Ert þú með lífsstílstengt fæðuóþol?

Matthildur Þorláksdóttir er þroskaþjálfi og stúdent frá MH. Hún lærði náttúrulækningar í Hamborg í Þýskalandi og útskrifaðist sem löggiltur náttúrulæknir eftir þriggja og hálfs árs nám, árið 2000. Matthildur hefur stundað náttúrulækningar á Íslandi síðan hún lauk námi. Hér fræðir hún okkur um fæðuóþol og hvernig best er að greina rót vandans. Hún skrifar um fæðuóþol í heilsublað Nettó: 

Fæðuóþol hefur verið mikið í umræðunni á síðustu árum og er því gjarnan ruglað saman við fæðuofnæmi sem er allt annar hlutur. Fæðuofnæmi er greint af lækni og felur í sér alvarlega svörun.

Matthildur Þorláksdóttir.
Matthildur Þorláksdóttir.

Í þessari grein er eingöngu fjallað um fæðuóþol, sem oftast er erfitt að staðfesta eftir hefðbundnum leiðum. Manneskja sem þjáist af óþolseinkennum hefur jafnvel farið í gegnum margvíslegar blóðprufur og aðrar rannsóknir, án nokkurrar sjúkdómsgreiningar. En það er mikilvægt að útiloka að um aðra og alvarlegri hluti sé að ræða. Leiði rannsóknir ekkert í ljós, getur fæðuóþol verið skýringin, en þá er um að ræða starfrænar truflanir.

Fæðuóþol getur verið af margvíslegum toga. Orsökin getur verið rangt mataræði til lengri tíma, ofnotkun ákveðinnar fæðu og einhliða fæðuval. Orsökin getur líka verið skortur á meltingarvökvum og meltingarensímum til að hvarfa fæðuna sbr. það sem gerist í mjólkursykursóþoli. Hversu lengi þetta ferli stendur er misjafnt og fer  allt eftir þolmörkum hvers og eins. En eins og með aðra kvilla þá versnar ástandið sé þessu leyft að halda áfram án þess að nokkuð sé við gert.

Oft reynir líkaminn að aðlagast þessu ástandi og einkenni sem koma fram í dag geta verið af völdum þess sem var neytt í fyrradag. Þannig er erfitt fyrir fólk að átta sig sjálft á, hvað veldur. Á þessu stigi myndar fólk oft sterka löngun og jafnvel fíkn í það sem það hefur óþol fyrir. Birtingarmynd einkennanna geta verið; þemba, loftgangur, þreyta, magaverkir, brjóstsviði, liðverkir, höfuðverkur, mígreni, ristilkrampar, hægðavandamál, kláði og margt fleira. Segja má að á bak við hvaða einkenni sem er, geti verið fæðuóþol. Óþægindin sem af óþolinu hljótast brjótast svo út í mismunandi myndum eftir hverjum og einum. Einn getur t.d. brugðist við miklu magni af sykri með útbrotum, annar með höfuðverk, sá þriðji með ristilkrömpum, sá fjórði með öllum þessum einkennum.

Þegar búið er að rannsaka viðkomandi án sjúkdómsgreiningar, því eins og fyrr segir er ekki auðvelt að greina óþol eftir hefðbundnum leiðum, þá förum við oft að sætta okkur við kvillana, þrátt fyrir að daglega skerði þeir lífsgæðin okkar að hluta til. En í reynd eru það þessir kvillar sem eru boð líkamans um að skoða hvað og hvort við þurfum að leiðrétta eitthvað í fæðuvali og lífsstíl. Þar liggur okkar heilsufarslega ábyrgð.

Orsakir fæðuóþols eru oft lífsstílstengdar og snúast  jafnvel um magn og tíðni á neyslu fæðutegunda og starfrænar truflanir sem það hefur í för með sér. Þegar hjálpa skal fólki með fæðuóþol er mikilvægt að greina rót vandans. Í mínu starfi í náttúrulækningum er alltaf unnið heildrænt með einstaklinginn. Skoðuð eru atriði s.s. fæða, svefn, hvíld, tilfinningalegt álag, streita, hreyfing og umhverfisþættir. Er viðkomandi að ofnota ákveðna fæðu eða fæðutegundir, er skortur á ensímum eða öðrum meltingarvökvum sem er orsökin? Er viðkomandi undir miklu álagi eða streitu og temur sér að næra sig á hlaupum og grípa það sem hendi er næst, ofnotar jafnvel koffíndrykki og kolvetni?  Á hvaða tíma er fólk að borða og er það að borða nóg, of mikið, einhliða? Hvernig er  svefninn, ekki bara lengd heldur líka gæði svefns? Rannsóknir sýna að hungurhormón eru framleidd í meira magni hjá þeim sem sofa illa.

Það sem hjálpar mest á þessu stigi er að fjarlægja tímabundið þær fæðutegundir sem eru óþolsvaldar og leyfa líkamanum að jafna sig. Síðan er hægt að finna út í hvaða magni hægt er að neyta fæðunnar framvegis. Gott er að þróa með sér líkams- og heilsuvitund og temja sér að borða meðvitað. Svona breytingar snúast ekki bara um það sem er dregið úr, heldur meira um hvað þarf að bæta inn í fæðuvalið. Hafi viðkomandi neytt ákveðinna fæðutegunda í miklu magni, má hann búast við fráhvarfseinkennum og höfuðverk á fyrstu dögum breytts mataræðis.

Þarmaflóran gegnir mikilvægu hlutverki í meltingarvegi og hefur á seinni árum verið mikið rannsökuð. Fæðuóþol er eitt af því sem getur valdið röskun á þarmaflórunni og þá hefur reynst vel að taka inn góðgerla til þess að bæta hana. Þegar kemur að bættu mataræði og lífsstílsbreytingum þarf einnig oft að leiðbeina fólki með omega-fitusýrur, sem oft og tíðum er of lítið af í fæðuvali. Eitt af því sem margir sem eru að kljást við fæðuóþol tala um er orkuleysi. Magnesíum stuðlar að því að draga úr þreytu og því ráðlegg ég fólki oft að skoða hvort meiri magnesíuminntaka gæti verið heppileg með tilliti til fæðu þeirra. Sé neysla fínunninna kolvetna stór hluti af fæðu getur þurft auka trefjar og B-vítamíninntöku í fæðuna.

Það eru síðan til ýmis ráð til þess að hjálpa meltingunni hjá þeim sem þjást af fæðuóþoli en ekkert eitt á við alla.

Aðalatriðið í svona breytingum er að hver og einn finni þá leið sem honum hentar best, getur auðveldlega fellt inn í sínar aðstæður, gefur honum jafnframt sem bestu líðanina og bætir lífsgæði og lífsgleði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál