Lífið tók U-beygju við krabbameinið

Hildur Björnsdóttir deilir reynslu sinni í nýju tímariti Ljóssins.
Hildur Björnsdóttir deilir reynslu sinni í nýju tímariti Ljóssins. mbl.isl/Kristinn Magnússon

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi, ræðir um hvernig lífið tók óvænta U-beygju þegar hún greindist með lífshættulegt krabbamein aðeins þrjátíu ára gömul í nýju tímariti Ljóssins. Þá var hún með þriggja daga gamalt barn. 

„Greiningin var áfall en ég kaus að líta á þetta sem verkefni," segir Hildur, sem eftir stranga lyfjameðferð læknaðist af meininu.

Hún lýsir áhrifum þess að greinast ungur með krabbamein, ekki síst á fjölskyldu og vini, og segir Ljósið hafa hjálpað sér og sínum mikið í baráttunni. Eftir samtal við markþjálfa Ljóssins vatt Hildur kvæði sínu í kross og flutti til Íslands frá London, kláraði krabbameinsferðina og hóf feril í stjórnmálum.

„Svona reynsla gefur manni tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt. Ég að minnsta kosti kýs að líta þannig á þessa reynslu."

Hún segir almennt séð góðar líkur á að læknast þó einstaklingur fái krabbamein og það sé ástæðan fyrir fúsleika sínum fyrir því að deila sögunni sinni með öðrum. 

„Ég vil að fólk viti að það er hægt að klára þetta verkefni og maður getur farið aftur út í lífið og látið drauma sína rætast.“ 

Hún hvetur alla til að leita sér að stuðningi hjá Ljósinu og að hika ekki við að ræða um hlutina við aðra. Það létti álagið og sé leiðin í andlega batanum. 

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér

mbl.is