Hertogaynjan á ketókúr

Sarah Ferguson talar opinskátt um baráttuna við aukakílóin.
Sarah Ferguson talar opinskátt um baráttuna við aukakílóin. AFP

Sarah Ferguson, hertogaynjan af Jórvík, hefur átt í vanda með aukakílóin lengi. Ferguson er nú á eins konar ketómataræði og líkar vel. Síðastliðið eitt og hálft ár hefur hún fundið fyrir aukinni hreysti og grennst í leiðinni.  

Ferguson byrjaði að borða yfir tilfinningar sínar þegar foreldrar hennar skildu þegar hún var 12 ára. Hún kenndi sjálfri sér um hvernig fór fyrir hjónabandi þeirra. „Ég byrjaði að leita huggunar í mat, kílóin söfnuðust upp og þetta hélt áfram þegar ég varð fullorðin. Matur varð að fíkn og alltaf þegar eitthvað erfitt gerðist borðaði ég til að takast á við það,“ sagði Ferguson í viðtali við Hello.  

Vaxtarlag Ferguson fékk oft neikvæða athygli í breskum fjölmiðlum, sem gerði illt verra. 

„Ég hef reynt marga mismunandi mergrunarkúra í gegnum árin en þegar ég heyrði af vinnu Gianluca Mech ákvað ég að heimsækja háskólann í Padúa, einn elsta háskóla í heimi, þar sem rannsóknir voru gerðar á mataræðinu. Ég var hrifin af því sem ég komst að og vísindalegar niðurstöður sýna jákvæð áhrif ketógenískrar fæðu og afbrigði hennar,“ sagði Ferguson. Mataræðið sem hún er á byggist á hugmyndafræði ketómataræðis og snýst um að lágmarka kolvetnainntöku og brenna fitu.

Ferguson er búin að vera í 18 mánuði á mataræðinu. Hún æfir einnig reglulega og passar að sofa vel. Á sama tíma hefur hefur hún séð kílóin fjúka auk þess sem heilsa hennar er betri. 

Ferguson fór í samstarf við fyrirtæki Mechs sem framleiðir hefðbundnar ítalskar matvörur sem má borða á ketómataræði hans. Að sögn Mechs kann Ferguson að meta brauð, pasta og pítsur sem almennt er bannað á hefðbundnu ketómataræði.

Sarah Ferguson og Beatrice prinsessa af Jórvík árið 2018.
Sarah Ferguson og Beatrice prinsessa af Jórvík árið 2018. mbl.is/AFP
mbl.is