Æfði eins og J-Lo í eina viku

Jennifer Lopez er í góðu formi.
Jennifer Lopez er í góðu formi. AFP

J-Lo er 51 árs og þekkt fyrir að leggja mikla rækt við útlit sitt og heilsu. Árangurinn er ótvíræður og hefur hún sjaldan litið betur út. Það skyldi því engan undra að margir vilji ná sama árangri. Stephanie Nuzzo er ein af þeim og ákvað að æfa og borða eins og J-Lo í eina viku. Hún lýsti árangrinum í viðtali við vefritið Body+Soul. 

„Þar sem J-Lo er fyrirmynd margra í líkamsrækt fannst mér vera tími til kominn að kynnast hennar nálgun,“ segir Nuzzo. „Eftir smá rannsóknarvinnu fann ég hver meginundirstaða rútínunnar hennar var. Ég fylgdi henni í viku og vonaðist eftir að sjá einhvern árangur. Það væri blessun að fá afturenda sem væri eitthvað í líkingu við hennar.

Södd allan daginn

Samkvæmt heimildum er J-Lo lítið fyrir að skera niður mat til þess að léttast heldur sneiðir hún hjá unnum mat. Í morgunmat fær hún sér smoothie með próteini, berjum og kínóamjólk eða gríska jógúrt með hunangi. Ég gerði slíkt hið sama.“ 

„Í hádeginu og á kvöldin var ferskt grænmeti og einhvers konar prótein eins og lax eða kjúklingur með brúnum hrísgrjónum eða sætri kartöflu. Það var mjög girnilegt,“ segir Nuzzo.

„Á milli mála gæddi ég mér á ferskum ávöxtum eða hnetum. Kaffi og áfengi voru á bannlista en J-Lo drekkur hvorki áfengi né koffíndrykki. Hún segir það hafa slæm áhrif á húðina. Þá drekkur hún vatn allan daginn.

Þessi matarrútína hentaði mér vel og ég var södd allan daginn og leið aldrei eins og ég væri í megrun. Allar máltíðirnar voru nærandi og bragðgóðar.

Erfiðast að hætta í kaffinu

Það sem mér fannst langerfiðast var kaffið. Ég drekk mikið kaffi eða um fjóra bolla á dag. Að hætta allt í einu var einstaklega erfitt. Ég var með hausverk í tvo heila daga og leið eins og ég gæti ekki einbeitt mér. Ég fann ekkert sem hjálpaði mér í þessum fráhvörfum. Ég leitaði því til húðsérfræðings sem sagði að ekkert styddi það að koffín væri slæmt fyrir húðina, en auðvitað væri allt gott í hófi. Hún sagði að mjólkurvörur væru mun verri fyrir húðina þar sem þær ýttu undir bólgumyndun líkamans. Ég fór því aftur að drekka kaffi en nú bara einn bolla á dag.

Betri húð og endurnærandi svefn

Haft hefur verið eftir J-Lo að hún stundi líkamsrækt þrisvar til fjórum sinnum í viku. Hún blandar saman brennslu- og styrktaræfingum. Ég fór því í boxtíma, tabata- og danstíma ásamt því að lyfta lóðum. Þetta gekk vel og var viðráðanlegt,“ segir Nuzzo.

„Ég sá engan marktækan mun á líkama mínum en munum það að tilraunin varði aðeins í eina viku. Hins vegar sá ég mikinn mun á húðinni, útbrot voru töluvert minni og húðin ljómaði. Ég held að það að minnka kaffið og drekka meira vatn hafi haft mikil áhrif. Þá fór ég einnig að sofa betur, sofnaði fyrr og vaknaði á undan vekjaraklukkunni. Í heild var þetta frábær leið til þess að bæta heilsuna.“

Stephanie Nuzzo.
Stephanie Nuzzo. Skjáskot
mbl.is