„Við stjórnum ekki öðru fólki eða heiminum“

Aldís Arna Tryggvadóttir er fyrsti og eini markþjálfinn sem starfar hjá Heilsuvernd. Hún er ACC-vottaður markþjálfi frá ICF – International Coaching Federation, stærstu óháðu fagsamtökum markþjálfa í heiminum, og vinnur með og fyrir fólk á öllum stigum samfélagsins við að hjálpa því að bæta líf sitt og líðan. 

„Ég tók áhrifaríka ákvörðun árið 2016 sem var að hlusta á hjartað og vinna eingöngu við það sem ég hef ástríðu fyrir. Þar við situr. Ekkert starf hefur gefið mér meira en að vera fyrirlesari, markþjálfi og streituráðgjafi. Það eru hrein forréttindi að fá að vinna með og fyrir fólk að því mikilvæga verkefni að hjálpa því að bæta líf sitt og líðan.“

Aldís Arna er í grunninn með próf í viðskiptafræði, verðbréfaviðskiptum og frönsku auk þess sem hún er með kennararéttindi í líkamsrækt og dansi. Aldís Arna er gift Sigurði Guðmundssyni, framkvæmdastjóra UMSB, og eiga þau saman fjögur börn.

Hvað getur þú sagt okkur um valdeflingu og vellíðan?

„Forsenda þess að okkur vegni vel í lífi, leik og starfi er að okkur líði vel. Vellíðan er forsenda velgengni. Við stjórnum ekki öðru fólki eða heiminum, við stjórnum bara okkur sjálfum. Þess vegna er svo mikilvægt að viðhafa ævilanga sjálfsrækt með reglulegri sjálfsskoðun.“

Mikilvægt að vera sérfræðingur í sér

„Sem markþjálfi er hlutverk mitt að stuðla að valdeflingu skjólstæðinga minna, það er að virkja innri visku og styrk þeirra þannig að viðkomandi geti tekið fulla ábyrgð á eigin lífi og líðan. Upplifa svo í kjölfarið persónulegan vöxt og stjórn á eigin lífi; sem eru grunnþarfir okkar.“

Aldís Arna segir lokamarkmið með valdeflingunni þríþætt.

„Tilgangur, tilhlökkun og sátt er mikilvæg. Það er að skjólstæðingar mínir vakni með skýran tilgang um hvað þeir komu til að læra í lífinu og hvað þeir ætla að skilja eftir.

Svo er það að hafa tilhlökkun í hjarta sér fyrir viðfangsefnum daglegs lífs.

Síðan er mikilvægt að geta sofnað að kveldi sáttur við sjálfan sig og umhverfi sitt.“

Hún segir þetta mögulegt með því að spyrja fjögurra áleitinna spurninga.

„Hver er ég raunverulega? Hvað vil ég raunverulega? Af hverju vil ég þetta? Hvernig næ ég markmiðum mínum? Með þessum spurningum finnum við út hvað við þurfum að gera en fyrst og fremst hver þurfum við að vera sem manneskjur. Ég vinn fyrst og fremst út frá persónuleika fólks því það er persónugerð okkar sem ræður úrslitum um það hvort við njótum velgengni í lífinu eða ekki. Þegar fólk finnur hvers megnugt það er: Að það getur verið sérfræðingur í „sjálfu sér“, sérfræðingur sem þekkir sig vel, virðir sig, viðurkennir, elskar sig og treystir, þá eykst sjálfsvirðingin og sjálfstraustið. Um leið fjölgar sigrunum og hamingjustundunum og þakklæti eykst.“

Aldís Arna segir að hvernig sem á það er litið verðum við alltaf verðmætari makar, foreldrar, vinir og starfsmenn þegar okkur líður vel.

„Við höfum alla daga allt val og vald sem við tökum okkur til að stuðla að innri valdeflingu og vellíðan.

Vandamál fólks er ekki að það sé ekki nóg hæft til þess að gera þetta eða hitt því við erum óendanlega hæf til að breyta og bæta líf okkar og líðan.“

Er streita alltaf sýnileg, eða getur hún legið djúpt í undirmeðvitund okkar?

„Vandamálið við streitu er að hún er lúmsk og læðist aftan að okkur. Það getur tekið mörg ár fyrir streituna að safnast upp og því tekur það líka mislangan tíma fyrir okkur að læra að stjórna henni. Annaðhvort stjórnar streitan okkur eða við henni. Streitan er eins og ísjakinn, mögulega eru aðeins 10% af streitunni á yfirborðinu, restin kraumar undir niðri. Þar sem hún er ekki sýnileg getur hún legið djúpt í undirmeðvitund okkar og hreiðrað um sig, jafnvel náð undirtökunum ef við erum ekki vakandi fyrir viðvörunarbjöllunum. Fræðsla er besta forvörnin gegn streitu og vanlíðan hvers konar – þess vegna eru einkunnarorð okkar í Streituskólanum: „Fræðsla til forvarna“.“

Streita hefur áhrif á svo margt

Hver eru helstu einkenni streitu?

