„Sárast að missa þá sem eiga lífið fram undan“

Kjartan Guðbrandsson segir hlutina eins og þeir eru. Hann hefur …
Kjartan Guðbrandsson segir hlutina eins og þeir eru. Hann hefur gengið í gegnum alls konar hluti og verður sterkari og betri með árunum. mbl.is/Árni Sæberg

Kjartan Guðbrandsson er án efa einn þekktasti þjálfari landsins. Hann er einn af þeim sem vilja lifa það sem þeir kenna og er í stöðugri þróun með sjálfan sig í lífinu. Kjartan leggur ríka áherslu á að staðna ekki í lífinu og þótt hann sé mjög sterkur og þjálfaður í karlorkunni segir hann að sköpun, náttúran og að horfa sér nær sé tengingin sem sæki í auknum mæli á hann. 

Kjartan er kominn yfir fimmtugt en staðhæfir að hann sé í betra formi en flestir 25 ára menn í landinu. Hann segir ástæðuna fyrir því vera forvitni hans og fúsleiki til að vera alltaf að læra eitthvað nýtt í lífinu. 

„Ég er sífellt að endurskoða hver ég er. Stór hluti af mínum persónuleika er að læra eitthvað nýtt. Svo ég er ekki latur og ekki þessi persónuleiki sem staðnar með árunum. Ef hugurinn er þannig, þá fylgir líkaminn hugsuninni um að halda alltaf áfram og gera örlítið betur.“

Kjartan á eins og margir vita sigra að baki sem kraftlyftingamaður, í vaxtarrækt, fitness, skotfimi, aflraunum og hestamennsku.

Viðtalið er hins vegar um það sem Kjartan hefur hingað til ekki haft opið á að ræða við landsmenn; ástina, þroskann og nýfundinn áhuga á listrænni tjáningu.

„Lífið skiptir máli og hvernig maður lifir því. Ég vil fækka mistökum í daglega lífinu og takast á við eitthvað nýtt. Að víkka sjóndeildarhringinn í hugsun og fagmennsku; bæði þegar kemur að einkalífinu og vinnu.“

Kjartan hefur ferðast víða um heim. Hann er nýkominn frá Spáni þar sem hann dvaldi í nokkra mánuði að þjálfa og að mála listaverkin sín sem er nýtt verkefni í lífi hans. 

„Mér finnst erfitt að fá eldsneyti á hugmyndatankinn hér heima í þjálfun, því leita ég erlendis í það. Reyndar finnst mér skemmtilegast að finna upp æfingar sjálfur og geri það reglulega. Þrátt fyrir heimsklassa aðstöðu hér heima þá stöndum við að baki nágrannaþjóðum varðandi styrktarþjálfun og endurhæfingu. 

Mér finnst við of takmörkuð hér í hugsun og í svo mikilli samkeppni og í þannig umhverfi þorum við ekki að prófa okkur áfram og berskjalda okkur stundum af ótta við að okkar litla samfélag bendi fingri í okkar átt og segi: Hey, sjáðu hvað þetta er asnalegt. Ég er með 35 ára reynslu í einkaþjálfun og geri kröfur til mín þar. Ef ég hefði ekki trú á því sem geri, þá væri ég að gera annað. Næmur þjálfari les mismunandi líkamsstöður og ekki síst skoðar hann andlegu hlið skjólstæðinga sinna. Því má segja að ég sé orðinn meiri lífsþjálfari en einkaþjálfari í dag.“

Pabba voru gefin þrjú ár sem urðu að þrettán árum

Kjartan kennir fólki aðferðir sem hann hefur tileinkað sér á eigin lífsferðalagi.

„Ég geri það með því að hrista upp í undirmeðvitund fólks og stytti því þannig leið í að ná markmiðum sínum. Mín skoðun er sú að bestu breytingarnar í lífinu komi innan frá en ekki úr umhverfinu og til að ná því fram þarf stundum að nota orð sem hreyfa við hugmyndum fólks. Ég er á því að breytingar á viðhorfum fólks leiði til langvarandi breytinga, í staðinn fyrir að fólk breyti einvörðungu hegðun sinn og þjálfun út frá einhverju sem gerist í umhverfinu.“

Kjartan er með ákveðnar kenningar um hvers vegna staðan er eins og hann upplifir hér. Hann segir veðráttuna, myrkrið og einsleitnina í afþreyingu og til æfinga hluta af vandanum.

