Hefur fyrir því að vera í formi 52 ára

Sundið hefur aukið styrk og þol Valla. Hann stundar kæjakróður …
Sundið hefur aukið styrk og þol Valla. Hann stundar kæjakróður og klettaklifur í Hrísey. Ljósmynd/Aðsend

Athafnamaðurinn Valgeir Magnússon eða Valli sport eins og hann er stundum kallaður ber viðurnafn með rentu. Í haust komst Valli óvænt upp í meistaraflokk í badminton 52 ára gamall. Valli segir sund hafa hjálpað sér mikið. 

„Fyrr í haust var ég Íslandsmeistari í A-flokki í badminton í tvíliðaleik ásamt Orra félaga mínum sem er nú talsvert yngri. Svo nýlega var ég hækkaður upp í meistaraflokk en ég hef ekki spilað í meistaraflokk í 25 ár. Flestir sem spila í meistaraflokki voru ekki fæddir þegar ég spilaði þar síðast,“ segir Valli sem á enn eftir að spila leik í meistaraflokki en móti sem átti að halda í nóvember var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins. 

Valli segist hafa æft vel að undanförnu sem greinilega skilaði sér. Hann setti þó ekki stefnuna markvisst á að komast upp um flokk. 

„Ég hef áður verið Íslandsmeistari í A-flokki og ekki verið hækkaður upp. Fimmtíu og tveggja ára menn hafa aldrei verð hækkaðir upp í meistaraflokk. Það hefur aldrei gerst,“ segir Valli.

„Maður þarf að hafa fyrir því að vera í formi á þessum aldri,“ segir Valli sem finnur mikinn mun á sér núna og fyrir 20 árum. Hann segist þurfa að hafa meira fyrir því að halda sér í formi og er til dæmis lengur að jafna sig eftir hvern badmintonleik. Hann segir gamla skrokka stífna hratt upp. „Ég passa upp á að teygja vel á morgnana. Þegar ég er búinn að fara í sturtu og svona tek ég teygjuæfingar.“

Valli Sport stundar útvist í kórónuveirufaraldrinum og segir sundiðkun hjálpa …
Valli Sport stundar útvist í kórónuveirufaraldrinum og segir sundiðkun hjálpa til á fjöllum. Ljósmynd/Aðsend

Ásamt því að æfa badminton þrisvar í viku þegar skipulögð íþróttastarfsemi er leyfð tók Valli nýlega upp á því að æfa sund þrisvar í viku. Nú þegar sundlaugar og íþróttahús eru lokuð hreyfir Valli sig úti og var einmitt í fjallgöngu þegar blaðamaður náði í hann. 

„Þegar ég byrjaði að æfa sund fann ég að krafturinn og úthaldið komu rosa hratt – og liðleikinn líka. Síðan fékk ég smá æði eftir að ég var tekinn inn í lið í meistaraflokki á síðustu stundu. Ég fann bara hvað formið var gott eftir allt þetta sund. Ég ákvað að æfa almennilega og átti alveg séns á að ná einhverjum árangri þótt ég væri orðinn svona gamall.“ 

Valli kunni ekki skriðsund fyrir rúmu ári. Með hjálp frá Syndasel lærði hann skriðsund og æfir nú Garpasund með hópi snemma á morgnana í Sundhöllinni. 

„Á mjög skömmum tíma var ég búinn að ná skriðsundinu vel. Svo er maður bara píndur áfram í brjáluðum látum og keppnisskapið kom upp. Þarna fann ég að grunnstyrkurinn og þolið komu rosa hratt. Það setti mig í stuð að gera aftur eitthvað í öðrum íþróttum.

Núna er ég uppi á fjöllum og finn að sundið gerir mikið fyrir öndunina, það eykur svo þolið. Maður nýtir súrefnið miklu betur af því maður er búinn að þjálfa lungun. Þú þarft að anda svo skipulega þegar þú ert í sundi fyrir utan að hreyfingin sjálf er náttúrlega frábær.“

Valli varð Íslandsmeistari í A-flokk í haust.
Valli varð Íslandsmeistari í A-flokk í haust. Ljósmynd/Aðsend

Hvað gerir þú annað til að halda þér ungum?

„Það er mest hugsunarháttur. Ég hef rosa gaman af því að vera með ungu fólki. Nærist á því að pæla í því hvernig ungt fólk hugsar og skoðar lífið. Svo er það að vera alltaf að prufa eitthvað nýtt. Manni á að vera drullusama um hvað öðrum finnst og bara gera það sem manni dettur í hug, það er gott mottó.“

Valli hvetur fólk til að halda bara áfram og pæla ekki of mikið í þeim hindrunum sem það kann að mæta í faraldrinum. 

„Það skiptir ekki máli hvort það er Covid eða eitthvað annað, maður verður alltaf að hugsa um að fara áfram. Ekki vera að væla yfir aðstæðum. Það eru alltaf hindranir í lífinu og maður verður alltaf að halda áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál