Er hægt að fasta vitlaust?

Að fasta á vissum tímum sólarhrings hefur marga kosti.
Að fasta á vissum tímum sólarhrings hefur marga kosti.

Föstur hafa náð miklum vinsældum undanfarið. Vinsælast er að fasta í annaðhvort hlutföllunum 16:8 (fasta í sextán klukkutíma og ekki í átta klukkutíma) eða þá 5:2 (þar sem maður fastar tvo daga í viku). Líkamsræktarsérfræðingurinn Sam Wood segir að það sé auðvelt að fasta vitlaust.

„Fastan virðist vera að sækja í sig veðrið og ég sé hana ekki hverfa á næstunni,“ segir Wood.

„Ein tegund föstu er að takmarka hitaeiningafjöldann umtalsvert á vissum dögum (5:2). Ég set spurningarmerki við hversu auðvelt sé að viðhalda slíkri rútínu. Auk þess tel ég að fólki hætti til að borða of mikið hina dagana. Líkami okkar bregst vel við ákveðinni rútínu og þessi tegund föstu nær ekki að ýta undir slíkt. Maður ætti frekar að beina sjónum að því að tímasetja máltíðir sínar. Gera matargluggann minni, það gæti líka hjálpað til við að koma í veg fyrir að maður sitji og borði fram eftir kvöldi.

Flestir geta séð árangur af því að nota 16:8-aðferðina. Þá borðar maður matinn sinn innan átta tíma og bíður svo í 16 tíma eftir næsta tækifæri til að borða. Þetta hjálpar til við að þjálfa sjálfsagann, við byggjum daginn upp á ákveðinn hátt og pössum upp á að borða gæðamat þegar tími loks gefst. Sannleikurinn er sá að flest borðum við of mikið.“

Þrjú ráð fyrir föstur:

1. Ekki sleppa máltíðum

„Það að fasta er ekki leið til þess að sleppa úr máltíð. Þú átt enn að borða sem samsvarar þremur máltíðum á dag; góða blöndu af próteinum, fitum og flóknum kolvetnum. Hugsaðu um föstu sem leið til þess að veita þér betri uppbyggingu á deginum. Þetta er góð leið til þess að hætta að borða á milli mála og borða aðeins þegar maður er raunverulega svangur.“

2. Ekki líta á gluggann til að borða sem tækifæri til að sleppa sér

Ein stærstu mistökin þegar fólk fastar er að einblína á tímann hvenær það má borða frekar en að hugsa um hvað það ætli að borða. Það skal alltaf huga að því að borða hollan mat. 

3. Kannski er þetta ekki fyrir þig

Það að fasta ætti ekki að umturna lífi þínu og þú þarft ekki að fasta alla daga til þess að upplifa kosti þess. Fastaðu eins og þú treystir þér til!

mbl.is