„Matur er félagslega samþykkt deyfilyf“

Linda Pétursdóttir er menntaður lífsþjálfi með þyngdartap sem sérgrein.
Linda Pétursdóttir er menntaður lífsþjálfi með þyngdartap sem sérgrein.

Hlaðvarp Lindu Pétursdóttur er að slá í gegn um þessar mundir og fór sjötti þátturinn hennar í loftið í dag. Þátturinn fjallar um lausnina við ofþyngd og hvernig hægt er að koma hungrinu og matarlönguninni niður á það stig sem líkamanum er eðlislægt svo kjörþyngd náist. 

„Lausnin við ofþyngd er sú að koma hungri og matarlöngun niður á það stig sem líkamanum er eðlislægt svo þú getir verið í þinni eðlilegu þyngd. Það gerum við með því að taka út sykur og hveiti, skipuleggja máltíðir sem veita líkamanum eldsneyti og vinna í því sem eftir stendur sem eru hugsanir þínar og líðan. Þegar fólk verður edrú hættir það ekki að drekka allan vökva, aðeins þann sem það á í vandræðum með; sem eru þá allir áfengir drykkir. Þegar fólk hættir að borða of mikið þá hættir það ekki að borða mat yfir höfuð, aðeins þær matartegundir sem það á í vandræðum með.“

Hvert er þá vandamálið og hvernig komumst við á þennan stað?

Linda segir matariðnaðinn hluta af vandanum. 

„Undanfarin 30 ár hafa leitt af sér ofhungur og oflöngun. Við höfum verið fóðruð á röngum upplýsingum um það hvað sé hollt fyrir okkur og má þar nefna áróðurinn gegn fitu. Svo hefur okkur skort kennslu í að læra að stjórna tilfinningum okkar. Það er sálfræðilegur vandi. 

Við vitum ekki hvernig við eigum að takast á við mál sem koma upp. Við erum í þróunarlegri umbreytingu frá hvatningarþrennunni  að leita ánægju, forðast sársauka og draga úr áreynslu  til algerrar andstæðu. Öll markaðssetning matvæla, sem dæmi í Bandaríkjunum þar sem ég lærði mín fræði tengd þessu, byggist á því að nýta sér löngun okkar í ánægju með sem minnstri áreynslu.

Skammtastærðir eru einnig hluti af vandanum þar sem flestar skemmtanir og félagslegar uppákomur fela í sér mikið magn af mat. Við erum farin að trúa því að það sé fullkomlega eðlilegt að borða of mikið. Þrjár máltíðir á dag og millimál okkur til ánægju. Ofát er orðið að leið til að forðast sársauka og sækja í ánægju. Matur er félagslega samþykkt deyfilyf. 

Þegar kemur að taugalíffræði þá er heilinn hannaður til að vera umbunað fyrir allar gjörðir sem stuðla að því að við höldum lífi. Matur veitir þessa umbun í formi seretóns, dópamíns og/eða ílöngunar. Allar vísanir í kringum mat búa til taugabrautir sem minna okkur á hversu mikilvægt er að sækja í mat; aftur og aftur.“

Linda segir einnig mikilvægt að átta sig á hlutverki hormóna. 

„Það eru þrjú hormón sem þarf að hafa í huga við þyngdarbreytingu. Mikilvægasta hormónið er insúlín. Offitufaraldurinn stafar af of miklu insúlíni í blóði. Insúlín er geymsluhormón þannig að í hvert sinn sem það er hækkun á því í blóðinu getur líkaminn ekki nýtt fitu sem eldsneyti. Insúlín, insúlínviðnám og sykursýki hefur aukist gríðarlega með aukinni neyslu á sykur- og sterkjuríkri fæðu.“

Hún segir að þegar kemur að löngunum og tilfinningum þá sé líkamlegt hungur skynjun sem fólk finnur fyrir í stigbundnum bylgjum. 

„Matarlöngun er þrá eða fýsn í tiltekinn mat eða matartegund. Fráhvarf er sú skynjun sem við upplifum andlega og líkamlega þegar við hættum að neyta sykurs. Tilfinningar eru sveiflur, titringur eða orka sem orsakast af hugsunum þínum.“

Þátt­inn má nálg­ast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is