Svona heldur Þyrí í hollustuna um jól og áramót

Þyrí Huld Árnadóttir með jólanammi
Þyrí Huld Árnadóttir með jólanammi Árni Sæberg

Þyri Huld Árnadóttir dansari leggur áherslu á að borða lifandi fæði, mat sem gerir meltingunni gott. Það kemur ekki í veg fyrir að hún borði sætindi en henni finnst fátt skemmtilegra en að útbúa náttúrulega sætt konfekt heima hjá sér. 

Þyri gerði tvær konfektgerðir fyrir jólablað Morgunblaðsins sem kom út 26. nóvember. 

Konfektmolagerð er hluti af aðventuhefðum Þyri, sem segist vera mikið jólabarn og finnst allt miklu skemmtilegra þegar jólaljós og kerti lýsa upp myrkrið.

„Ég geri allt kósí heima á aðventunni, geri alls konar konfektmola og hitti vinkonur. Við skellum í nokkra mola, spjöllum og höfum gaman. Ég hitti fólkið mitt og nýt þess að vera með fjölskyldunni í aðventunni,“ segir Þyri um aðventuna.

Þyrí Huld Árnadóttir með jólanammi
Þyrí Huld Árnadóttir með jólanammi Árni Sæberg

Borðar mikið af súrkáli um jólin

Þyri er vegan og stór hluti af hennar fæðu er hráfæði. Hún borðar venjulega meira af heitum mat í skammdeginu en krydd eins og kanill, kardimommur, túrmerik og engifer fær gott pláss í eldhúsinu hennar í skammdeginu.

„Ég hef aldrei verið mikið fyrir jólamat en ég og maðurinn minn prufum alltaf eitthvað nýtt á jólunum, gerum sýrt grænmeti og alls konar skemmtilegt. Það er líka nauðsynlegt að borða mikið af súrkáli um jólin þannig að líkaminn eigi auðveldara með að melta allt þetta góðgæti.

Ég borða lifandi fæði sem snýst um að fylla líkamann af ensímum til að meltingin sé alltaf í góðu standi. Ég borða alltaf spírur, hveitigras, rejuvelak-drykk og súrkál með í jólastuðinu í bland við alls konar vegannammi og veganmat. Það er alltaf pláss fyrir sætindi á jólunum en ég geri það mestmegnis sjálf, finnst það langbest.“

Molarnir hennar Þyri eru ekki bara náttúrulega sætir þar sem jólaskrautið er líka náttúrulegt.

„Ég er alin upp við að allt sé skreytt með náttúrulegum efnum. Jólatré með lifandi kertum og könglum. Ég fer út í garð hjá mömmu og pabba og klippi greinar með berjum og alls konar til að skreyta. Ég skreyti ekki mikið en er alltaf með krans frá mömmu úr greni og berjum, kaupi kerti með góðum jólailmi, greni, kanil og negul,“ segir Þyri. Náttúruleg jólalykt eins og mandarínu- og grenilyktin kemur Þyri alltaf í jólaskap sem og ilmurinn af rauðkálinu í eldhúsi foreldra hennar.

Skjáskot/instagram

Karamellan gerir allt betra

Hvað verður í matinn á jólunum?

„Ég er ekki búin að ákveða hvað verður í jólamatinn. Ég og Hrafnkell maðurinn minn vorum að velta því fyrir okkur að vera með tapasjól. Við elskum smárétti og að nostra við hvern og einn rétt þannig að það er spurning hvort það verða ekki bara vegan-tapasjól í ár,“ segir Þyri.

„Jólamolarnir mínir eru náttúrulega sætir með döðlum. Ég nota carob í staðinn fyrir kakó, carob er náttúrulega sætt og inniheldur ekki koffín. Ég set alltaf allar hnetur og fræ í bleyti til að þær verði auðmeltanlegri. Ég elska að föndra og konfektgerð er í miklu uppáhaldi. Þetta eru mínir klassísku molar. Ég geymi þá í frystinum og næli mér svo alltaf í einn og einn,“ segir Þyri og bætir við að molarnir séu fljótir að klárast.

Þyri notar sömu karamelluna sem fyllingu í súkkulaðimolana sem hún gerði fyrir jólablað Morgunblaðsins og til þess að búa til pekanhnetukaramellu. Hún segir reyndar þessa karamellu vera í miklu uppáhaldi á sínu heimili og fjölskyldan fái sér hana út á jógúrt- og bananaís. „Hún gerir allt betra,“ segir Þyri.

Jólasúkkulaðimolar Þyri

Súkkulaði

1/4 bolli kakósmjör

1 msk. möndlusmjör

1 msk. kókossmjör

2 msk. carob

½ teskeið vanilla

Aðferð Kakósmjörið brætt og öllu hinu bætt út í. Gott að vera með sílikonform svo auðvelt sé að ná molunum úr þeim. Hellið súkkulaðiblöndunni í botninn á forminu. Setjið inn í frysti á meðan þið gerið karamelluna.

Karamellufylling

3 mjúkar döðlur úr kæli

1 msk. möndlusmjör

½ teskeið vanilla

möndlumjólk til að þynna

Aðferð Byrjið á að stappa döðlurnar. Best að nota mjúkar döðlur. Hrærið síðan öllu saman og hellið möndlumjólk til að þynna út. Hellið og hrærið þar til karamellan er orðin silkimjúk. Takið formið út úr frystinum og setjið karamelluna á molana. Hellið síðan afganginum af súkkulaðinu ofan á karamelluna og setjið aftur í frysti.

Súkkulaðið er tilbúið eftir klukkutíma. Best að geyma í frysti eða kæli. Ekki láta standa á borði því súkkulaðið er fljótt að bráðna.

Þyri bendir á að gott sé að kaupa carob, kakósmjör og kókossmjör í verslunum á borð við Nettó, Heilsuhúsið og Veganbúðina. Döðlurnar sem hún notar eru mjúkar, með steinum, og eru alltaf geymdar í kæli í öllum verslunum.

Pekanhnetukaramella Tveir bollar pekanhnetur, setjið í bleyti yfir nótt, þá verða hneturnar mun auðmeltanlegri. Takið vatnið af og látið þær þurrkast í um það bil hálftíma. Ef þið viljið hafa hneturnar enn auðmeltanlegri og næringarríkari látið þær þá spíra í sólarhring og skolið tvisvar, um morgun og kvöld.

Karamella – sama karamella og var notuð sem fylling í konfektinu. Gott að bæta við smá kanil til að gera jólalegra.

3 mjúkar döðlur úr kæli

1 msk. möndlusmjör

½ tsk. vanilla

1/4 tsk .kanill

möndlumjólk til að þynna

Aðferð Stappið döðlurnar og bætið öllu hinu saman við og möndlumjólk til að þynna og gera silkimjúka karamellu.

Blandið hnetum og karamellu saman, setjið á bökunarpappír og inn í ofn á ekki hærra en 50°C í átta klukkustundir (yfir nótt) og blástur. Þá eru hneturnar hráfæði. Það er líka hægt að setja ofninn á 100 gráður og baka í 15-20 mínútur, þá er þetta ekki lengur hráfæði.

Á instagramsíðu Þyri má finna fleiri uppskriftir að náttúrulega sætum molum og öðrum meinhollum en ljúffengum mat.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »