Borðar 2-3 á dag og sleppir millimáli

Rafn Frank­lín Hrafns­son.
Rafn Frank­lín Hrafns­son. Ljósmynd/Aðsend

„Hvað á ég að borða?“ er spurning sem Rafn Franklín Hrafnsson þjálfari og heilsuráðgjafi hefur fengið oftar en hann getur talið. Þegar hann sjálfur byrjaði að kafa ofan í mataræði og næringarfræði opnaðist heill heimur fyrir honum. Út frá sinni hugmyndafræði og þekkingu skrifaði hann bókina Borðum betur – Fimm skref til langvarandi lífsstílsbreytinga.

Rafn segir það ekki nema von að fólk sé áttavillt í frumskógi næringarfræðinnar og öllum þeim kúrum og matarnýjungum sem koma upp á yfirborðið reglulega.

„Ég hef fylgst með fólki endurtaka sömu mistökin í mataræði aftur og aftur, með viljann að vopni en áherslurnar á kolröngum stað. Bókin snýst ekki um þetta klassíska skyndilausna-módel heldur ferðalag að langtímaárangri þannig að þú getur aðlagað þitt mataræði og gert það að heilbrigðu mataræði á einfaldan hátt. Í bókinni er skilvirkur fimm skrefa leiðarvísir sem leiðbeinir lesendum í gegnum þetta ferðalag og gefur þér tólin til að taka upplýstar og sjálfstæðar ákvarðanir í mataræði.

Heilsuheimurinn stýrist af skyndilausnahugarfari sem oftar en ekki fær fólk til að leggja heilsuna að veði fyrir skammtímaárangur á vigtinni. Ég held því fram að með réttum áherslum og hugarfari getum við auðveldlega notið lífsins og matarins án þess að það komi niður á heilsunni.

Borðar tvær til þrjár máltíðir á dag

Ég er mikill matgæðingur. Ég elska að borða en á sama tíma hef ég yfirleitt ekki svigrúm til að matreiða Michelin-máltíðir. Ég held hlutunum því mjög einföldum. Kjarninn í mínu mataræði er kjöt, fiskafurðir og egg sem ég skreyti síðan yfirleitt með mínu uppáhaldsgrænmeti og gjarnan gerjuðu grænmeti líka,“ segir Rafn þegar hann er spurður hvernig hann sjálfur borðar.

Rafn segist einnig vinna með lotuföstur. Þá borðar hann annaðhvort morgunmat og snemmbúinn kvöldmat eða fastar til hádegis og borðar kvöldmat um klukkan sjö. Með matnum leggur hann áherslu á einfalt meðlæti, súrkál og sósur gerðar frá grunni. Í bókinni fer hann meðal annars yfir kosti súrkáls. Hann segir gerjunina á súrkálinu gera grænmetið auðmeltanlegra og auka næringargildi þess auk þess sem súrkálið býr yfir mikilvægum góðgerlum sem skiptir miklu máli fyrir þarmaflóru líkamans og heilsu.

„Ég borða mjög sjaldan millimál. Ég stóla á þessar tvær til þrjár máltíðir yfir daginn til að halda mér söddum og sælum,“ segir Rafn sem færir rök fyrir því í bók sinni að fólk ætti að lágmarka millimál. „Við ættum frekar að láta líða lengri tíma á milli máltíða og vanda okkur við að verða södd þegar við borðum. Ég tel að hugmyndin um að borða oft á dag sé gömul mýta sem er smám saman að leysast upp.“

Hugarfarið oft á röngum stað

Hvaða mistök gerir fólk helst?

„Ég held að þetta sé margþætt. Áherslurnar og hugarfarið eru á röngum stað hjá mörgum. Það er stokkið í mataræðisbreytingar sem einhvers konar átak með fitutap að leiðarljósi sem stýrist af „allt eða ekkert“-hugarfari sem sjaldan skilar langvarandi árangri. Í staðinn ættum við að mínu mati fyrst og fremst að leggja áherslu á heilbrigði og velja næringuna út frá því hvað færir okkur bætta heilsu. Fitutap fylgir þessu oft óhjákvæmilega. Þegar þessi hugarfarsbreyting á sér stað held ég að við getum náð betri árangri í mataræði.“

Rafn Franklín var að gefa út bókina Borðum betur.
Rafn Franklín var að gefa út bókina Borðum betur. Ljósmynd/Aðsend

Rafn er ekki endilega talsmaður boða og banna og leyfir sér með góðri samvisku að njóta þeirra kræsinga sem jólin og hátíðunum fylgja. Hann einfaldlega vandar valið og beitir ákveðnum „herkænskuaðferðum“ til að gefa líkamanum svigrúm til að melta vel, vinna úr matnum og passar að orkuflóðinu sé vel eytt með góðri hreyfingu.

„Ég beiti ákveðnum aðferðum til að gefa líkamanum meira svigrúm til að geta borðað þetta án þess það komi niður á heilsunni. Ég nýti göngutúra, æfingar og lotuföstur sem dæmi. Ég nota þetta á herkænskulegan hátt í kringum jólamáltíðir eða einhvers konar sukk til að líkaminn fái alltaf svigrúm til þess að vinna úr jólamatnum og viðhalda heilsunni. Þetta er mín leið til að halda jafnvægi í mataræði og lífsstíl.“

Nýtum það sem landið hefur upp á að bjóða

Íslendingar koma ekki alltaf vel út úr samanburði við önnur vestræn lönd hvað viðkemur offitu og lífstílssjúkdómum. „Ég held við Íslendingar mælumst hugsanlega verr en aðrar Norðurlandaþjóðir vegna þess við erum meira að eltast við bandarísku menninguna en önnur Norðurlönd. Það ætti ekki að þurfa að segja okkur að það sé ekki jákvætt heilsufordæmi. Að mínu mati eigum við að nýta okkur hversu stutt við erum frá rótum okkar. Við búum við þau einstöku forréttindi að geta nálgast hreina íslenska fæðu úr næsta nágrenni. Þetta er hágæðamatur sem er algjör fjársjóður að hafa aðgengi að.“

Til að ná góðu heilbrigði segir Rafn að fjórir undirstöðuþættir 360 heilsu verði að vera fyrir hendi. „Þessir þættir eru svefn, næring, hreyfing og andleg heilsa en til að ná raunverulegum árangri þurfa þessir þættir að vera í ákveðnu jafnvægi.“

Nú þegar nýtt ár ber að garði hugsa margir um að setja heilsuna í forgang. Rafn hvetur fólk til þess að fara ekki í öfgafull átök. Hann vonast frekar til þess að fólk geri hollt mataræði að sínu. „Ósk mín með þessari bók er að hjálpa sem flestum að ná betri tökum á eigin mataræði án þess að vera sífellt að hoppa á milli matarkúra, pína sig í átök eða fylgja einhæfum matarplönum sem skila sjaldan langvarandi árangri. Einfaldlega borða betur!“

mbl.is