Heilsuleyndarmál Jennu Dewan

Jenna Dewan eignaðist barn í mars í fyrra.
Jenna Dewan eignaðist barn í mars í fyrra. AFP

Hollywoodstjarnan Jenna Dewan hefur sett heilsuna í forgang síðasta árið en hún eignaðist annað barn sitt fyrir ári. Hún borðar mikið grænmeti en leyfir sér eitthvað óhollara af og til. Pílates og hugleiðsla hafa gert Dewan gott í kófinu. 

Dewan gefur syni sínum að drekka á morgnana og nærir síðan sjálfa sig og hugleiðir í 20 mínútur að því er fram kemur í viðtali við sjörnuna í Women's Health. Dewan hefur stundað Vedic-hugleiðslu í mörg ár. Hún tekur hugleiðsluna svo alvarlega að börnin hennar mega ekki koma í hugleiðsluhornið hennar. Eftir hugleiðsluna gerir hún öndunaræfingar. Tveir andardrættir inn, einn út. Öndunaræfingarnar gerir hún við tónlist og segir æfingarnar virka gegn stressi.

Dewan, sem er bæði leikkona og dansari og gerði garðinn frægan í myndinni Step Up með fyrrverandi eiginmanni sínum Channing Tatum, æfir pílates á dýnu þrisvar til fjórum sinnum í viku á zoom. „Það kemur þér í form svo hratt og þú verður sterkari,“ segir Dewan um æfingar sínar. „Dansarinn í mér elskar þetta af því þetta virkjar sömu vöðvana í miðjunni. Sérstaklega þegar þú ert að jafna þig eftir aðgerð,“ segir Dewan sem fór í keisaraskurð í mars í fyrra. 

Hvað viðkemur mataræði segir Dewan allt gott í hófi. Hún borðar aðallega grænmeti og borðar í 80 prósentum tilfella hollan mat en í 20 prósentum tilvika leyfir hún sér eitthvað aðeins meira. Hún byrjar morgnana á grænum þeytingi. Hún blandar saman spínati, salati, selleríi, kóríander, steinselju, epli, banana og límónu. Hún á alltaf til kínóa, eldað grænmeti og svartar baunir í ísskápnum þannig að auðvelt er að búa til holla máltíð. Sjálf segist hún ekki vera fær kokkur en salatið hennar er í miklum metum hjá fjölskyldunni. Þá blandar hún saman því grænmeti sem til er en það geta verið gulrætur, paprikur, spergilkál, lárperur og jafnvel súrkál og borðar með grænmetisbuffi.

Jenna Dewan.
Jenna Dewan. AFP
mbl.is