„Streita hefur áhrif á allar þær þrjár stoðir heilsu sem þurfa að vera í lagi til þess að við getum talist vera heilbrigð. Það er líkamleg, andleg og félagsleg heilsa. Það er því ekki nóg að vera í góðu formi líkamlega ef við upplifum sálarpínu. Ekki nóg að líða vel með sjálfum sér ef við getum ekki átt í samskiptum við annað fólk enda eru samskipti óumflýjanleg. Að síðustu er ekki nóg að vera vinsæll og vel liðinn félagslega ef líkaminn er lélegur.

Helstu einkenni streitu eru þreyta, höfuðverkur, vöðvabólga, hraðari öldrun, svefnerfiðleikar, athyglisbrestur, neikvæðni, depurð, kvíði, lágt sjálfsmat, samskiptaerfiðleikar, viðkvæmni og jafnvel einangrun, einmanaleiki og þunglyndi. Einkennin eru missterk eftir því hversu streitt við erum: Það er gott að hafa smá streitu til að keyra sig í gang á morgnana en um leið og við erum farin að glíma við kulunun eða sjúklega streitu (e. Exhaustion Disorder) þá þarf að líta í eigin barm og grípa til viðeigandi ráðstafana. Góðu fréttirnar eru þær að það er tiltölulega ódýrt og einfalt að vinna sig út úr streitu. Í Streituskólanum styðjum við einstaklinga í því ferli auk þess sem við höldum fyrirlestra í fyrirtækjum, þá með fræðslu til forvarna gegn streitu og vanlíðan hvers konar.“

Aldís Arna segir neikvæða streitu algenga og alvarlega.

„Streita hefur áhrif á líkamlega, andlega og félagslega heilsu þar sem hún getur hvort tveggja valdið og ýtt undir sjúkdóma. Flestir þeirra sem fara til heimilislæknis fá þá skýringu að streita og álag sé orsök veikinda þeirra og eða vanlíðunar.

Streita veldur því heilsutjóni, vanlíðan, vinnutapi, kostnaði og skaða fyrir allt samfélagið. Streita hefur í för með sér mikla lífsgæðaskerðingu fyrir einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem og verðmætaminnkun fyrir hagkerfi heimsins. Það er því til mikils að vinna að ná tökum á streitunni og lifa í jafnvægi og sátt. Þá ber hvert okkar ábyrgð á að líta í eigin barm og skoða sitt streitustig.“

Að hvíla heilann er mikilvægt

Áttu fimm góð ráð að deila með okkur, til að minnka streitu og auka vellíðan?

„Við þurfum að huga að hugarfari. Streituviðbragðið okkar virkjast fyrst og fremst af hugsunum okkar og því er mikilvægt að veita viðhorfum okkar og hugsunum athygli. Tileinkaðu þér uppbyggilegt viðhorf til sjálfs þín og getu þinnar til að takast á við viðfangsefni lífsins. Það nennir enginn að ferðast með leiðindapúka svo vertu skemmtilegur og hvetjandi ferðafélagi. Verður hver með sjálfum sér lengst að fara. Það fyrsta sem ég bið nýja skjólstæðinga um er að svara hvort þeir ætli að standa með sér í ferlinu og bera 100% ábyrgð á líðan sinni. Þegar það er í höfn getum við fyrst haldið viðtalinu áfram.

Síðan þarf að gæta að hóflegri hreyfingu. Hreyfing bætir, hressir og kætir þar sem hún framleiðir vellíðunarhormónið endorfín. Þegar við erum undir miklu álagi er hins vegar ekki rétti tíminn að stunda hreyfingu með hámarksákefð, eins og hröð hlaup og lyftingar þar sem þá hækkar streituhormónið kortisól. Þá er ákjósanlegra að stunda rólegri hreyfingu, svo sem göngutúra í núvitund. Þegar um hægist aftur getum við tekið meira á því í hreyfingu. Við verðum ævinlega að hafa ríkjandi streitustig í huga til þess að stíga ölduna rétt.

Eins eru hamingjustundir mikilvægar. Eitt besta mótefnið gegn streitu er hormónið oxitósín sem oft er kallað ástar- eða kelihormónið. Við virkjum það með því að tjá okkur við góðan vin, fagaðila eða skrifa niður hugrenningar okkar á blað. Einnig við sjálfsumhyggju og með því að styðja og knúsa aðra. Finna að við elskum og erum elskuð; að við tilheyrum og erum ekki ein. Við þekkjum það flest hvað manni léttir mikið þegar maður er búinn að segja hlutina upphátt og fá virka hlustun og skilning. Slíkt ferli auðveldar okkur að gangast við tilfinningum okkar og halda áfram veginn þrátt fyrir áskoranir og erfiðleika lífsins.