„Líkamsræktarstöðvarnar eru eins konar stefnumótastaðir á Íslandi, þar sem fólk mætir á staðinn sinn, fær sér að borða, æfir og hittir fólk. Staðirnir hér eru góðir og gjöldin hófleg miðað við aðstöðuna sem boðið er upp á en það skortir fjölbreytni; ekki á líkamsræktarstöðunum heldur almennt. Ég tel að það sé ástæðan fyrir eltingarleiknum við nágrannann sem er alveg ferlega óspennandi; samanburðurinn og að setja fólk undir sig, sem er nokkuð sem ég vil forðast. Svo breytist hluti af samfélaginu í dómara á  kommenta-kerfunum og keppist við að hlaupa upp Esjuna á góðum tíma; í stað þess að ganga í rólegheitunum, tala við áhugavert fólk og stinga upp í okkur berjum og einhverju ætilegu og fallegu úr náttúrunni okkar. Mér finnst þessi keppni ekki áhugaverð og svo finnst mér skortur á samtali okkar á milli sem einstaklingar þar sem við erum ekki bara að tala um þrjá aðila heldur eitthvað raunverulegt sem stendur okkur nær. 

Það er frumskógur að finna bata eða lausnir. Ef einstaklingur slasast sem dæmi, þá fæ ég hann til mín í styrktarþjálfun þegar hann hefur fyrst verið hjá lækni og sjúkraþjálfara.

Læknirinn segir hvíldu þig og ávísar lyfjum. Sjúkraþjálfarinn segir honum að gera bara þetta hér og fimm mánuðum seinna er oftar en ekki viðkomandi enn þá þar og enn þá á lyfjum. Lyf geta verið til margs gagnleg, en það er enginn eftirfylgni eða áætlun um hvenær eða hvernig skal koma sér af lyfjunum, trappa þau niður eða hætta. Guðbrandur Kjartansson faðir minn var frábær læknir. Ég lærði helling af honum, bara með því að hlusta á hann uppi á stofu. Hann notaði lyf á sína sjúklinga eins og allir læknar gera en hann gerði fólki líka grein fyrir afleiðingum langavarandi lyfjanotkunar, krossverkunum lyfja og þegar eitt lyf getur haft slæm áhrif á annað lyf. 

Það eru fáir að fara að sigra Kjartan í ræktinni.
Það eru fáir að fara að sigra Kjartan í ræktinni. mbl.is/Árni Sæberg

Útvarp og sjónvarp er stappað af lyfja-auglýsingum. Ef þú færð hor í nef er til sprey við því. Svo er til kórónuveiruminnkandi úði, töflur fyrir særindi í hálsi, ofnæmistöflur, hjartamagnyl, brjóstsviðatöflur, bólgueyðandi og ég er bara rétt að byrja upptalninguna. Þetta eru svo bara þau lyf sem skipta ekki máli. Þegar við förum í tauga- og flogaveikislyf, kvíðatöflur, svefntöflur, þunglyndislyf og geðlyfin; erum við komin í þungavigtina og hún getur haft slæm áhrif á heilsuna til langs tíma þótt tilgangurinn í upphafi hafi verið annar.

Ég gleymi ekki því sem pabbi sagði eftir að hann greindist með krabbamein. Hann sagði: Lyfin sem eru að bjarga mér núna munu kála mér á endanum. Honum voru gefin þrjú ár, en hann ákvað með þrjósku og kunnáttu að spila þessum gefnu þremur árum í að lifa þrettán ár. 

Það sem ég er að reyna að segja er að við þurfum að mynda heildrænt teymi í kringum viðkomandi einstakling svo þetta verði ekki völdundarhús fyrir þann sem leitar lausna og hann upplifi ekki endalaust einhverja veggi sem hann gengur á.“

Ekki til betri áminning um lífið en dauðinn sjálfur

Kjartan segir mikilvægt að vinna í fortíðinni en svo verði fólk einhvern tíma að hætta því og halda áfram með líf sitt.

„Við hugsum of lítið í lausnum og erum að gutla í einhverju en ekki með skýra framtíðarsýn. Hver eru sem dæmi markmið okkar sem þjóðar þegar kemur að heilsunni? Ég er ekki alltaf viss um að við séum með kerfi sem hefur það að markmiði að gera fólk heilt að nýju, eða lækna það. Mér finnst kerfið okkar virka öfugt.“

Kjartan verður 55 ára á þessu ári og finnst sumir jafnaldrar sínir of gamlir fyrir hans smekk.

„Ég hef gaman af því að láta eins og fífl; ég hef það frá foreldrum mínum. Mamma hoppaði með mér á „jetski“ og var til í hvað sem er. Ég er að reyna að halda í barnið í mér og það heldur mér ungum. Ég elska að læra af fólki sem er yngra en ég og að umgangast það í þjálfun eða bara í lífinu.“

Kjartan segir að þótt hann sé mjög mikill karl í sér sé hann ekki karlremba, en hins vegar geti margir harðir karlar orðið pínu kjánalegir í kringum hann.

„Ég er ekki með neitt rugl í gangi í kringum mig. Ég drekk ekki áfengi og borða hollan mat sem ég reyni að velja af kostgæfni. Ég er duglegur að hreyfa mig og ekki að þykjast vera eitthvað sem ég er ekki. Við höfum öll verið í alls konar ferli, og það er allt í lagi, en að verja bullið og halda í það; því nenni ég ekki. Ég er ekki góður þjálfari fyrir þannig fólk.“

Kjartan hefur misst fleiri ástvini en margir aðrir á hans aldri. Hann segir sársaukann við að missa einhvern sem maður elskar sáran og nístandi en talsvert góðan kennara í því hvernig ber að umgangast þá sem enn þá eru á lífi.

Kjartan Guðbrandsson er í frábæru formi.
Kjartan Guðbrandsson er í frábæru formi. mbl.is/Árni Sæberg

„Sárast er að missa þá sem eiga lífið fram undan. Það tók mikið á mig að missa son minn, bræður mína og móður; því í öll þessi skipti hefði það ekki þurft að gerast. Þau áttu svo mikið eftir. Eins er það mikilvægt atriði að eiga ekki neitt óuppgert við manneskju sem þú elskar því ósögð orð vilja sitja eftir í fórum manns ansi lengi eftir dauðann. Mér finnst til lítils að gráta ef við náum aldri. Eigum við ekki bara að fagna því að fólk hafi klárað æviskeið og lifað lífinu í stað þess að láta það koma okkur á óvart ef afi deyr fjörgamall og gráta það sem harmleik? Ég átti ágætisumræður við pabba um dauðann því við vissum að hann kæmi. Samt þegar það gerist; þá ertu einhvern veginn aldrei tilbúinn.“

Kjartan segir ekki til betri áminningu um lífið en dauðann sjálfan.

„Við höldum að við eigum börnin okkar eða manneskjurnar sem við elskum en í raun og veru eigum við ekki neitt. Við erum með fólkið okkar að láni. Með því að hugsa til fólksins okkar með þessu hugarfari verðum við þakklátari og auðmýkri. Eins hefur það hjálpað mér að njóta betur líðandi stundar með fólki. Við getum ekki stjórnað fortíðinni og vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, svo við eigum stundina núna og þurfum að nýta hana vel.“

Mikilvægt að nota orkustöngina rétt

Kjartan segir að ef hann vorkenni fólki þá sé hann yfir það hafinn og ef hann tekur ekki þátt í umræðunni þá sé hann andfélagslegur.

„Ef ég leik Palla peppara og klára kallinn, þá er ég ekki skemmtilegur og fæ þá ekki að vera með í næsta partíi. Ef ég segi sem minnst og hlusta og sýni skilning er möguleiki á að fólk heyri talið sitt og endurskoði sjálft hugsanir sínar. Ég held það sé besta leiðin til að styðja við að fólkið í kringum okkur þroskist.

Ef við höldum eitthvað og viljum síðan fá staðfestingu á því að við höfum rétt fyrir okkur þá hringjum við ekki í þá sem eru ósammála okkur heldur tölum við þá sem eru okkur sammála. Þannig verðum við fullviss um eigin sannfæringu. Ég mæli þó ekki með að hringja í mig, því ég hoppa ekki svo auðveldlega um borð í þína sannfæringarlest.“

Það er áhugavert að ræða um orku við Kjartan, því hann trúir á hið óútskýrða og oft og tíðum eitthvað sem augun ekki sjá.

„Ég trúi því að við séum með mismikinn kraft og að við séum mismeðvituð um þetta vegna þess að sum okkar eru búin með fleiri æviskeið en önnur. Mér finnst fallegasta konan í herberginu vera sú sem er ómeðvituð um eigin fegurð og finnst ekkert fallegra en þegar fólk þorir að vera það sjálft. Af þessum sökum er ég einn þeirra sem heillast ekki af því sem fólk er að gera á Instagram. Það forrit hjálpar ekki fólki með kynþokka sinn. Kannski finnst mér þetta því ég er gamaldags, eða kannski vegna þess að ég hrífst af sannleikanum.“

Kjartan talar um ákveðna orkustöng sem okkur er öllum úthlutað daglega í lífinu.

„Grunnreglan er einföld. Þú verður að eyða orku til að fá orku. Við höfum val um að eyða orkunni á mismunandi hátt. Við getum eytt henni í útlitið okkar, áhyggjur, með því að dæma aðra og með því að vilja vera einhvers staðar annars staðar. Við getum eytt orkustönginni okkar í lyf eða óreglu, svefnleysi og alls konar matarvenjur. Það skiptir miklu máli hvar þú ert og hvernig þú eyðir tíma þínum. Allt sem þú velur þér í lífinu tekur stóran bita af þinni orkustöng, en á morgun er þér úthlutað nýrri orkustöng. Hvernig ætlarðu að fara með hana þá? Valið er þitt og lánið eða ólánið líka.“

Kjartan er á því að við sem þjóð þurfum að …
Kjartan er á því að við sem þjóð þurfum að setja okkur markmið þegar kemur að heilsunni. mbl.is/Árni Sæberg

Kjartan er reyndar á því að við höfum ekki öll sama val í lífinu.

„Sumir gera margt rétt, en lenda svo í einhverju sem á einu augnabliki veldur því að þeir lamast eða veikjast. Það er erfitt að horfa upp á slíkt og mín skoðun að við getum aldrei sett okkur í spor þeirra sem eru að upplifa eitthvað sem við höfum ekki upplifað sjálf.“

Hvað er það erfiðasta sem þú hefur upplifað?

„Ég held að það erfiðasta í mínu lífi sé að vera 100% heiðarlegur alltaf. Heiðarleiki hefur reynst mér erfiðastur. Það dugar mér ekki að vera 90% heiðarlegur, því þá sofna ég ekki sáttur.“

Kjartan er á því að vani, vanþekking og vanmáttur við að taka ábyrgð sé stærsta hindrun okkar mannfólksins. Eins séum við mannfólkið of mikið í að láta annað fólk og stofnanir segja okkur hvað okkur sé fyrir bestu.

„Við sjálf berum ábyrgð á öllu því sem við gerum.“

Það besta að vera pabbi

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem langar í gott form en telja það einungis fyrir annað fólk?

„Þú ert annað fólk. Ég elska að vinna með fólki sem er einmitt búið að uppgötva að það er þetta annað fólk og það geti því komist í form rétt eins og aðrir. Við verðum að muna að við eigum öll okkar upplifun í lífinu og hún er ólík okkar á milli. Það getur enginn sagt þér hvernig lífið er; það er þitt að finna bestu leiðina til að lifa lífinu. Ef þú vilt lifa því í samkeppni við náungann, þá er það þinn raunveruleiki. Ég er hins vegar á því að eina holla samkeppnin í lífinu sé samkeppni við okkur sjálf og ef við gerum alltaf aðeins betur á morgun en í dag, þá verðum við betri í lífinu.“

Þegar Kjartan talar um son sinn lifnar yfir honum. Hann segir soninn Sindra Val besta vin sinn.

„Sindri Valur er tónlistarvinur minn og kvikmyndavinur minn, æfingafélagi og skotfélagi. Ég á auðvelt með að fá hann út fyrir þægindarammann sinn og að veita honum aðhald. Eins átta ég mig á því að ég er ein af hans mestu fyrirmyndum. Ég vildi að ég gæti gert enn þá meira með honum, en þegar foreldrar búa hvort í sínu lagi verða aðstæðurnar takmarkaðar af því. Ég er hins vegar á því að ekkert af því sem ég geri yfir daginn sé mikilvægara verkefni en að vera með honum. Af þeim sökum stefni ég alltaf á að gera betur á morgun en ég geri í dag þegar kemur að því að vera pabbi. Svo fljúga dagarnir áfram og allt í einu verða börnin okkar táningar og síðan fullorðið fólk sem við getum tekið okkur til fyrirmyndar og lært af.“

Mikilvægt að elska sig til að geta elskað annað fólk

Hvað vinskap varðar segir Kjartan það koma sér sífellt á óvart hvað vináttan er brothætt og að stundum þurfi lítið rask til að fólk missi vinskapinn við annað fólk.

„Ég vil ekki vera tækifærissinni né þurfa að afsaka hver ég er. Af þessum sökum vil ég vera vinur sem þarf ekki að afsaka af hverju ég er ekki sem dæmi búinn að hringja. Ég þekki ákaflega marga en á fáa vini. Þeir vita best hvernig vinur ég er og hvað ég er tilbúinn að gera fyrir vini mína.“

Hvað með ástina?

„Ástin er þrautabraut, ef hún væri það ekki þá yrði vináttan nóg. Fyrir suma er vinátta nóg og hjá öðrum getur kreditkort og Range Rover haldið samböndunum saman. Mér finnst heilbrigt samband vera hárfín lína. Þessi lína trausts, en ekki eignarhalds og afbrýðisemi. Ást er líka heiðarleg vinna, þú verður ekki bara ástfanginn klukkan fimm mínútur yfir fjögur á þriðjudegi heldur. Þú æfir stanslaust í viku og það gerist ekkert þannig séð. Það er svona álíka og að semja ljóð, kaupa blóm, fara út að borða, fara í bíó, kaupa gjöf, fara í pottinn, skoða stjörnurnar; allt á einni viku og síðan hvað? Ætlarðu að fara í fýlu ef allir verða ekki bara brjálæðislega ástfangnir eftir þetta?

Þetta eru litlir hlutir yfir langan tíma sem skapa einingu. Ef fólk safnar þeim vildarpunktum þá eru miklar líkur á sambandi sem kemst upp hæstu fjöll og niður hinum megin. Þar liggur styrkur í að vinna saman og leysa í stað þess að hoppa upp á eigið nef í egókasti og hringja í vininn þegar vandamálin koma upp, sem verður örugglega sammála því sem rætt er um.“

Kjartan er ástfanginn í dag og segir Ingu Tinnu kærustuna sína frábæra manneskju.

„Hún kennir mér meira um samskipti en ég henni. Ég hef komist að því að þegar karlmenn svara umræðu með þögn þá er það þokukennt ofbeldi. Ég tjái mig meira í dag um lífið og mínar tilfinningar en ég gerði áður. Ég er að gera betur, sem ég finn og hún líka. Það sem skiptir mig mestu máli í nánum samskiptum er traust og góður húmor, kynlíf og virðing. Við eigum mjög auðvelt með að tala saman um allt og njóta. Við erum ekki alveg týpurnar sem bíða spennt fyrir framan sjónvarpið eftir Helga Björns á laugardegi.“

Hann segir mikilvægt að fólk haldi í þann möguleika að geta þroskast í samböndum og því sé heilbrigð fjarlægð einnig mikilvæg.

„Það skiptir mig máli að við getum gert hluti hvort í sínu lagi án vandræða. Reyndar er mjög hollt fyrir eðlileg sambönd að einstaklingar geri hluti hvor í sínu lagi. Svo er forsenda þess að geta elskað annað fólk að einstaklingur elski sjálfan sig því þú hefur ekki á neinu að byggja ef þú elskar ekki sjálfan þig.“

Hvaða litlu hluti gerir þú daglega fyrir fólkið sem þú elskar?

„Ég gef knús að morgni og það skiptir mig máli. Síðan gef ég athygli og tek þátt í degi þess sem ég elska. Ég held sambandi, með síma og finnst gaman að hittast í kaffi eða mat yfir daginn. Mér finnst gaman að elda, þótt ég geri það ekki oft, þá er það hluti af minni ástríðu. Síðan er ég mikið fyrir knús að kveldi. Svo ætli það sé ekki réttast að segja að maður þurfi að taka þátt í sambandi svo það virki.“

Málverkin munu taka yfir einn daginn

Kjartan segir að hann hafi slysast til að mála ofurhetjumyndir með Sindra syni sínum í barnaherberginu hans og eftir það hafi hann farið í Slippfélagið; keypt sér striga og byrjað að mála. 

Kjartan dvaldi á Spáni tímabundið þar sem hann var að …
Kjartan dvaldi á Spáni tímabundið þar sem hann var að þjálfa og mála listaverk.

„Lífið er ákvörðun og ég bara ákvað að ég gæti gert þetta. Nú er að detta í þrjú ár og ég var að standsetja mína litlu vinnustofu fyrir nokkrum dögum síðan. Ég fór fyrir tíu árum síðan til konu upp í Mosfellsbæ sem er höfuðbeina- og spjaldhryggsnuddari. Ég var ekki búinn að liggja lengi á bekknum þegar hún segir við mig skælbrosandi; þú veist hvað þú átt að vera að gera er það ekki? Ég svaraði nei. Þá sagði hún mér að ég ætti að vera að mála. Hún sá langt fram í tímann þessi ágæta kona.“

Kjartan gerir falleg listaverk sem eftir er tekið.
Kjartan gerir falleg listaverk sem eftir er tekið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál