Ertu með fortíðarþráhyggju gagnvart mat?

Ásdís Ósk Valsdóttir.
Ásdís Ósk Valsdóttir.

„Í febrúar fór ég í mitt þriðja próf hjá Greenfit. Ég var búin að hlakka ansi mikið til því ég kom mjög vel út úr prófi númer 2. Ég vissi að ég myndi ekki koma jafnvel út og síðast og það yrðu miklu minni breytingar því það er jú ekki hægt að bæta sig endalaust en ég hafði ekki miklar áhyggjur af því. Ég er að æfa vel, borða rétt og nefanda eins og enginn sé morgundagurinn. Ég myndi rúlla þessu upp,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona í sínum nýjasta pistli: 

Ásdís Ósk Valsdóttir árið 2019.
Ásdís Ósk Valsdóttir árið 2019.

Ég fór fastandi í blóðprufurnar eins og lög gera ráð fyrir og fór svo í álagsprófið í vikunni á eftir. Aldrei þessu vant fannst Lukku tilvalið að ég myndi kíkja á hana og fara yfir niðurstöðurnar. Mér fannst það pínu skrýtið þar sem þetta var jú þriðja prófið mitt og ég vissi nokkurn veginn hvað ég var að fara út í. Við fórum mjög vel yfir fyrsta prófið enda ekki vanþörf á því. Ég kolféll á því prófi. Ég kom mjög illa út miðað við konu sem var búin að æfa vel og borða nokkuð rétt í þrjú ár en kannski ekkert svo illa út miðað við konu sem var ekki búin að æfa í tuttugu ár þar á undan og borða rangt í áratugi.

Fyrst skoðaði ég álagsprófið. Það var ekki alveg jafngott og ég átti von á. Fitubrennslan hafði lækkað frá því síðast en Siggi benti á að ég væri að taka um 0,7 L meira inn í hverjum andadrætti samanborið við síðast og það er HUGE. Ég hef í alvörunni ekki hugmynd hvað hann á við en mér finnst þetta hljóma mjög jákvætt. Einnig var bæting í „respiratory system“ þar sem ég var að halda dýptinni mun lengur og er skilvirkari í hverjum andadrætti. Það var líka vel gert sagði Siggi. Sum sé neföndun svínvirkar. Ég finn það líka í erfiðum hjólaæfingum hvað ég er miklu fljótari að ná andardrættinum rólegum eftir ógeðsspretti og hvað æfingarnar ganga miklu betur. Ég náði til dæmis að syngja með hverju einasta lagi í 80’s hjólatímanum um daginn, sessunauti mínum til mikillar ánægju. Hann þekkti lögin ekki eins vel og ég því hann var víst í leikskóla á þessum tíma.

Blóðrannsóknin ein stór skita

Lukka var líka mjög jákvæð og byrjaði á að taka fram það væru alveg góð teikn þarna, til dæmis héldi áfram að draga úr bólgum sem er mjög jákvætt. Svo spurði hún mjög kurteisilega hvort að ég hefði mögulega gert einhverjar breytingar, hef ég haldið sömu línu eða breytt einhverju?

Ég er á sextugsaldri og man ekki neitt. Ég man ekki einu sinni hvað ég borðaði í gær. Eina ástæðan fyrir því að ég get flett því upp er vegna þess að ég tek mynd af matnum og set hann í story og highlights á Instagram.

Nei, veistu ég hef nú ekki breytt miklu, búin að vera mjög stapíl sko. Svo skoðuðum við blóðrannsóknina. Ég fékk nett áfall. Hún kom mjög MJÖG ILLA ÚT. Við erum að tala um ef blóðprufa númer 2 var 10 þá var þessi svona 2.5, það er fall. Meira að segja þegar ég var í Menntaskóla var 3,9 fall. Fyrsta hugsunin sem flaug í gegnum hausinn á mér var: „Það hefur orðið ruglingur á sýnum.“ Þetta væri svona tilfelli eins og þegar börnum er ruglað á fæðingardeildinni og þau komast að þessu á fullorðinsaldri. Sýnin mín myndu finnast og allt yrði betra. Svo mundi ég að ég var víst viðstödd álagsprófið, það er til mynd af mér á brettinu og ég sá líka að blóðprufurnar mínar voru merktar með mínum nöfnum. Nei, ekki frekar en mér var ruglað saman við annan nýbura þá var sýnunum mínum ekki víxlað. Hvernig veit ég að mér var ekki ruglað saman við annan nýbura. Jú ég fæddist heima hjá ömmu Hermínu á Dalvík þar sem það var ófært á fæðingardeildina á Akureyri þennan dag og það var ekkert annað barn sem fæddist heima hjá ömmu Hermínu þennan dag.

Ertu mögulega búin að slaka eitthvað á?

Lukka sagði að bæði álagsprófin sem og blóðrannsóknin töluðu sama máli. Það benti allt til þess að ég hefði slakað verulega á. Mér fannst það ólíklegt. Ég er að borða gífurlega hollt í morgunmat, hádegismat og kvöldmat og holl millimál inn á milli. Svo ákvað ég að rifja febrúar aðeins betur upp. Ég átti afmæli þann fjórða. Mér fannst alveg að ég mætti leyfa mér smá. Gildin mín voru svo pottþétt síðast. Það reyndist vera þriggja daga slökun þar sem ég leyfði mér svo að segja allt sem mig langaði í. Svo kom bolludagurinn og svo fórum við Brynjar til Akureyrar á skíði. Ég leyfði mér eitt og annað í Akureyri. Á sunnudeginum fékk ég mér hamborgara og franskar. Ég hafði ekki borðað hamborgara og franskar í 6 mánuði af því að mig langaði ekki í hann. Það var hins vegar allt uppselt á Akureyri og það var laust þarna. Hamborgarinn var mjög góður en það sem ég var búin að steingleyma er að þetta kombó triggerar eitthvað í mér og stuttu seinna kom ég við í sjoppu og fékk mér Hafraklatta og Ríssúkkulaði (steingleymdi því að ég ætla bara að kaupa Fairtrade súkkulaði) og fílakúlupoka.

Brynjar ákvað að það væri best að segja ekkert á þessari stundu. Það tók mig þrjá daga að vinda ofan af þessu og tveimur dögum seinna fór ég í blóðprufuna. Ég mundi líka að ég var hætt að drekka svart te nema í febrúar var ég farin að drekka 3 bolla af svörtu tei með mjólk á dag. Ég fékk greiningu á mjólkuróþoli fyrir langa löngu en mér fannst bara óspennandi að taka þær allar út það sem eftir væri ævinnar þannig að ég leyfði mér þær í hófi. Svo rifjaðist það upp að ég var farin að stinga upp í mig súkkulaðimola annað slagið. Þannig að þegar ég tók allt saman var niðurstaðan sú að febrúar samanstóð af mjög mörgum litlum hlutum sem eru kannski ekki alveg að virka fyrir mig.

Ég held að hluti af vandamálinu hafi verið að ég ofmetnaðist eftir annað prófið. Ég kom svo rosalega vel út ég hélt að ég væri í betra standi en ég var. Róm var ekki byggð á einum degi og eina leiðin er að taka eitt skref til baka og byrja aftur af krafti.

Fortíðarþráhyggja gagnvart mat

Ég hef alltaf sagt: „ég er svo heppin að eiga ekki fyrri árangur í íþróttum og þurfa ekki að svekkja mig á ná ekki mínum besta árangri aftur.“ Í staðinn nýt ég ferðalagsins og að bæta úthaldið og styrkinn.

Ég er hins vegar að átta mig smátt og smátt á því að ég hef haft þetta viðhorf gagnvart mat. Þannig að í staðinn fyrir að svekkja mig á að ná ekki lengur fyrri íþróttaafrekum þá hef ég átt það til að svekkja mig á að geta ekki endurtekið fyrri matarafrek nema leggja heilsu mína undir. Það hefur innst inni farið gífurlega í taugarnar á mér að geta ekki borðað það sem ég var vön að borða þegar ég var yngri. Sko, þegar ég var tvítug gat ég borðað allt sem ég vildi og samt verið grönn. Hvers vegna get ég það ekki lengur? Þrátt fyrir alla mína vinnu og breytingar var ég enn föst í þessu fortíðarsambandi við mat. Ég hugsaði ennþá. Ég gat alltaf borðað þetta, af hverju ekki núna. Jú, núna er ég 52 ára með gen sem þola ekki allan mat. Ég áttaði mig á því að það var ekkert annað að gera en að núllstilla viðhorfið og gera breytingar eina ferðina enn og njóta þess að laga mig.

