skilar manni sterkari sjálfsmynd, gleði, ánægju eða jafnvel betri heilsu.

AF HVERJU ER SVONA ERFITT AÐ BREYTA?

Atriði eins og að hreyfa sig, drekka minna áfengi eða borða hollt eru oft á þessum lista. En samt sem áður og í fullri meðvitund, jafnvel vanlíðan, þá höldum við fast í sama farið. Eins og við þorum ekki að sleppa tökum á því sem við þekkjum svo vel, þrátt fyrir að hátternið þjóni okkur ekki. Jafnvel vitandi að ef þetta heldur svona áfram, þá eru allar líkur á að það endi ekki vel. Ég meina, það eru engin geimvísindi að heilsa skipti máli, bæði andleg og líkamleg. En af hverju er svona erfitt að breyta? Að koma sér af stað?Málið er að To-Do listar virka ekkert rosalega vel. Listi yfir hvað þú ætlar að gera í dag, svona eins og innkaupalisti, sem þú tékkar við jafnóðum getur vissulega verið gagnlegur. En ef hann geymir drauma eða lífstíls breytingu þá ættir þú að endurskoða aðferðina þína. Það er nefninlega svo lítið mál að bæta einhverju nýju á þennan lista og færa svo til röðina. Og ef þú býrð þér ekki til tíma og plan þá þjónar þessi listi í raun engum tilgangi. Það verður nefninlega að vera plan. En ég ætla að fjalla betur um planið eða markmiða setningu í næsta pistli.

HVAÐ ER Á TO-DO LISTANUM ÞÍNUM?

Því áður en þú gerir plan er nauðsynlegt að endurskoða listann. Athuga hvort hann geymi raunverulega það sem þú vilt í dag. Hér er „í dag“ algert lykilatriði. Ekki úrelta drauma sem eingöngu eru á listanum vegna þess að þeir eru búnir að vera þar svo lengi. Kannski eitthvað sem þú hefur engan áhuga á í dag en hefur selt þér hugmyndina svo oft að þú grípur í hana án þess að hugsa. Svona eins og að horfa á mynd sem þú elskaðir þegar þú varst unglingur en úfff hvað hún er ekki góð í dag. Við eigum nefninlega til með að halda í gamalt drasl eingöngu út af vana. Einhver rómantísk hugmynd um að byrja aftur í ballett þýðir ekki að þú raunverulega hafir áhuga á ballett. Ég velti þess vegna upp hvort listinn þinn hafi eitthvað gildi eða er hann bara til að friða einhverja fortíðar eða framtíðar þrá. Þjónar hann einhverjum tilgangi? Hvenær endurskoðaðir þú hann síðast?

Geymir listinn þinn eitthvað sem þig virkilega langar að tileinka þér? Og ef svo er, hvað er að stoppa þig? Er það tíminn, það eru tuttugu og fjórar klukkustundir í sólarhringnum. Það er þekkt stærð. Hvernig deilir þú þér á þessa örfáu klukkutíma, ekki gleyma að þú þarft að sofa, borða, skutla og sækja. Eða bendir þú á einhvern annan sem orsök þess að þú lætur ekki drauma þína rætast? Eða ertu kannski ekki með plan? Ég legg til að þú endurskoði listann þinn, með heiðarleika og hugrekki að vopni, og ef hann geymir hluti sem þú virkilega vilt gæða líf þitt meðeðakoma í verk, þá takir þú skrefið og sækir það sem þú vilt.

mbl.is