Lærði mikilvæga lexíu þegar ræktin lokaði

Jessica Alba.
Jessica Alba. AFP

Jessica Alba, leikkona og athafnakona, lærði að meta hreyfingu upp á nýtt á síðasta ári. Hún hélt alltaf að hún þyrfti að svitna mikið til þess að taka virkilega á. Nú er göngutúr jafnvel alveg nóg fyrir hana. 

„Ég hélt alltaf að ég þyrfti að svitna þyngd minni í vatni, þangað til vöðvarnir gefast upp, mér þarf að líða eins og ég hafi hlaupið maraþon – þannig þarf mér að líða eftir að ég æfi,“ sagði Alba í viðtali við Women's Health

Þegar líkamsræktir lokuðu áttaði hún sig á að hún þarf ekki að keyra sig út í hvert skipti sem hún hreyfir sig. Núna felst kannski æfing í því að fara út að ganga og hlusta á hlaðvarp. „Ég lærði að blanda þessu saman og mér líður ekki eins og mér hafi mistekist ef ég er ekki alveg að drepa mig,“ sagði Alba sem segist hreyfa sig tvisvar til fjórum sinnum í viku. Nýlega tók hún upp á því að gera pilates-æfingar í sérstöku pilatestæki. „Ég finn fyrir öllum vöðvum í miðjunni. Ég vissi ekki einu sinni að ég væri með þessa vöðva.“

Í sumar fór Alba í gönguferð með vinkonu sinni þar sem hún borðaði bara veganfæði. Hún segist hvorki vera mikill göngugarpur né hafi verið vegan en langaði að prófa eitthvað nýtt. „Ég reyni að borða plöntufæði fjórum sinnum í viku og ég drekk ekki áfengi,“ sagði Alba. „Á föstudögum, laugardögum og sunnudögum er allt leyfilegt. Það er hófsemi fyrir mér.“

Jessica Alba.
Jessica Alba. AFP
mbl.is