Hélt áfram að hlaupa á meðgöngunni

Hlaupakonan Elísabet Margeirsdóttir segir mikilvægt að konur geri það sem þær eru vanar á meðgöngunni hvað hreyfingu viðkemur, en hafi góða sérfræðinga til að fylgjast með sér og hlusti á líkama sinn og dragi úr álagi þegar þörf krefur. 

Elísabet starfar sem aðjúnkt í næringarfræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands og er einn af eigendum Náttúruhlaupa þar sem fólki er meðal annars boðið upp á þjálfun í að hlaupa áhugaverðar leiðir úti í náttúrunni.

Elísabet er ein þeirra sem gefa hlaupum góðan tíma og nú þegar hún á von á sínu fyrsta barni í næsta mánuði getur hún staðfastlega sagt að hlaup séu góð fyrir konur á meðgöngunni; svo framarlega sem þær eru hlaupakonur fyrir og líkami þeirra leyfir.

„Mér er búið að líða vel allan tímann á meðgöngunni. Ég hef náð að hreyfa mig mjög mikið og gert meira en ég þorði nokkru sinni að vona. Ég hef náð að halda hlaupunum inni alla meðgönguna og er fyrst nú á síðasta mánuði að minnka þau töluvert miðað við það sem ég er vön að gera.“

Ákvað að seinka hvíldartímabilinu

Elísabet segir að í raun hafi hún hreyft sig meira á meðgöngunni en hún gerir vanalega á þessum árstíma.

„Ástæðan fyrir því er sú að seint á haustin og út janúar er hvíldartímabil hjá þeim sem keppa. Ég hef ekki alveg verið þar, þar sem ég geri ráð fyrir að þurfa að taka hvíldartímabil eftir að barnið okkar fæðist í einhverjar vikur eða jafnvel mánuði.“

Elísabet kynntist unnusta sínum, Páli Ólafssyni viðskiptafræðingi, árið 2019 sem var frekar óvænt að hennar mati og í gegnum samfélagsmiðla.

„Ég var ein á ferð um svissnesku alpana, að fara erfiða leið, og hann fór að fylgjast með mér þar í gegnum Instagram. Hann sendi mér nokkrar línur um staðina sem ég var að heimsækja þar sem hann hafði verið sjálfur áður, þannig að á milli okkar skapaðist góður vinskapur fyrst enda deilum við mörgum sömu áhugamálum.“

Elísabet og Páll hittust reyndar áður í Laugavegarhlaupinu það sama ár.

„Ég reyndar vissi ekki af því og tók því miður ekki eftir honum, en hann tók eftir mér þar. Sem var kannski ekki að marka því ég var ósofin þar sem ég hafði tekið þeirri áskorun að hlaupa Laugaveginn um nóttina og svo aftur í keppninni.“

Elísabet segir að hún hafi verið að hlaupa mjög mikið þegar hún komst að því að hún væri ólétt.

„Ég var nýbúin að ljúka góðri keppni þar sem ég vann 50 km Hengilshlaupið. Þá var ég orðin ófrísk, svo ég er að fara inn í meðgönguferlið í góðu formi.

Síðan fór ég í Laugavegarhlaupið komin níu vikur á leið, þannig að ég hef haldið mínu striki og fengið grænt ljós til að gera það frá sérfræðingum sem eru til staðar fyrir mig á meðgöngunni.“

Leyfir líkamanum að ráða

Elísabet segir lækna og ljósmæður almennt á þeirri skoðun að mæður eigi að gera það sem þær eru vanar að gera á meðgöngunni, svo lengi sem þeim líður vel með það.

„En auðvitað hafa komið dagar þar sem ég er mjög þreytt. Ég náði ekki að taka tempóhlaup í aðdraganda keppni og fyrstu mánuði meðgöngunnar leyfði líkaminn mér ekki að fara mjög hátt upp í púls. Líkaminn stjórnar, en þolið hefur verið mjög sterkt og ég hef ekki fundið mikið fyrir breytingum, fyrr en kannski á sjöunda mánuði, þá fór ég að finna meira fyrir þyngdinni og álagi á grindarbotninn.“

Áttu þér fyrirmyndir að konum sem hlaupa á meðgöngunni?

„Já ekki spurning og svo hef ég verið dugleg að fá lánaða faglega dómgreind á það sem ég er að gera. Konur virðast upplifa meðgönguna hver á sinn hátt og ég hef verið dugleg að viða að mér upplýsingum, því ég veit svo lítið um meðgönguna þar sem ég hef ekki farið í gegnum hana áður.“

Elísabet er í hálfu starfi hjá Háskóla Íslands og telur mikilvægt fyrir sig að geta lagað sig að hlaupum og keppni hverju sinni. Hún segir þetta hlutfall breytast með árunum og leyfir sér að finna út með vinnuna hverju sinni.

„Svo er ég í hlutastarfi hjá Náttúruhlaupum, en þar erum við fjórir starfsmenn, tveir af þeim eru í fullu starfi.“

Hvernig fékkstu þennan áhuga á hlaupum?

„Ég byrjaði bara að fara út að hlaupa þegar ég var átján ára, þá ennþá í menntaskóla, svo ég hef verið í hlaupasamfélaginu í yfir fimmtán ár. Það eru tíu ár síðan ég keppti í mínu fyrsta 100 km hlaupi svo ég hef verið lengi að og hef töluverða reynslu á þessu sviði.

Ég hef verið dugleg að stunda hlaupin og alltaf verið með þessa langtímasýn og markmið sem hafa gert það að verkum að ég hef haldist svona lengi í hlaupunum.“

Fátt skemmtilegra en að skoða nýjar hlaupaleiðir

Hlaupin liggja vel fyrir Elísabetu enda þykir henni ákaflega gaman að fara út að hlaupa.

„Hlaupin eru einnig áhugamál enda eru endalausar hugmyndir sem verða til í kringum hlaupin. Fyrir fimmtán árum var allt miklu einfaldara en í dag. Ofurhlaup voru ekki vinsæl og þekktust varla á Íslandi. Maður hljóp bara á malbikinu og spáði aðallega í hlaupaskó og hlaupabúnað.

Í dag hugsum við miklu meira um hvernig við æfum og hvernig er best að þjálfa fyrir styttri hlaup, hálfmaraþon og maraþon. Mér finnst fólkið í hlaupunum skemmtilegt og svo eru til mjög skemmtilegar hlaupaleiðir sem við erum sífellt að finna út um. Enda fátt skemmtilegra en að skoða nýjar leiðir til að fara með hópana okkar.“

Hvað með mataræði?

„Ég starfaði áður í næringarráðgjöf en datt svo inn í háskólann í kennslu, þar sem það passaði svo vel inn í líf mitt. Þar byrjaði ég að kenna íþróttanæringarfræði og hef verið að kenna hana uppi í háskóla síðan. Mitt áhugasvið hefur alltaf verið að skoða næringu tengt árangri, en vissulega hef ég einnig áhuga á næringu tengt heilsu líka. Enda finnst mér að við eigum alltaf að setja heilsuna í fyrirrúm og síðan íþróttaárangurinn.“

Mikilvægt fyrir afreksfólk að borða rétt

Elísabet segir að langflestir sem stunda íþróttir og afreksfólkið okkar borði venjulegan hollan og fjölbreyttan mat.

„Almennar ráðleggingar fyrir þá sem æfa mikið er að borða nóg. Við vitum að það er til íþróttafólk sem fær ekki nægilega mikla næringu og það endar aldrei vel. Því ef fólk er stöðugt að fá litla orku verður krónískur orkuskortur sem hefur áhrif á hormónastarfsemina og ónæmiskerfið, beinheilsu og fólk getur fengið ofþjálfunareinkenni. Líkaminn segir þá oftast bara stopp; hingað og ekki lengra. Það er alltaf hægt að keyra sig áfram í einhvern tíma á of lítilli orku, en það endar vanalega ekki vel og fólk lendir á vegg.“

Elísabet segir mikilvægt að borða nóg af kolvetnum og segir hún að sú tíska í dag að sneiða hjá kolvetnum sé ekki nógu góð fyrir íþróttafólk.

Sjálf hafi hún passað upp á næringuna á meðgöngunni enda hafi hún þurft töluvert magn af mat til að geta hlaupið 50 til 60 km á viku fram á sjöunda mánuð.

„Ég hef einnig verið í styrktarþjálfun og er farin að synda meira en ég gerði áður, enda virðist sund vera dásamleg íþrótt á meðgöngunni. Ég passa mig að verða ekki svöng. Ég fann að matarlystin breyttist á hluta meðgöngunnar en ég vann bara með það og borðaði fleiri minni máltíðir sem mér fannst góðar. Börnin virðast taka sitt á meðgöngunni og mitt barn dafnar og vex á eðlilegum hraða sem er gott.“

Skyndilausnir ekki til þegar hlaup eru annars vegar

Hvað viltu segja við fólk sem þráir að verða hlauparar en er meira fyrir sófann og sjónvarpið?

„Ég mæli með því fyrir alla að finna sér hlaupahóp og fara á hlaupanámskeið, þar sem maður er leiddur áfram af fólki sem er komið lengra. Það ættu allir að fara hægt af stað enda eru engar skyndilausnir til í þessu frekar en öðru.“

Elísabet gerir ráð fyrir að hún muni sjálf þurfa að byrja á ákveðnum grunni eftir að barnið fæðist en er spennt fyrir því að hlaupa, sama á hvaða stað hún byrjar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál