Fólk varð fljótt þreytt á að æfa heima

Teitur Arason einkaþjálfari.
Teitur Arason einkaþjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Teitur Arason íþróttafræðingur og einkaþjálfari segir fólk hafa orðið fljótt þreytt á því að æfa heima vegna kórónuveirunnar. Hann sérhæfir sig í að þjálfa íþrótta- og keppnisfólk sem vill auka styrk og gera fyrirbyggjandi æfingar gegn meiðslum. Segir alla geta sett sér flott markmið og náð þeim. 

„Ég er einkaþjálfari hjá World Class með starfsstöð í Laugum og þjálfa þar í einkatímum frá morgni til kvölds.“

Teitur segir kórónuveiruna hafa sett strik í reikninginn, ekki síst þar sem líkamsræktarstöðvar hafa verið lokaðar um tíma.

„Í samgöngubanninu tóku við meiri samskipti við hópinn sem er hjá mér í þjálfun í gegnum síma og tölvupóst þar sem við lögðum upp heimaæfingar yfir netið og öllum brögðum beitt til að halda okkar áætlun. Það gekk tiltölulega vel en maður fann fljótt á fólki að það var spennt að líkamsræktarstöðvar yrðu opnaðar aftur. Ég held nú líka að ég tali fyrir hönd flestra þegar ég segi að þeir urðu fljótt þreyttir á að æfa heima í stofu og misstu síðan alfarið dampinn í heimaæfingum núna í desember.“

Æfingarleysi hefur áhrif á andlegu hliðina

Teitur er á því að margir hafi fundið fyrir því að æfingarleysið var mun erfiðara fyrir andlegu hliðina í desember en í vor eða haust, enda góð ástæða fyrir því. „Æfingar, næring, dagsbirtan og félagsleg samskipti eru helstu áhrifaþættirnir í líkamsklukku okkar og orkumyndun og því ekki skrýtið að margir fundu fyrir hnignandi andlegri heilsu undanfarna mánuði í sólarlausu skammdegi okkar Íslendinga, félagslegri einangrun heimsfaraldurs og æfingarleysi, sem hefur bein áhrif á rútínu okkar og mataræði.

Það hefur því verið mikil gleði og þakklæti meðal fólks yfir að ræktin var opnuð aftur og allt liðið mitt mætti aftur með bros á vör og allir tímar fram á kvöld verið fullbókaðir síðan það var opnað aftur.“

Hefur þú sinnt þér og líkamsrækt á annan hátt en vanalega?

„Ég hef æft sjálfur að minnsta kosti sex sinnum í viku í 11 ár núna og held þeirri rútínu nokkuð heilagri. Mínar eigin æfingar hafa vissulega verið með öðrum blæ núna undanfarið ár, eins og hjá mörgum, og ég hef reynt að laga mig að kórónuveiruástandinu af bestu getu. Bíllinn var alltaf með fullt skott af lóðum og plötum og útiæfingar og lyftingar í alls konar veðri og aðstæðum fengu að njóta sín, ásamt því að ég nýtti mér vel þá fallegu náttúru sem Ísland hefur upp á að bjóða í fjallgöngum, sem ég var líka duglegur að nýta áður en kórónuveiran skall á heiminum. Það er þó mjög ánægjulegt að komast aftur inn í ræktina og geta haldið markvisst áfram.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þjálfar fjölbreyttan hóp fólks

Hvað er skemmtilegast við að aðstoða fólk í að ná markmiðum sínum?

„Ég hef þjálfað mjög fjölbreyttan hóp af fólki í gegnum árin og markmiðin hjá því eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Íþrótta- og keppnisfólk er gjarnan með mjög sértæk og frammistöðumiðuð markmið sem er gaman að tækla, meðal annars að auka sprengikraft, snerpu og styrk, ásamt fyrirbyggjandi æfingum gegn meiðslum. Margir leita líka til mín sem vilja einfaldari markmið eins og að létta sig, styrkja, laga ýmsa líkamlega kvilla sem hrjá marga eða einfaldlega að æfa til þess að líða betur. Það er allur gangur á því og ég hef gaman af þeim öllum. Það sem er skemmtilegast er þó þegar fólk öðlast mun heildstæðari hugsun umfram markmiðin sín og jákvæðnin og drifkrafturinn smitast út í önnur svæði í lífinu; hvort sem það er í vinnunni, skólanum, samböndum við annað fólk eða hvað sem er. Þetta er einfaldlega agi sem yfirfærist á öll svið og allir geta lært.“

Teitur segir að ef hann mætti koma einum skilaboðum til þeirra sem vilja ná lengra í íþróttum þá væri það helst að vera ekki í gamla góða milliveginum.

„Það eru margir hæfileikaríkir íþróttamenn sem vilja auka árangurinn en eru fastir á sama stað og átta sig ekki á af hverju. Það er að mínu mati vegna þess að þeir eru í milliveginum þar sem þeir eru hvorki í afturför né að bæta sig. Ekki mæta bara á skipulagðar æfingar og fara svo heim að horfa á Netflix. Ákveddu hvort þú vilt vera afreksmaður eða ekki og hegðaðu þér í takt við þá ákvörðun. Mættu á aukaæfingarnar, settu þér langtímamarkmið og brjóttu þau niður í mörg skammtímamarkmið og fylgdu þeim. Þetta er mjög einföld formúla í rauninni, en allt of margir svíkja sjálfa sig með milliveginum. Það þarf síðan að borða og sofa eins og íþróttamaður ef eitthvað af þessu á að virka, það má ekki gleyma því. Þetta eru atriði sem eiga við alla, ekki bara íþróttamenn.“

Mataræði skiptir jafnmiklu máli og æfingar

Hvaða máli skiptir mataræði til að vera í frábæru íþróttaformi?

„Góðar og vel skipulagðar æfingar skipta höfuðmáli til þess að komast í betra líkamlegt form en mataræðið er alveg jafn mikilvægt. Fólk getur verið fljótt að eyðileggja góða æfingum með ruslfæði beint eftir á. Það er enginn tilgangur í að eiga Ferrari ef þú ætlar að dæla útþynntri díselolíu á hann og það er alveg eins með mannslíkamann.

Mataræðið þarf í raun og veru ekki að vera jafn flókið og það virðist oft vera fyrir meðalmann sem rýnir í heilsutímarit og nýjustu bækur um tískukúra sem herja á heiminn reglulega. Það þarf einfaldlega að hátta mataræðinu með réttum hlutföllum af prótíni, kolvetnum og fitu í takt við markmið einstaklings. Næringin sem við innbyrðum núna ákvarðar lífsgæði okkar í framtíðinni, því er mikilvægt að velja hana vel.“

Teitur segir að starf hans og áhugamál snúist að mestu um heilsufar og flest sem tengist því.

„Ég er meirihluta sólarhringsins í ræktinni og ekki mikið annað sem kemst að þá daga. Það er þó mikilvægt þegar áreitið er mikið og vinnutarnir langar að finna sér leiðir til að núllstilla sig og hindra kulnun í starfinu. Það má segja að fjallgöngur og tónlist séu tvö helstu vopnin sem ég nota til þess að passa upp á það. Ég hef haft gaman af fjallgöngum síðan ég var lítill og stunda þær af miklum krafti, maður kemur alltaf endurnærður og skýrari niður af fjallinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál