„Kynlíf er fallegt tækifæri til að rækta nánd og tengingu“

Helga Guðrún hefur mikla trú á því að þjálfa upp …
Helga Guðrún hefur mikla trú á því að þjálfa upp nánd í nánum samskiptum. mbl.is/Sissi

Helga Guðrún Snjólfsdóttir hefur áhuga á öllu sem viðkemur nánd, samskiptum og kynlífi. Hún býður upp á námskeið fyrir pör í gegnum Zoom-forritið. 

Helga Guðrún leiðir námskeið og viðburði um kynorku og nánd auk þess að taka fólk í einkatíma. Hún starfar einnig sem jógakennari og leiðir sérsniðin námskeið fyrir fólk sem vill byggja sig upp eftir áföll eða langvarandi álag.

„Ég er að byggja upp starfsemi mína undir nafninu Allt sem þú ert og býð upp á leiðsögn fyrir hópa og einstaklinga sem snýr að því að styðja fólk í að taka sjálft sig í sátt, að leyfa sér að vera allt sem það er.“

Helga Guðrún segir að námskeiðið Dýpri nánd fyrir pör hafi orðið til í fyrsta samkomubanninu.

„Þá fóru öll mín námskeið og viðburðir í hlé því ekki var hægt að hittast í raunheimum. Þá sá ég hversu frábært tækifæri væri að leiða pör inn í dýpri nánd, hlið við hlið heima hjá sér, tengd inn á námskeið í gegnum Zoom-forritið. Þetta námskeið hefur gengið síðan þá og næsti hópur verður sá sjöundi á námskeiði hjá mér.

Námskeiðið er fjögur skipti þar sem hópur af pörum hittist og hver tími er með svipuðu sniði þar sem ég kynni viðfangsefni vikunnar, leiði þau svo inn í æfingar sem þau gera í einrúmi. Svo gefst tækifæri fyrir alla að deila þeirrra upplifun af æfingunum og þannig fær hópurinn dýrmæta innsýn í þá sameiginlegu reynslu að vera í pari.“

Þarf fólk þjálfun í að upplifa náið parasamband?

„Stutta svarið er já. Ég held að mörg pör glími við svipaðar áskoranir í sambandinu, að þrá gæðastundir tvö saman en finna ekki tímann, að reiða sig á afþreyingu og verja of miklum tíma í praktísku málin og ekki síst að vita kannski ekki hvar skuli byrja ef rækta á dýpri nánd.

Hraði samfélagsins og miklar annir styðja ekki við djúpa nánd, til að vera í nánd þarf að hvíla í augnablikinu og vera til staðar, það krefst æfingar og jafnvel þarf að brjóta upp áragömul mynstur og venjur. Einnig tel ég að sagan sem okkur var seld um að lífið eigi alltaf að vera auðvelt og þægilegt sé að hamla okkur í að tala um erfiðu og óþægilegu hlutina sem er partur af því að opna sig og deila með öðrum.“

Í kynlífinu erum við berskjölduð

Hvaða máli skiptir kynlíf að þínu mati?

„Kynlíf er fallegt tækifæri til að rækta nánd og tengingu, auk þess sem unaður og sæla er mjög heilandi. Í kynlífi erum við mjög berskjölduð og getum tengst elskhuganum á djúpan hátt þar sem við sýnum hliðar okkar sem fáir fá að sjá. Snerting er okkur mannfólkinu líka lífsnauðsynleg og í kynlífi getum við fengið góðan skammt af henni. Kynlíf kveikir á lífskraftinum og við lendum í augnablikinu.

Þó er mikilvægt að átta sig á að kynlíf er samt ekki alltaf náið. Kynlíf þar sem stefnt er að einhverju lokamarkmiði, yfirleitt fullnægingu, þá er hætt við að við missum af dýrmætum augnablikum og unaði á leiðinni. Einnig er algengt að fólk sé að reyna að standa sig, sýna einhverja ákveðna frammistöðu og þá erum við ekki lengur sönn og hrá heldur að reyna að vera eitthvað sem við höldum að sé vænst af okkur.“

Er hægt að kenna fólki að elska betur?

„Ég trúi því af heilum hug að það sé hægt og að leiðin að því sé að læra að elska sjálfan sig. Þegar við lærum að elska okkur sjálf og taka í sátt allt sem við erum, ekki bara það sem við höldum að sé ásættanlegt eða gott, eigum við auðveldara með að elska aðra bæði kosti þeirra og bresti.“

Hvað með námskeiðið um kvensköpin?

„Kvensköp er nýtt námskeið fyrir konur. Þetta námskeið varð til í framhaldi af net-kvennahring sem ég hélt í desember með þemað kvensköp. Við konurnar sem komum saman það kvöld áttum magnaða stund og margar voru spenntar í meira, að þetta hefði bara verið byrjunin einhvern veginn. Morguninn eftir kom þetta bara upp úr mér í heild sinni, fjögurra vikna námskeið með vikulegum net-kvennahring og Facebook-hópi fyrir innblástur og heimaverkefni, þar sem styrkjum tenginguna og samband við okkar heilagasta hluta, kvensköpin!“

Þekkja ekki eigin píku

Eru konur yfirleitt ekki sáttar við sköpin sín?

„Ég upplifi að það sé almennt skortur á tengingu. Að margar konur hafa ekki kannað sína eigin píku af forvitni, jafnvel aldrei snert hana meðvitað innvortis. Til dæmis heyri ég mjög oft að konur hafi kynnst píkunni sinni fyrst þegar þær fóru að nota tíðabikar, því þá þarf meira að vera að koma við og koma bikarnum fyrir á réttum stað. Einnig eru truflandi hugmyndir um að kvensköp eigi að líta út á einhvern ákveðinn hátt, birtingarmyndir úr klámi til dæmis þar sem mjög einsleitar píkur fá hlutverk. Algengi lýtaaðgerða á kvensköpum hefur færst í aukana þar sem konur láta minnka innri barma vegna hugmynda um að það sé ekki nógu fallegt þegar þeir eru stærri. Þetta þykir mér mjög sorgleg þróun og bara það að kynnast börmunum, ytri og innri, og finna unaðinn sem þar er í boði er tækifæri til að elska þá nákvæmlega eins og þeir eru.“

Hvernig lítur þú á lífið?

„Þetta er stór spurning. Ég er bjartsýn að eðlisfari og sé tækifæri á hverju strái. Ég hef lært að njóta lífsins, að staldra við og elska einföldu hlutina. Ég elska mig eins og ég er, en það hefur verið mitt stærsta verkefni og dýrmætasta að læra það. Ég er margfalt mildari við mig og þar af leiðandi aðra líka. Ég trúi því að alheimurinn sé með mér í liði og að ég eigi ákveðið hlutverk hér á jörð, ég þarf að hlusta eftir leiðsögn og svo stíga skrefin, vinna vinnuna sem þarf til að sinna mínu hlutverki.“

Hvað er það dýrmætasta við lífið að þínu mati?

„Að elska og vera elskuð, fá að þroskast og eldast. Ég sé það svo vel þegar ég horfi á börnin mín þrjú vaxa úr grasi að ég er með lífið að láni og ég vil lifa því vel, kærleiksrík, frjáls og leggja mitt af mörkum til að fleiri njóti þess sama.“

Helga Guðrún er dugleg að finna tækifæri í aðstæðunum.

„Nú er ég á leið inn í fjögurra daga námskeið um unað, Master your Pleasure, með einum af mínum tantra-kennurum. Vegna aðstæðna er námskeiðið á netinu þannig að ég verð ein í bústað þessa daga og sit námskeiðið. Ég leyfi fylgjendum mínum á Instagram að fylgjast aðeins með þessu ferðalagi mínu og býð lesendur velkomna að finna mig þar.

Ég býð líka upp á einkaferðalag í átt að meira frelsi, nánd og kynorku fyrir þá sem vilja frekar fá einstaklingsmiðaða leiðsögn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »