Var komin á botninn þegar hún fékk hjálp

Ragnhildur Jóna Gunnarsdóttir segir geðsjúkdóma ekkert til að skammast sín …
Ragnhildur Jóna Gunnarsdóttir segir geðsjúkdóma ekkert til að skammast sín fyrir. Ljósmynd/Aðsend

Ragnhildur Jóna Gunnarsdóttir er 31 árs gömul gift móðir sem skammast sín ekki fyrir að vera með geðsjúkdóm. Ragnhildur náði algjörum botni í veikindum sínum í fyrra og leitaði sér hjálpar í kjölfarið. Eftir mikla vinnu finnur hún fyrir lífsgleði og kvíðaköst eru ekki lengur daglegt brauð. 

Ragnhildur glímir við þunglyndi, kvíðaröskun og félagsfælni. Þegar henni leið sem verst átti hún erfitt með að koma sér fram úr rúminu.

„Kvíðinn hefur mér þótt mest hamlandi, hefur oft alveg lamandi áhrif. Þá enda ég með hausinn undir sæng, gjörsamlega óviðræðuhæf og fúnkera ekki. Ekkert annað en kvíðinn kemst að þá stundina. Það tekur oft langan tíma fyrir mig að ná mér niður og ég get það yfirleitt ekki sjálf, heldur talar maðurinn minn mig niður í ró. Svo fylgja þessum köstum oft líkamleg einkenni og ég verð veik. Höfuðverkur, ógleði og orkan þýtur úr mér. Ég verð mjög eirðarlaus, næ ekkert að einbeita mér og tek oft ekki eftir því sem er að gerast í kringum mig því kvíðinn getur heltekið mig,“ segir Ragnhildur þegar hún lýsir kvíðanum.

Kvíðinn hefur líka áhrif á félagsfælnina og tvinnast þetta tvennt saman. Hún segist hafa meiri stjórn á félagsfælninni í dag en hún átti það til að loka sig af og komst stundum ekki út.

„Ég gat ekki farið ein í búðina, vildi helst sleppa því eða bíða í bílnum. Svaraði ekki í símann og fór ekki til dyra. Vildi bara vera heima svo það væri engin hætta á því að ég myndi hitta nokkurn mann.“

Ragnhildur lenti á botninum áður en hún fékk almennilega hjalp.
Ragnhildur lenti á botninum áður en hún fékk almennilega hjalp. Ljósmynd/Aðsend

Var búin á því á líkama og sál

Ragnhildur segist hafa verið komin alveg á botninn þegar hún leitaði sér hjálpar. Þegar þarna var komið sögu gat hún ekki mætt í vinnu lengur og hvorki sinnt heimilinu né sjálfri sér.

„Það var í raun ekkert sem veitti mér gleði og ég fann að ég var hætt að reyna. Ég vaknaði einn morguninn eftir enn eina svefnlausa nótt og ég grét bara. Ég var bara örmagna og fann að hausinn var ekki alveg í lagi. Ég átti að mæta í vinnuna en í staðinn fór maðurinn minn með mig upp á bráðamóttöku þar sem ég hitti geðlækni sem tók vel á móti mér,“ segir Ragnhildur sem fór í kjölfarið í veikindaleyfi, fékk lyf og hitti lækni reglulega. „Ég man að fyrstu dagana eftir að ég fór á bráðamóttökuna þá svaf ég bara. Ég var búin á því á líkama og sál. Ég gat loksins hvílst enda fékk ég svefnlyf til að geta sofið, sem ég tók í tvær vikur til að koma reglu á svefninn.“

Ragnhildur, sem segir mikilvægt að bæta geðheilbrigðisþjónustu, beið í fimm mánuði eftir að komast í endurhæfingu hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands í gegnum Virk. Í endurhæfingunni var Ragnhildur örugg og fékk tækifæri til að koma fótunum undir sig á nýjan leik. 

„Ég var tvístígandi hvort ég væri nógu veik til að fara þessa leið, var í smá afneitun til að byrja með og vonaði að þetta myndi bara líða hjá. Mér fannst ferlið svolítið erfitt og átti erfitt með að viðurkenna fyrir fólki í kringum mig að þetta væri það sem ég þyrfti. Ég var hrædd við viðbrögð fólks og gerði ráð fyrir algjöru skilningsleysi. En svo varð ekki.“

Var sjálf með fordóma

Ragnhildur fann fyrir gríðarlegri skömm vegna veikinda sinna. 

„Ég var alltaf svo hrædd um að fólk myndi ekki skilja mig. Svo eru miklir fordómar fyrir geðsjúkdómum í samfélaginu og ég var þar alveg sjálf. Var sjálfri mér verst og hafði fordóma fyrir sjálfri mér. Stimplaði mig algjörlega vonlausa manneskju, reif mig niður þegar kom að móðurhlutverkinu og fannst ég engan veginn standa mig í lífinu. Það var ekki fyrr en ég var komin almennilega af stað í endurhæfingunni sem ég náði að sættast við sjálfa mig. Innst inni átti ég erfitt með að sætta mig við það að vera veik, því mér hafði alltaf liðið svona og hélt að þetta væri bara normið. Þangað til ég lenti á botninum auðvitað.“

Ragnhildur ákvað að rífa plásturinn af og segja sínum nánustu frá veikindunum strax. Hún segir fólk hafa tekið fréttunum vel og aukið skilning þeirra enda reyndu veikindin oft á. Eiginmaður Ragnhildar hefur líka verið hennar klettur og stuðningur hans ómetanlegur. Seinna opnaði hún sig um veikindin á samfélagsmiðlum og þar fékk hún stuðning frá fólki sem hún þekkti ekki neitt.

„Ég fór að opna mig á Instagram og fékk mikil viðbrögð frá fólki sem tengir og er að ganga í gegnum svipað. Áður en ég fór að kynnast fólki í gegnum samfélagsmiðla sem er á svipuðum stað og ég leið mér stundum eins og ég væri ein í heiminum og enginn skildi mig. Og þótt ég óski engum að líða illa, þá er gott að vita að maður er ekki einn. Það er erfitt að líða svona og finnast maður algjörlega einn í heiminum í leiðinni.“

Brosir og hlær meira

Í haust útskrifaðist Ragnhildur með fulla vinnufærni eftir ár í endurhæfingu. Hún finnur mikinn mun á sér en er meðvituð um að veikindin hverfa ekki. 

„Ég er á mjög góðum stað í dag og passa vel upp á mig. Ég held mér í góðri rútínu og passa sérstaklega vel upp á svefninn. Ég finn fyrir lífsgleði og tek sérstaklega eftir því að ég brosi og hlæ mikið. Ég hef upplifað eitt kvíðakast síðustu mánuði á meðan ég gat verið þannig nánast daglega fyrir ári.

Ég lít ekki svo á að mér sé batnað heldur er þetta ævilangt ferðalag en í dag hef ég réttu verkfærin til að takast á við lægðir. Þetta er stanslaus sjálfsvinna og maður þarf að finna út hvað er best fyrir mann sjálfan. Ég til dæmis reyni að forðast alla neikvæðni og er ekki lengur feimin við að setja fólki mörk. Það er mikilvægt að hlúa vel að sjálfum sér og setja sig sjálfan í fyrsta sæti, annars gengur dæmið ekki upp. Ég á enn svolítið erfitt með margmenni og hávaða og það er bara allt í lagi. Minn þröskuldur er bara eins og hann er. Ég get það í stuttan tíma í einu og þá er það bara þannig. Ég hef líka lært að sætta mig við að ég get ekki passað í ramma sem samfélagið setur upp og ég er bara nákvæmlega eins og ég er.

Meiri lífsgleði einkennir Ragnhildi eftir að hún fékk hjálp.
Meiri lífsgleði einkennir Ragnhildi eftir að hún fékk hjálp. Ljósmynd/Aðsend

Ég á auðveldara með að opna mig í dag, segi hreint út að ég sé með geðsjúkdóm og skammast mín ekkert fyrir það. Ég finn fyrir hamingju og vellíðan á allt öðru stigi en áður. Það má segja að ég sé svolítið að upplifa í fyrsta skipti að líða vel með sjálfa mig í eigin skinni. Ég komst hingað, veit að ég kemst lengra og hef fulla trú á sjálfri mér. Það er svolítið óraunverulegt að líða svona en ég fagna hverjum degi sem ég vakna.“

Auðveldara að sýna líkamlegum sjúkdómi skilning

Ragnhildi finnst mikilvægt að opna umræðuna út af skömminni sem oft fylgir geðsjúkdómum. 

„Það er fólk þarna úti sem leitar sér ekki hjálpar út af skömm. Það hafa ekki allir gott stuðningsnet eða skilning í kringum sig. Það er líka mikilvægt fyrir aðstandendur að skilja hvernig þessir sjúkdómar eru til þess að geta aðstoðað. Hvernig á að bregðast við og hvernig þeir geta aðstoðað. Fordómarnir hjálpa engum og gera illt verra. Geðsjúkdómar eru sjúkdómar alveg eins og líkamlegir sjúkdómar. En það er auðveldara að sýna líkamlegum, sjáanlegum sjúkdómum skilning. Við sem glímum við andleg veikindi erum oft stimpluð athyglissjúk eða löt þegar það er svo fjarri sannleikanum. Við erum veik og við þurfum ekki að skammast okkar fyrir það.

Við höfum sama rétt á heilbrigðisþjónustu og allir aðrir. Betra aðgengi og hraðara ferli að geðheilbrigðisþjónustu er gríðarlega mikilvægt til að hjálpa fólki sem þarf á því að halda. Það á að vera jafnauðvelt að fá læknisþjónustu vegna þunglyndis og vegna beinbrots. Við getum alltaf gert betur og að opna enn frekar á umræðuna er alltaf gott. Umræða, fræðsla og vitundarvakning er af hinu góða og ég trúi því að því meira sem við höldum umræðunni gangandi, því meira fari að gerast í geðheilbrigðismálum. Það ætti að leiða til þess að fólk leiti sér hjálpar áður en það er of seint.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál