10 merki um að hann sé skotinn í þér

Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.
Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur.

„Samskipti kynjanna koma oft til tals í samtalsmeðferð hjá mér og þá sérstaklega hjá þeim sem eru einhleypir og á stefnumótamarkaðnum. Til að gera stefnumótalífið auðveldara er hugsanlega hægt að lesa í líkamstjáninguna í stað þess að reyna að finna út hver sé raunveruleg merking skilaboðanna sem þú færð eða hvers vegna biðtíminn á milli skilaboðanna er eins og hann er. Samkvæmt rannsóknum er líkamstjáning um 50-80% af þeim samskiptum sem eiga sér stað á stefnumóti. Þegar okkur finnst einhver aðlaðandi, hvort sem það er sá sem þú ert með á stefnumóti eða einhver annar sem þér líkar við, þá sendir þú ákveðin skilaboð í gegnum líkamstjáningu þína, oftast ómeðvitað, og þetta á við bæði kynin. Langoftast lesum við ekki í þessi tákn þar sem við vitum ekki eftir hverju við eigum að leita,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi í sínum nýjaseta pistli: 

Vertu meðvituð um þessi tákn næst þegar þú ferð á stefnumót.

  • Stórt bros. Þá erum við að að tala um að viðkomandi brosir með öllu andlitinu, þannig að við sjáum liggur við hverja einustu broshrukku. Þetta er mjög gott tákn og táknar yfirleitt að viðkomandi líki við þig á rómantískan hátt.
  • Ef hann á erfitt með að sleppa augunum af þér og þú tekur sérstaklega eftir þessu, þá er þetta mjög gott tákn. Ef þið eruð á stefnumóti og þú þarft að bregða þér frá er líklegt að hann fylgi þér eftir með augunum án þess að þú verðir þess vör.
  • Líkamsskanninn. Já við konur vitum nákvæmlega hvað þetta er og höfum stundum tekið þessu illa, en þetta er oftast mjög ómeðvitað hjá karlmönnum, gefum þeim smá slaka. Semsagt þegar karlmaður rennir augunum eftir þér frá toppi til táar.
  • Slakar hendur. Ókrosslagðar hendur eru yfirleitt tákn um að viðkomandi sé opinn fyrir því að kynnast þér.
  • Afslappaðir fætur. Ef þið sitjið og hann er með opið bil á milli fótanna þá er það gott tákn og táknar yfirleitt að honum lítist vel á þig.
  • Hafa sig til. Þegar hann fer að laga á sér hárið í samtölum ykkar t.d. með því að renna fingrum í gegnum hárið og/eða fer að laga eitthvað varðandi fötin sín. Þetta gera karlmenn oft ómeðvitað þegar þeim finnst einhver aðlaðandi.
  • Fætur. Þetta er mjög áhugavert tákn. Á kannski frekar við þegar þú ert í margmenni, t.d. ef þú ert með hópi af vinum og ef til vill er smá hópur að tala við sama aðilann, þá er áhugavert að sjá hvert karlmaðurinn snýr fótum sínum. Viðkomandi mun líklegast snúa fótunum að þeim einstaklingi sem viðkomandi hefur mestan áhuga fyrir og vill kynnast.
  • Sami gönguhraði. Göngur hafa verið mjög vinsælar núna í Covid. Ef þið eruð að ganga saman og þið labbið nánast í takt þýðir það að hann hafi annaðhvort hægt á sér eða hraðað á sér til að vera í takt við þig, líklegast af því honum líst vel á þig. Þá er einnig líklegt að hann líti mikið á þig. Ef viðkomandi myndi t.d. labba aðeins á undan þér og líta mikið undan er mjög ólíklegt að sá aðili sé áhugasamur.
  • Útvíkkaðir augasteinar. Þetta er mjög áhugavert og hefur verið rannsakað. En sjáöldrin bregst ekki eingöngu við ljósi, þau geta einnig brugðist við sterkum tilfinningum líkt og ótta, sorg og hrifningu. Ef þú sérð þetta hjá viðkomandi finnst honum þú líklegast mjög aðlaðandi.
  • Frumkvæði að snertingu. Oft á viðkomandi erfitt með að snerta þig ekki ef honum finnst þú mjög aðlaðandi. Það getur verið létt snerting t.d. til að sjá viðbrögð þín og oftast er þetta mjög gott tákn. 

Í þessari grein tók ég fyrir helstu líkamstjáningu karlmanna þegar þeim finnst viðkomandi aðlaðandi. Næst mun ég taka fyrir líkamstjáningu okkar kvenna, hvaða skilaboð við sendum með líkamstjáningu okkar.

mbl.is