Sirrý fékk ofnæmi fyrir bulli á breytingaskeiðinu

Sigríður Arnardóttir eða Sirrý eins og hún er kölluð.
Sigríður Arnardóttir eða Sirrý eins og hún er kölluð. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sirrý Arnardóttir stjórnendaþjálfari er ein af þeim sem segja konur geta orðið betri með árunum. Í nýlegri færslu í facebookhópnum Breytingaskeiðinu skrifar hún skemmtilega færslu um þær breytingar sem hún upplifir á sér í dag. Færslan er birt með góðfúslegu leyfi Sirrýjar sem segir kúvendingu hafa orðið í eigin lífi og veltir hún því fyrir sér hvort aðrar konur upplifi það sama:

„Mikið er spjallað hér um hitakóf og önnur líkamleg einkenni breytingaskeiðsins, eðlilega. En hvaða andlegu einkenni og andlegar breytingar upplifið þið helst?

Ég er 55 ára en fór seint á breytingaskeiðið og allt í lagi með það. En ég fann fyrir töluverðri andlegri kúvendingu. Fékk snögglega ofnæmi fyrir „bulli og bullshitti“, hef litla þolinmæði fyrir leiðinlegu fólki og einhverju innihaldslausu kjaftæði. Er hætt að „kóa“ með slíku.

Nenni hvorki að fylgja hjarðhegðun né vera inni í kassa. Fer nú enn frekar en áður eftir orðatiltækinu „sjálf leið þú sjálfa þig“.

Ég nenni nú orðið lítið að fylgja uppskriftum en leik af fingrum fram

<span>–</span>

 „dass“ er mælitækið. Finn fyrir miklu frelsi, til dæmis held ég bara í þær jólahefðir og undirbúning sem hentar mér og mínu fólki í dag og skil ekki hvers vegna ég var að fara eftir mörgum ósýnilegum „reglum“ í gegnum árin. Finnst svo margt vera óþarfi sem engin ástæða er til að taka þátt í, nema fólk langi til. Því hef ég oft nægan tíma til að lesa, ganga, læra, sofa, sofa hjá og hlusta á eitthvað nærandi ...

Og það sem almennt telst vera „toppurinn“ eða „leiðin“ finnst mér stundum ekkert eftirsóknarvert.

Mér finnst oft talað til kvenna eins og við séum óánægðar með okkur, ósáttar og ómögulegar þegar það er bara allt í fínu lagi með okkur og hvorki ástæða til að reka okkur áfram né breyta okkur með „hrútskýringum“.

Ég sé endalausa fegurð í ungu fólki (þarf að halda aftur af hrifningunni af tillitssemi við unga fólkið) og ég brenn helst fyrir því að hvetja, styðja og efla stúlkur og ungt fólk.

Margt af þessu hefur alltaf búið í mér EN með breytingaskeiðinu varð veldisvöxtur í þessum einkennum eða viðhorfum.

Þekkið þið þetta? Eða hvernig upplifið þið breytingar á ykkur andlega, félagslega og tilfinningalega á þessu skeiði lífsins?

Svo verð ég að mæla með bókinni The second half of your life, sem margar þekkja. Hún er alltaf til taks á náttborðinu mínu,“ segir Sirrý í færslunni.

mbl.is