Síðan verðum við að huga að hvíld. Ef fullorðið fólk kynni að anda rétt þá væri streita ekki ein helsta heilsufarsógn 21. aldarinnar. Við getum alltaf aðeins ýtt á „pásutakkann“ og dregið djúpt inn andann til þess að róa kerfið okkar. Þá öndum við eins og ungbörn, djúpt ofan í kvið, stöldrum við og öndum svo rólega frá okkur í gegnum nefið. Við kunnum þetta sem börn og getum lært þetta aftur. Tryggjum einnig djúpan nætursvefn við góð svefnskilyrði. Við hvetjum fólk einnig til þess að sækja sér daglega „heilahvíld“. Þá gefum við okkur rými til að kúpla okkur aðeins út úr dagsins önn og amstri til þess að dreifa og hvíla hugann. Við getum horft á sjónvarpsþátt, prjónað, eldað, dansað, sungið eða spilað.

Að lokum vil ég minnast á hugrekki. Því tvær helstu grunnþarfir mannsins eru að vaxa og upplifa stjórn á lífi sínu. Forsenda þess að geta vaxið er að fara út fyrir þægindarammann endrum og eins; að ögra sjálfum sér og sigra sjálfan sig. Þægindaramminn er ekkert svo þægilegur. Meira að segja vatn myglar þegar það er kyrrt of lengi; hvað þá manneskjur.

Flest gamalt fólk sér eftir því sem það gerði ekki í lífinu, ekki því sem það gerði. Það er mikil lífsfylling fólkin í því að lifa í takt við eigin gildi, langanir, drauma og þrár. Búrið er alltaf opið en það er okkar að þenja vængina og fljúga af stað. Taka stjórnina og bera ábyrgðina. Þegar við sigrum okkur sjálf eykst sjálfstraust okkar og sjálfstraust er smitandi. Það er gefandi og gaman að vera innan um fólk sem ber virðingu fyrir sér og öðrum.“

Ástin skiptir máli í lífinu

Hver er grunnurinn að góðu sambandi að þínu mati?

„Ást, virðing, sameiginleg gildi, húmor og verkaskipting. Sem foreldrar fjögurra barna þurfum við að vera mjög skipulögð og skipta með okkur verkum. Maðurinn minn sem dæmi eldar og ég sé um þvottinn. Við erum samstilltir foreldrar og höfum sömu grunngildi í uppeldinu að leiðarljósi: Að varðveita sjálfstraustið og sjálfstæðið sem börnin okkar fæddust með. Sjálfstraust er lykillinn að öllu góðu í lífi okkar. Okkur finnst mikilvægt að þau fái áheyrn, skilning, hvatningu og skilyrðislausa ást, tækifæri til að fara út fyrir þægindarammann, hugsa út fyrir boxið, sigra sig sjálf, reka sig á og læra af reynslunni og sýna seiglu.

Vissulega erum við ólík á margan hátt en það að grunngildin séu þau sömu tel ég mikilvægt til þess að hvaða hjónaband sem er gangi upp. Að fólk líti til sömu áttar. Þá er einnig mikilvægt að virða það að við erum ólík og í staðinn fyrir að líta á það sem ógn að líta á það sem tækifæri til þess að læra eitthvað meira og skilja heiminn betur. Svo verður maður að vera ástfanginn, sýna virðingu og geta hlegið saman. Að taka sig ekki of alvarlega heldur geta gert góðlátlegt grín að sjálfum sér. Það er engin ástæða til þess að taka lífið of alvarlega, við komumst hvort eð er ekki lifandi frá því. En það er ekki það sama að vera „bara til“ og að „lifa til fulls“ – að fagna lífinu og þakka lífgjöfina þrátt fyrir að lífið sé ekki alltaf dans á rósum. Það lofaði okkur því enginn að lífið yrði alltaf létt. Þegar reynir á okkur er einmitt kjörið tækifæri til þess að þroskast, læra og „stækka“.“

Aldís Arna er þakklát fyrir hvað markþjálfun er að verða vinsæl.

„Læknanemar við læknadeildina í Harvard eru farnir að læra markþjálfun til þess að flýta fyrir bata og endurhæfingu með því að skapa umhverfi sem hvetur sjúklinga til þess að hafa meira um bataferli sitt að segja. Sjúklingar eru hvattir til þess að bera ríkari ábyrgð á eigin heilsu, líta í eigin barm, virkja eigin visku og styrk til þess að finna lausn sem hentar viðkomandi og flýtir fyrir endurkomu út í lífið eða á vinnumarkaðinn. Þegar sjúklingar eiga meiri hlutdeild í „lausninni“ þá eru þeir líklegri en ella til þess að ná tilskildum árangri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »