Ætlar að grenna sig fyrir brúðkaupið

Gwen Stefani og Blake Shelton eru að fara gifta sig. …
Gwen Stefani og Blake Shelton eru að fara gifta sig. Shelton ætlar að grenna sig fyrir stóra daginn. AFP

Sveitasöngvarinn Blake Shelton stefnir á að koma sér í betra form fyrir brúðkaup sitt og söngkonunnar Gwen Stefani. Shelton setti pressu á sig þegar hann sagðist í útvarpsþætti ætla að léttast. Hvort sem Shelton er aðeins of þungur eða ekki er hann handviss um ást unnustu sinnar. 

Shelton talaði um þyngdina og áform sín í útvarpsþættinum Party Barn Radio With Luke Bryan. „Á skalanum einn til tíu Blake Shelton, ætlar þú að léttast um rúmlega níu kíló?“ Spurði þáttastjórnandinn. 

„Ef ég segi tíu þá finnst mér eins og ég þurfti að gera það, svo tíu. Þetta er komið þarna út svo ég get ekki brugðist fólki núna,“ sagði Voice-dómarinn.

Shelton sagðist ekki þola að sjá spegilmynd sína. Hann grínaðist með að hann hefði endurraðað speglunum heima hjá sér þannig að þeir hölluðust niður og hann liti út eins og hann væri að taka sjálfumynd af sér ofan frá.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann opnar sig um kílóin sem hann hefur bætt á sig í kórónuveirufaraldrinum. Í september sagði hann frá því í spjallþætti Ellenar DeGeneres að Stefani hefði litað hár hans í útgöngubanni.

„Mér fannst það reyndar flott. Mér hefði fundist það flottara hefði ég ekki þyngst um 53 kíló í útgöngubanninu,“ sagði hann í gríni. „Ég hélt að ég myndi líta út fyrir að vera yngri en ég var alveg jafn feitur. Núna er ég að reyna að léttast,“ sagði hann í haust.

mbl.is