Inga Lind elti Heru á röndum í þrjú ár

Inga Lind Karlsdóttir framleiðandi hjá Skot Productions fylgdi Heru Björk …
Inga Lind Karlsdóttir framleiðandi hjá Skot Productions fylgdi Heru Björk Þórhallsdóttur eftir í þrjú ár við gerð heimildamyndir um hana. mbl.is/Árni Sæberg

Inga Lind Karlsdóttir framleiðandi hjá Skot Productions fylgdi söngkonunni Heru Björk Þórhallsdóttur eftir í þrjú ár og fylgdist með ferli hennar þegar hún fór í magaermi. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Inga Lind fylgist með fólki ná bata frá ofþyngd því hún starfaði við sjónvarpsþáttinn The Biggest Loser Ísland og gerði sjónvarpsþættina Stóra þjóðin sem sýndir voru á Stöð 2 2012. Hún segist ekki hafa neinn sérlegan áhuga á ofþyngd fólks einni og sér heldur hvernig fólk dílar við hlutina og nær árangri. 

„Hera Björk leitaði til mín skömmu áður en hún átti bókaðan tíma í þessa aðgerð sem hún vissi að myndi breyta lífi hennar. Í henni var baráttuhugur, hún var bjartsýn en líka kvíðin. Þótt hún væri vel undirbúin, vissi hún að margt myndi koma sér á óvart í kjölfarið og ófáar hindranir yrðu á veginum til betra lífs. Hera er leiðtogi í eðli sínu og í hjarta hennar er mikil þörf til að deila því sem hún telur gagnlegt fyrir aðra að vita. Þess vegna bauð hún okkur í Skot Productions að fylgjast með sér í þessu ferli öllu og það þurfti svo sannarlega ekki að suða lengi í okkur. Við erum Heru ákaflega þakklát fyrir traustið sem hún sýnir okkur því málefnið er viðkvæmt og snertir allar hennar dýpstu tilfinningar og erfiðustu upplifanir. Það er ekki sjálfsagt að manneskja gefi svona mikið af sér,“ segir Inga Lind.    

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þú dregur fram í dagsljósið líf fólks sem á í baráttu við offitu. Þú gerðir þættina Stóra þjóðin 2012 og vannst að þáttunum The Biggest Loser Ísland. Hvers vegna heillar þetta viðfangsefni þig?

„Þetta er mjög góð spurning! Svarið verður samt sennilega ekki jafn gott. Eitt hefur nú bara leitt af öðru, í byrjun var það sennilega fréttamannseðlið sem rak mig í að upplýsa áhorfendur um þann skaða sem offita veldur þeim mikla fjölda sem við hana glímir, og er í raun vandi okkar allra ef við horfum á stóru myndina. Í ljósi reynslunnar sem ég öðlaðist við gerð þeirra heimildaþátta var ég fengin til að vera þáttastjórnandi í The Biggest Loser. Ég hef sennilega þótt hafa fordómalausa innsýn í málefnið. Þetta viðfangsefni, offita, heillar mig ekki sem slíkt heldur miklu frekar allt hið mannlega sem tengist henni, jafnt samfélagslega sem persónulega, ekki síst glíma fólks við sjálft sig, fortíðina, umhverfið og samtímann sem er erfiður staður til að vera á ef fólki er hætt við að þyngjast óhóflega,“ segir hún. 

Er þjóðin verr stödd líkamlega vegna ofþyngdar en við gerum okkur grein fyrir?

„Því miður tel ég að svo sé. Hlut­fall offitu meðal full­orðinna Íslend­inga hef­ur auk­ist jafnt og þétt und­an­farna ára­tugi, fór úr 12% árið 2002 í 27% árið 2017. Ísland er með hæsta hlut­fallið í samanburði við önnur ESB-lönd og Nor­eg. Þá fjölgar íslenskum börnum sem eru skilgreind með offitu. Tíundi hver drengur í níunda bekk er með offitu og fjórðungur íslenskra grunnskólabarna er í ofþyngd. Þetta er hættuleg þróun því börn sem verða of feit í æsku eru mjög líkleg til að halda áfram að fitna og þar með líklegri til að þróa með sér sjúkdóma í framtíðinni.“

Vissir þú eitthvað um magaermi áður en Hera fór í aðgerðina?

„Já, ég hef fylgst ágætlega með umræðunni um ýmsar tegundir offituaðgerða. Þessi er algengust og talin vera sú sem hefur hvað bestar afleiðingar til lengri tíma litið. Hún er einföld í framkvæmd og fylgikvillar sjaldgæfir. Aðalsteinn Arnarson skurðlæknir fer vel yfir þetta í myndinni.“

Hvernig var vinnuferlið við heimildamyndina um Heru Björk?

„Við Hera vorum í góðu sambandi í þessi rúmu þrjú ár sem myndin spannar og ég fylgdist með henni úr fjarlægð með hjálp míns fólks í Skoti. Við minntum hana til dæmis reglulega á að taka uppvideódagbækur sem hún gerði og þær gefa okkur dýrmæta innsýn í þankagang hennar á ólíkum stöðum í ferlinu. Við Steingrímur J. Þórðarson myndatökumaður eltum hana svo hingað og þangað og tókum við hana viðtöl á ýmsum stigum. Heimir Bjarnason myndtökumaður elti hana meðal annars fyrir okkur í Reykjavíkurmaraþoninu! Og alltaf gaf Hera jafn mikið af sér, svo mikið að efnið sem endaði á gólfinu í klippiherberginu hjá Haraldi Sigurjónssyni telur hrikalega marga klukkutíma. Sem er synd því Hera með skemmtilegri mannverum þessarar jarðar.“

Hera Björk Þórhallsdóttir fór í magaermi.
Hera Björk Þórhallsdóttir fór í magaermi.

Hvað var erfiðast við þetta verkefni?

„Fyrir utan að henda til hliðar öllu því efni sem ekki komst fyrir í myndinni, er það sennilega tíminn. Ég er vanari því að vinna hraðar, upphaflega þannig að „deadline“ verkefnanna var síðar sama dag en nú í seinni tíð nokkrum vikum eða mánuðum eftir að þau hafa komist á koppinn. Þung skref tók hins vegar þrjú og hálft ár í það heila og ég þurfti oft að æfa mig í þolinmæði á þessu tímabili og gæta þess að detta ekki í athyglisbrest.“

Bjóstu við því að eitthvað kæmi upp á og þið gætuð ekki klárað þetta verkefni?

„Nei, ég hef alltaf haft 100% trú á Heru. Jafnvel þótt þyngdartapið hefði ekki orðið sem skyldi, baráttan erfiðari og áföllin fleiri þá var hún allan tímann staðráðin í að leyfa okkur að fylgjast með, enda er það sálræna erfiðið sem myndin fjallar fyrst og fremst um,“ segir Inga Lind. 

Ertu á því að magaermi sé lausnin fyrir þá sem eru orðnir svona þungir eða er eitthvað annað hægt að gera?

„Málið er að þegar fólk er komið yfir ákveðin mörk í þyngdaraukningu þá tekur líkaminn völdin og venjulegar aðferðir við að léttast virka ekki lengur. Þá er ekkert sem getur hjálpað nema læknir og aðgerð. En það þarf líka að vera alveg kýrskýrt að læknir og aðgerð er ekki til neins ef hugur viðkomandi er ekki 100% með í dæminu. Aðgerðin sem slík er ekki töfralausn. Hún er úrræði sem virkar ef fólk er fullkomlega meðvitað um hvað það er að fara út í. Á skurðarborðinu hefst orrustan en hún endar ekki þar. Þetta er mikil vinna og margra ára stríð, fólk þarf jafnvel að vera tilbúið í slaginn ævina á enda. Þessi barátta fer að nær öllu leyti fram í höfðinu á fólki.“

Hvað er annars að frétta af þér?

„Allt bara mjög gott, takk fyrir. Þarf að fara að fá mér fjarsýnisgleraugu. Annars bara góð.“

Hvað dreymir þig um að gera á nýja árinu?

„Spila golf. Ég held að það sé gaman og ég held að ég sé ógeðslega góð í því.“

Hvað drífur þig áfram í leik og starfi?

„B-12.“

mbl.is