Lukka stakk upp á því að ég myndi prófa Veri sírita til að mæta blóðsykurinn. Einnig ætla ég að skrá hjá mér hvað ég borða (ekki magn og þess háttar) heldur hreinlega hvaða næringu ég innbyrði. Þannig ætla ég að finna mína veikleika og taka þá út einn af öðrum. Ennfremur ætla ég að taka millipróf fyrir blóðsykur og kólesteról til að sjá hvort að ég sé ekki örugglega á rétti leið.

Auðvitað er stundum hundfúlt að þurfa alltaf að vera á tánum en ég var með lélegan lífstíl í áratugi og það verður ekki undið ofan af öllu á nokkrum mánuðum. Þetta er ævilangt verkefni og ég er tilbúin í það. Ég veit líka að heimurinn ferst ekkert þó að ég eigi slæman dag og ég mun halda áfram að leyfa mér eitt og annað. Þetta er lífsstíll, ekki átak.

Ég á vinkonur sem hafa alltaf haldið sér í kjörþyngd. Þær hafa alltaf stundað hreyfingu og þær leyfa sér allt í hófi. Munurinn á mér og þeim er að ég stundaði enga hreyfingu í áratugi og ég leyfði mér allt í ÓHÓFI.

Það er hins vegar miklu auðveldara að detta í fórnarlambsgírinn og væla yfir því að ég megi ekki borða allt sem mig langar í þegar ég vil á meðan Sigga getur það. Málið er að ég veit ekkert um gildin hennar Siggu. Það er mjög hættulegt að bera sig saman við einhvern annan og svekkja sig á því að þú getir ekki eitthvað sem einhver annar getur. Eftir að ég fór að bera mig eingöngu saman við sjálfa mig varð lífið auðveldara og ég varð miklu hamingjusamari.

Einu sinni var diesel miklu ódýrara en bensín og það pirraði mig oft þegar ég fór og tók bensín á minn bíl. Það hvarflaði samt aldrei að mér að setja diesel á bílinn minn þó að ég myndi spara smá pening því ég vissi að það myndi fara illa með bílinn. Samt set ég allskonar ofan í mig sem mín vél þolir ekki af því að mér finnst ég eiga það skilið.

Hver ber ábyrgð á þessu?

Mín tilhneiging í gegnum tíðina var að reyna að skella skuldinni á einhvern annan en mig. Það er pínu vesen ef þú þarft að viðurkenna fyrir sjálfum þér ef þetta er algjörlega undir þér komið. Hverjum er eiginlega að kenna þetta matarvesen? Hvers vegna get ég ekki borðað allt sem ég vil, alltaf þegar ég vil?  Ég meina, ég myndi alveg fíla í tætlur að geta fengið mér súkkulaðiköku tvisvar á dag og smá konfekt í eftirrétt. Svoleiðis mataræði væri sko draumur í dós. Eins og margir segja: “þú þarft ekki að vinna þér inn fyrir kökunni”. Það er sko hárrétt. Það þarf ekkert að fara út að hlaupa 5 km til að mega borða eina kökusneið. Hins vegar gætu innri gildin mín viljað að ég sleppi kökunni flesta daga og nyti hennar meira hina dagana.

Áður en ég tók fulla ábyrgð á mér og minni heilsu var ég búin að reyna ýmislegt og það eina sem allar þessar tilraunir áttu sameiginlegt var að þær gengu aldrei upp. Ég náði aldrei langtímaárangri og sá árangur sem ég náði var fljótur að fara til baka þegar ég gafst upp. Ég seldi mér að ég væri einfaldlega með svona gen, það skipti ekki máli hvað ég myndi gera, ég væri svo óheppin með gen. Svo væri ég líka með svakalega hæga brennslu. Mín brennsla er einfaldlega miklu hægari en annara þess vegna mun ég ALDREI ná árangri, alveg sama hvað ég geri, svo til hvers að reyna það. 30 kílóum léttari neyðist ég víst til að viðurkenna að þetta var alls ekki rétt hjá mér.

Hver ber ábyrgð á þessum genum eiginlega? Er það einhver formóðir mín sem kannaði ekki hvort að barnsfaðir hennar var með góð gen til undaneldis? Eru þetta kannski ekki genin? Er þetta uppeldið? Er þetta álagið á nútímakonuna? HVER BER ÁBYRGÐINA?

