Sjö mistök sem gætu eyðilagt daginn

Sumir byrja daginn á góðum kaffibolla.
Sumir byrja daginn á góðum kaffibolla. Unsplash.com/Kelly Sikkema

Það er engin ein morgunrútína sem hentar öllum en það eru viss atriði sem fólk ætti að forðast til þess að leggja grunn að góðum degi.

1. Að ýta á snooze-takkann

Stundum er maður ekki reiðubúinn að fara á fætur um leið og vekjaraklukkan hringir. Reyndu að forðast það að ýta á takkann sem leyfir manni að dorma lengur  það eru svefnsérfræðingar á einu máli um. Þá sofnar maður aftur og fer í dýpri svefn en áður og nær ekki að klára svefnhringinn. Þegar maður loks vaknar er maður þá þreyttari og ekki úthvíldur. Reyndu frekar að fá fullan nætursvefn.

2. Að liggja áfram í hnipri

Þegar þú vaknar ættirðu að teygja úr þér eins mikið og þú getur. Þannig eykur maður sjálfstraust sitt sem varir út daginn. Margir hafa tekið eftir því að þeir sem vakna með útréttar hendur (í laginu eins og V) eru mun ánægðari en aðrir. Þá er sagt um þá sem vakna í hnipri að þeir séu almennt mun stressaðri. Hins vegar er ekki vitað hvort sé orsök eða afleiðing stellingarinnar og tilfinninganna.

3. Að athuga tölvupóstinn

Ef þú sefur með símann nálægt þér er auðvelt að byrja daginn á því að fara í gegnum tölvupóstinn. Ekki gera það! „Þú nærð þér aldrei á strik ef þú byrjar daginn þannig,“ segir Julie Morgenstern, höfundur bókarinnar Never Check Email in the Morning. „Allt getur beðið. Einbeittu þér frekar að verkefnum sem þurfa athygli þína. Annað er bara áminning um ótal lítil verkefni sem hlaðast upp og virka endalaus.“

4. Að búa ekki um rúmið

Talið er að það að búa um rúmið auki líkurnar á meiri framtakssemi yfir daginn. Reyndar er það óútskýrt hvort það að búa um rúmið hafi áhrif á framtakssemi eða hvort framtakssamt fólk sé yfir höfuð duglegra að búa um rúmið. Sérfræðingar telja þó að þessi vani geti komið af stað keðjuverkun sem smiti út í aðra þætti lífsins.

5. Að drekka kaffi

Ef þú heldur að þú komist ekki úr sporunum fyrr en eftir einn kaffibolla gætirðu haft rangt fyrir þér. Líkaminn sér þér fyrir streituhormóninu kortisól milli klukkan átta og níu á morgnana, þannig að flestir ættu að drekka fyrsta kaffibollann eftir klukkan 9:30. 

6. Að hafa sig til í myrkri

Flestum gæti þótt notalegt að hafa sig til í lítilli birtu þegar þeir eru nývaknaðir. Líkamsklukkan er hins vegar mjög móttækileg fyrir birtu. Það að vera áfram í myrkri gæti gefið líkamanum merki um að það sé enn nótt og þá er maður þreyttari en ella. Ef það er dimmt þegar maður vaknar er best að kveikja á björtu ljósi.

7. Að hafa enga rútínu

Það er best að hafa einhvers konar rútínu á morgnana. Sumir halda því fram að við eigum takmarkað mikið af viljastyrk fyrir hvern dag. Ef við þurfum stöðugt að vera að ákveða hvað við gerum hverju sinni alla morgna er hætt við að maður eigi lítinn viljastyrk eftir seinni partinn þegar maður þarf að leysa verkefni í vinnunni. Reyndu að lágmarka allar ákvarðanatökur yfir daginn með því að byggja upp góða rútínu. Þetta gerir t.d. Mark Zuckerberg með því að klæðast því sama dag hvern.

mbl.is