Fór í heilaaðgerð og farin að kenna jóga tveimur mánuðum seinna

Ása Sóley Svavarsdóttir jógakennari fór í aðgerð síðasta haust þar sem góðkynja heilaæxli var fjarlægt úr höfði hennar. Hún býður nú upp á netnámskeið í jóga fyrir aðra einstaklinga eins og hana sem eru að ná heilsunni upp eftir erfið veikindi. 

Ása Sóley byrjaði að iðka jóga árið 2009 og fór í jógakennaranám árið 2012. Hún er einn af eigendum Yoga&Heilsu og segir eina af stærstu ástríðum í lífinu vera að hjálpa fólki með því að leiða það í gegnum jógaiðkun.

„Ég fór í minn fyrsta jógatíma árið 2009 í World Class þegar Hot jóga var að byrja hér á Íslandi. Eftir það var ekki aftur snúið og ég mætti í tíma fimm til sex sinnum í viku í nokkur ár áður en ég lét svo plata mig út í að fara í jógakennaranám. Ég starfaði í ferðaþjónustunni í tíu ár, m.a. hjá Arctic Adventures en ákvað að hætta í vinnunni og byrja að kenna jóga í fullu starfi.“

Jóga hefur gefið henni vini úti um allan heim

Ása Sóley segir jóga vera eitt það besta sem hún viti um í þessu lífi.

„Jóga hefur leitt mig í alls konar ævintýri og ótrúlega spennandi ferðalög og gefið mér yndislega vini úti um alla heim. Ég ætlaði aldrei að æfa jóga, svo ætlaði ég aldrei að verða jógakennari og alls ekki að reka mitt eigið jógastúdíó. Nú hef ég starfað eingöngu við jógakennslu síðan árið 2013 og í júní árið 2019 opnaði ég ásamt vinkonu minni litla vinalega jógastúdíóið okkar í Ármúla 9.“

Ása Sóley gekk í gegnum erfiða reynslu á síðasta ári þegar í ljós kom að hún var með góðkynja heilaæxli.

„Æxlið var ekki lífshættulegt og staðsett aftast í augntóftinni. Það pressaði á sjóntaugina þannig að ég var að missa sjónina á hægra auganu. Um þremur vikum eftir að ég greindist fór ég í aðgerð á höfði til að fjarlægja það. Þetta var stór og óhugnanleg aðgerð þar sem farið var inn í höfuðið til að reyna að fjarlægja æxlið en það var þannig staðsett og flækt saman við æðar og taugar að það var ekki hægt að fjarlægja það allt saman. Núna fljótlega fer ég aftur til augnlæknis til að athuga sjónina og svo í heilaskanna til að skoða hvernig þetta lítur út í höfðinu á mér. Mér er sagt að ég þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur þó að það hafi ekki verið hægt að fjarlægja æxlið alveg og ég veit að læknarnir munu passa vel upp á mig.“

Erfitt að horfa á sig í speglinum eftir aðgerðina

Ása Sóley taldi þær sjóntruflanir sem hún fékk fyrir rúmlega einu ári síðan tengjast mígreni sem hún hafði verið með í mörg ár.

„Smátt og smátt urðu þessar sjóntruflanir verri og síðasta vor fór ég til augnlæknis til að láta athuga þetta. Það voru teknar sneiðmyndir og myndir af augnbotninum en ekkert sást. Ég fór svo til hans aftur um haustið og þá sendi hann mig í heilaskanna þar sem æxlið svo fannst. Sjónsviðið í auganu var alltaf að minnka og ég átti erfitt með að einbeita mér að því að lesa og ef bæði augun mín hefðu verið svona þá hefði ég ekki getað keyrt bíl. Ef ekkert hefði verið gert þá hefði ég að lokum orðið blind á auganu sem mér finnst hrikaleg tilhugsun.“

Ása Sóley var á spítalanum í viku eftir aðgerðina þar sem hún lærði mikið um æðruleysi og þolinmæði.

„Ég átti mjög erfitt með að horfa á sjálfa mig í spegli öll bólgin í framan og með þetta risastóra ör sem liggur frá hárlínunni uppi á miðju höfðinu og niður að eyranu og ég gat varla opnað munninn því það þurfti að losa kjálkavöðva til að komast inn í höfuðkúpuna. Þetta var allt saman stór æfing í að sleppa tökum á aðstæðum sem maður hefur ekki stjórn á og samþykkja stöðuna eins og hún er.

Eins var mjög góð æðruleysisæfing í því þegar ég lá nakin í sturtunni á spítalanum, eftir að hafa næstum liðið út af og tvær dásamlegar hjúkrunarkonur í hvítum gúmmístígvélum með hvíta plastsvuntu voru hjá mér að passa upp á mig, færa mér epladjús og svo hjálpa mér að þvo á mér hárið. Þetta var fyrir mig svo ótrúlega skrýtin staða.“

Uppbygging heilsunnar er vinna

Ása Sóley segir að fyrstu vikurnar eftir aðgerðina hafi hún verið mjög orkulítil eins og búast mátti við.

„Ég gat lítið gert og einbeitti mér bara að því að hvíla mig. Svo fór ég að geta farið út með hundinn minn í stutta og mjög hæga göngutúra sem urðu svo alltaf aðeins lengri og aðeins hraðari. Ég er vön því að hreyfa mig mikið og þegar ég var búin að liggja í sófanum í nokkrar vikur fann ég hvað ég varð eirðarlaus. Mig langaði að hreyfa líkamann minn og var bara komin með nóg af því að hanga heima og gera ekki neitt. Þó að mig langaði að fara að hreyfa mig þá hafði ég samt ekki styrk og orku til að gera mikið. Þar sem ég er jógakennari þá hef ég ýmis verkfæri til að hlúa að sjálfri mér. Sem dæmi hreyfingu, hugleiðslu og öndun. En á þessum stað fylgir því oft að andlega heilsan er ekki heldur upp á sitt besta og mig vantaði hvata og fókus til að koma mér sjálfri á jógadýnuna mína og gera það sem ég vissi að væri gott fyrir mig. Það sem ég hefði viljað væri að geta skráð mig á jóganámskeið sem væri kennt í gegnum netið. Þar sem fólk kemur saman en er hvert í sínu lagi og ég þyrfti að mæta þar tvisvar í viku og láta kennara leiða mig í gegnum mjúkar hreyfingar og hjálpa mér að ná smá fókus. Ég ákvað því að setja saman svoleiðis námskeið sem vonandi gæti hjálpað öðrum. Það eru margir sem eru fastir heima af einhverjum ástæðum, eru að jafna sig eftir veikindi eða aðgerðir, líður ekki vel andlega en vilja gera eitthvað til að hlúa að heilsunni sinni. Að hafa einhvern fastan punkt í vikunni þar sem þú gefur þér 60 mínútur til að leyfa öðrum að leiða þig áfram í hreyfingu, öndun og slökun getur gefið okkur svo mikið. Það getur hjálpað okkur að taka lítil skref í átt að því að bæta heilsuna okkar, bæði andlegu og líkamlegu heilsuna.

Námskeiðið, Í átt að betri heilsu, er kennt í gegnum Zoom og er sett saman af rólegum æfingum til að mýkja líkamann, hugleiðslu, öndunaræfingum og jóga nidra-slökun. Það er hægt að gera þetta uppi í rúmi, í sófanum eða á jógadýnu á gólfinu. Námskeiðið er í þrjár vikur, sex skipti í gegnum Zoom þar sem hver tími er tekinn upp og svo sendur á þátttakendur þannig að þau eiga tímana og geta gert þá aftur og aftur eins oft og þau vilja. Einnig fá þátttakendur aðgang að leiddum jóga nidra-tímum sem ég hef tekið upp og sett á netið.“

Stóra verkefnið að læra að elska sjálfan sig

Hvernig hugar þú að heilsunni núna?

„Þessa dagana er ég að vanda mig við að byggja aftur upp styrk og þol. Ég elska að vera úti í náttúrunni og fer mikið út að ganga með hundinn minn og er farin að geta gengið lengra og upp á fjöll.

Núna þegar jógastúdíó mega vera opin er ég að byrja að kenna jóga aftur og get sjálf farið í tíma og það gefur mér alltaf mikla næringu. Ég þarf samt að hlusta vel á líkamann minn og passa að fara ekki fram úr mér því ég er alveg líkleg til að gera það.

Ég passa upp á að fara snemma að sofa og er að reyna að kenna sjálfri mér að hætta að vinna á kvöldin og reyna að minnka stress og áreiti.“

Ása Sóley segir einn af stóru lærdómunum í bataferlinu vera að samþykkja sig eins og hún er daglega.

„Ég ber mig ekki saman við það hvernig líkaminn minn var áður en ég fór í aðgerðina heldur reyni að muna að á síðustu tveimur mánuðum er hann búinn að vera að byggja sig upp, að græða skurð, taugar og æðar og að það sé í góðu lagi að ég sé þyngri, stirðari og aumari nú en ég var áður. Ég er alltaf að gera mitt besta og mitt besta getur verið misjafnt eftir dögum. Að taka bara eitt skref í einu er alveg nóg, ég er ekki í spretthlaupi, þetta tekur sinn tíma og það er allt í lagi. Allt er eins og það á að vera. Þetta hljómar eins og klisja en þetta er bara það sem skiptir máli og það hjálpar að hafa þetta í huga.“

Hún segir jafnframt að tilgangur lífsins sé að læra að elska sig og annað fólk eins og það er og að njóta augnabliksins.

Enda sé góð heilsa alltaf það að líða vel í eigin skinni og að vera glaður og hamingjusamur með það sem maður hefur og á hverju sinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál