Þegar miðaldurskrísan náði hæstu hæðum

Anna Margrét Jónsdóttir
Anna Margrét Jónsdóttir Árni Sæberg

Anna Margrét hefur starfað beint og óbeint við ferðaþjónustu síðan hún var tvítug. Hún var meðal annars eins af þeim sem fóru í stóru lopapeysuna til að kynna Ísland erlendis á níunda áratugnum og hefur því alls konar þekkingu á ferðalögum; bæði innanlands og erlendis. Henni hefur alltaf verið umhugað um heilsuna, þótt árið í fyrra hafa reynt á hana að því leyti.

„Ég fór í fyrsta sinn árið 1984 að kynna landið með því að sýna ullarvörur með tískusýningu. Svo starfaði ég lengi hjá Icelandair í fjölmörgum störfum. Ég var lengst af flugfreyja og fékk fullt af frábærum tækifærum í að þroskast í starfi og vinna mig upp innan fyrirtækisins. Þetta var frábær tími og var ég endalaust heppin með samstarfsfólk.“

Anna Margrét segir að fyrir allnokkru hafi miðaldurskrísan náð sínum hæstu hæðum í lífi hennar.

„Ég varð hrædd við að staðna. Það leiddi til þess að ég fór í nám, varð leiðsögumaður frá EHÍ og fór í framhaldinu í ferðamálafræði. Síðan þá hef ég starfað við ferðaþjónustuna. Í dag rek ég mitt eigið ferðafyrirtæki ásamt félögum í Avetravel. Við erum nú að reyna fyrir okkur að selja Íslendingum Grikkland og Grikkjum Ísland. Ég held að tíminn sé réttur núna til að koma alla vega ferðadraumum á flug þar sem við erum að sigla inn í betri tíð og hægt verður vonandi að ferðast á milli landa seinna á þessu ári.“

Hvað ertu að fást við núna?

„Auk Avetravel hef ég verið að vinna í að setja upp heimasíðu með frábærum heimilisvörum frá Suður-Afríku. Ég stofnaði fyrirtæki með góðri vinkonu, Ruth Gylfadóttur, sem býr meginhluta ársins í Suður-Afríku. Ég hlakka til að kynna síðuna þegar hún verður tilbúin og vörur komnar til landsins. Fyrirtækið heitir NorZa. Eins er ég að gera það sem mér finnst mjög skemmtilegt, að aðstoða fólk við breytingar heima fyrir. Það hefur alltaf verið áhugamál mitt. Ég var alltaf að breyta heima hjá okkur, stundum vissi fjölskyldan ekki hvar sófinn væri þegar þau kæmu heim. Það er svo gaman að hafa fallegt í kringum sig þar sem við eyðum svo miklum tíma heima.“

Örlögin gripu í taumana í fyrra

Þegar Anna Margrét er spurð út í 2020 segir hún að árið hafi byrjað vel en svo hafi hún farið í skíðaferð og veikst af kórónuveirunni.

„Ég fór utan á skíði í febrúar og kom heim með kórónuveiruna og var veik í rúmar þrjár vikur. Ég missti bragð- og lyktarskyn í sex vikur en náði mér síðan vel. Um sumarið fékk ég svo forstigskrabbameinsgreiningu og fór í brjóstaskurð í framhaldinu. Eftir á að hyggja var ég endalaust heppin þar sem ég greindist snemma og fór til besta brjóstaskurðlæknis á landinu og þótt víðar væri leitað, Kristjáns Skúla Ásgeirssonar.“

Anna Margrét segir að það hafi verið örlögin sem gripu í taumana í lífinu þarna um sumarið.

„Tilviljun réð því að ég fór á Klíníkina í Ármúla og var mun styttri tíma að jafna mig en ef ég hefði haldið mig við úrræði Landspítalans. Þar var mér einungis gefinn kostur á að fara í brjóstnám en ekki fleygskurð eins og ég endaði svo með hjá þessum færa lækni. Ég ákvað að leita annað vegna þess að ég hitti lækni á LSH sem ég vildi alls ekki hitta aftur. Úrræðið sem ég átti að sætta mig við var að fara í brjóstnám og uppbyggingu í sömu aðgerð með tveimur sérfræðingum; skurðlækni sem var kominn yfir sjötugt og lýtalækni sem þarf að mínu mati að fara á samskiptanámskeið. Mér finnst mikilvægt að koma þessu á framfæri ef einhverjar konur eru á sama stað og ég var á í júlí í fyrra. Enda er gott að kynna sér öll úrræði sem í boði eru.“

Anna Margrét Jónsdóttir
Anna Margrét Jónsdóttir Árni Sæberg

Tekur sömu bætiefni og Jennifer Aniston

Hvernig byggðir þú upp ónæmiskerfið eftir það sem þú gekkst í gegnum í fyrra?

„Ég fékk góð ráð hjá næringarsérfræðingi sem benti mér á að taka nóg af D-vítamíni. Ég hef gert það síðan í kórónuveirukófinu. Svo tek ég lýsi, Feel Iceland-kollagen og eplaedik daglega. Ég hef mikla trú á þessu öllu, en ekki hvað þegar sjálf Jennifer Aniston er að taka Feel Iceland og hver vill ekki líkjast henni!“

Anna Margrét viðurkennir að það sé ákveðið áfall að fá krabbamein en hún hafi alltaf verið viss um að á endanum færu hlutirnir vel.

Hvernig upplifðir þú að fá kórónuveiruna?

„Það er sérstakt að hafa verið veik af kórónuveirunni en svolítið frelsi í dag. Það var engin reynsla komin þar sem ég var með þeim fyrstu sem greindust hér á landi. Góðu fréttirnar eru að ég myndaði mótefni og þess vegna frjálsari en hinir sem hafa ekki veikst. Ég fór sem dæmi í ferðalag í ágúst til Stokkhólms og var eins og diplómati með útskrifað blað frá landlækni sem ég sýndi í vegabréfsskoðun. Ég held reyndar að það dugi ekki í dag. Við hjónin höfum sennilega fengið boð í fleiri matarboð en flestir þar sem við erum með mótefni. Það eru alltaf tækifæri í verkefnunum okkar.“

Anna Margrét segir að hún reyni einnig að fasta daglega frá átta á kvöldin til tólf á hádegi næsta dag.

„Það heldur mér nálægt kjörþyngd. Síðan stunda ég hreyfingu helst annan hvern dag. Ég bý vel þar sem ég á ketilbjöllur, sippuband og jógadýnu heima. Við erum tvær vinkonur sem æfum oft saman. Það er mun skemmtilegra, enda er þessi vinkona mín einnig mjög skemmtileg. Þess á milli fer ég út að ganga, enda finnst mér hreyfing oft þörf en nú nauðsyn, ekki síst vegna aldurs.“

Dreymir um að komast í sólina aftur

Hvernig ferðir bjóðið þið og hvað er í boði fyrir Íslendinga?

„Við bjóðum fólki að fá sérsniðnar ferðir til Grikklands, sem þýðir að hægt er að senda okkur óskir sem dæmi um gæði gististaða eða fara í siglingu á milli eyja og hvort fólk vill fá allan pakkann, frá mat og drykk með gistingu og skipulögðum ferðum með þarlendum leiðsögumönnum.“

Nú hefur þú starfað sem flugfreyja lengi, ertu sammála því að ferðalög séu bráðnauðsynleg heilsunni?

„Ég tel að það sé öllum hollt að ferðast. Í mínum sporum tel ég það hafa aukið skilning minn og víðsýni að kynnast mörgum stöðum og fólki. Það er svo nærandi. Tala svo ekki um að geta upplifað meiri sól í hjartað og á húðina af og til. Það er allt gott í hófi og gaman að geta blandað menningu, matarupplifun, hreyfingu og öðru veðurfari í sama ferðalagið eins og hægt er ef farið er til Grikklands.

Það er einnig mjög gott og gaman að ferðast innanlands og endalaust hægt að uppgötva nýja fallega staði. Við eigum svo fallegt land. Það var gaman að sjá á síðastliðnu ári hve Íslendingar voru duglegir að nýta sér ferðaþjónustufyrirtæki hérlendis. Það er svo mikið af frábærum fyrirtækjum sem bjóða upp á skemmtileg ævintýri. Ég fór sjálf í vélsleðaferð um þveran Vatnajökul í sumar, algerlega ógleymanleg ferð. Svo fór ég einnig í ferðalag um Vestfirði í björtu og fallegu veðri þar sem ég borðaði góðan mat, upplifði góða þjónustu og gisti á frábærum hótelum og gistiheimilum sem eru í boði um allt land.“

Hvað ætti fólk að vera að gera núna að þínu mati?

„Við erum öll orðin ferðaþyrst og auðvitað í samræmi við ástandið í heiminum viljum við velja örugga staði til að ferðast á. Grikkland er eitt af þeim Evrópulöndum sem hafa staðið sig hvað best í baráttunni gegn kórónuveirunni og hefur eina lægstu tíðni smita. Þessi staðreynd auk grískrar náttúru, þar sem hægt er að vera út af fyrir sig, hljóta að vera bestu meðmæli með Grikklandi. Til dæmis eru grísku eyjarnar um það bil 2.000 talsins en einungis 200 eru byggðar og því ótal margir möguleikar til að fara með fjölskyldu og vinum á óþekkta eyju þar sem hægt er að njóta lífsins. Annað sem skiptir okkur auðvitað miklu máli hér er veðrið í Grikklandi, en til að mynda í Aþenu skín sólin að jafnaði 350 daga á ári. Saga, menning, matarmenning, vínframleiðsla, óbyggðir eða afslöppun á dásamlegum stað er einstakt. Valið er erfitt en ég held að ég myndi kjósa eyjahopp í sumar. Ég fór til Mykonos fyrir mörgum árum og mig langar aftur þangað. Í kjölfarið myndi ég vilja fara á einhverjar dásamlegar eyjar sem eru leyndar perlur þar sem þú upplifir blágrænan sjó og finnst þú hreinlega ferðast aftur í tímann því kyrrð, ró og fegurð ráða ríkjum. Svo má ekki gleyma að njóta matar og drykkjar. Ég var svo heppin að vinna með Ingibjörgu Lárusdóttir í leiguverkefni fyrir Loftleiðir Icelandair í Thessaloniki í Grikklandi. Inga hafði búið þar og talaði málið. Með henni lærði ég að meta grískan mat – en allir matseðlar þar voru á grísku! Margir kannast við að vera í fjarlægu landi og vita ekkert hvað á að panta á veitingastað en meðal þess sem hægt er að fá hjá okkur hjá Avetravel eru uppástungur að matarupplifunarferð, hvað best er að borða á hverjum stað eða beint af býli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál