Léttist um sirka átta kíló – hvað er til ráða?

Íslensk kona veltir því fyrir sér hvernig hún geti fengið …
Íslensk kona veltir því fyrir sér hvernig hún geti fengið meiri fyllingu eftir að hafa lést um nokkur kíló. Scott Webb/Unsplash

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem veltir fyrir sér hvað hægt sé að gera við húðina eftir að hún léttist. 

Góðan daginn. 

Ég hef grennst um 6-8 kg undanfarna mánuði og húðin liggur í fellingum utan á mér, sérstaklega innan á lærunum, á maganum og undir upphandleggjunum. Mælir þú með einhverju; góðu kremi, æfingum eða bara að reyna að fitna svolítið aftur en það virðist vera erfitt?

Kv. Jóhanna

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.
Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.

Sæl og takk fyrir spurninguna.

Því miður hafa krem ekki mikil áhrif á slappa húð eftir fitutap. Æfingar eru að sjálfsögðu góðar fyrir alla. Í þínu tilfelli myndi ég mæla með lyftingaæfingum. Þær byggja upp og stækka vöðvana sem síðan fylla út í slappa húð.

Til eru tæki, svokölluð húðþéttingartæki, til dæmis Ultraformer, sem geta þétt húðina þar sem hún er slöpp. Það gæti jafnvel hentað þér en þarf að sjálfsögðu að meta af þeim sem framkvæma meðferðina.

Í sumum tilfellum, ef þyngdartapið er mikið, er skurðaðgerð besta ráðið til að losna við slappa húð. Það eru þá lýtalæknar sem gera þessar aðgerðir.

Gangi þér vel með þetta og bestu kveðjur,

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Örnu spurningu HÉR. 

mbl.is