Lengi vel tók ég bara Milli Vanilli á þetta ástand: „Gotta blame it on something. Blame it on the rain that was falling, falling. Blame it on the stars that didn't shine that night. Whatever you do, don't put the blame on you. Blame it on the rain, yeah, yeah.“

Það er árshátíð, það er bolludagur, það er kaffi í vinnunni, það er saumaklúbbur, það eru páskar, það eru jól, ég á afmæli, krakkarnir eiga afmæli, ég er í frí, það er rosalega mikið álag í vinnunni, ég átti frábæran dag í vinnu, ég er búin að fara út að hlaupa. ÉG Á SKILIÐ AÐ TRÍTA MIG.

Dagurinn sem ég áttaði mig á því að ég ein bæri ábyrgð á minni heilsu og enginn annar var dagurinn sem allt breyttist. Það var dagurinn sem ég tók stjórnina í mínar hendur og ég hætti að búa til afsakanir. Ég á lélega daga, ég klikka, planið klikkar en það skiptir engu máli vegna þess að þetta er vegferð út ævina og það getur enginn verið með fullkomið líf alltaf.

Hver er ég?

Ég áttaði mig líka á því að ég var búin að vera með „Ég var einu sinni...“ hækju. Ég var einu sinni 95 kíló. Ég gat einu sinni ekki hlaupið milli ljósastaura og í hvert skipti sem ég slakaði á þá gaf ég mér leyfi til þess því að ég var orðinn miklu betri en ég var. Ég er heilbrigðari, ég er í betra formi, ég er léttari. Ég áttaði mig á því að ég þurfti að endurstilla mig. Ég get ekki lengur verið að horfa í baksýnisspegilinn hver ég var. Ég þarf að horfa fram á við, hver ég er.

Ég er 52 ára gömul kona. Ég er í góðu formi og ég hreyfi mig sex daga vikunnar og stundum tvisvar á dag. Ég borða hollt. Ég er heilbrigð. Ég er hamingjusöm. Ég er  í góðu jafnvægi. Ég set framtíðar mig í forgang. Ég er 65 kíló.

Ég er einfaldlega ekki lengur konan sem var einu sinni 95 kíló.

Er þetta ekki gífurlega dýrt?

Mörgum finnst það ansi dýrt að ég ætli að fara í test á 3ja mánaða fresti hjá Greenfit. Kostar ekki skiptið 60.000 kr. Ekki alveg, fyrsta skiptið kostar 59.900 krónur en endurkomuástandsskoðunin kostar 39.900 krónur. Þetta eru fimm skipti sem ég ætla að taka á einu ári. Þú þarft svosem ekki að vera á stærðfræðibraut til að reikna þennan kostnað út. Þegar ég var að taka til í geymslunni í vetur fann ég tóma kassa sem voru með merktir. Á þeim stóð: 75 kíló, 80 kíló og 85 kíló. Það rifjaðist upp fyrir mér að þetta voru öryggiskassarnir mínir. Fötin sem ég ætlaði að passa í. 85 kíló var svona rokkandi kassinn, stundum komst ég í fötin úr honum og stundum ekki. 80 kíló var kassinn sem ég ætlaði að komast í eftir næsta kúr og 75 kíló var kassinn sem ég ætla að passa í þegar allt gengur upp og lífið verður dásamlegt.

Ég reiknaði þetta aðeins út. Í hverjum kassa kæmi ég auðveldlega fyrir 30 flíkum. Gefum okkur að hver flík kosti að meðaltali 10.000 krónur, þá kostaði innhald hvers kassa 300.000 kr. Þegar ég missti 10 kíló eftir þrjá mánuði hjá Greenfit fór ég með öll fötin sem ég tímdi ekki að láta í breytingar hjá klæðskera. Það kostaði 117.000 eða næstum því upp á krónu jafnmikið og þrjú endurkomupróf hjá Greenfit. Það er gífurlega dýrt að vera í jojo þyngd. Þú ert stöðugt að kaupa föt og svo pakka þeim niður. Svo þegar þú kemst loksins í sömu þyngd aftur passa fötin ekkert endilega á þig því líkaminn hefur breyst. Hann er öðruvísi mótaður en þegar þú keyptir fötin. Þegar ég byrjaði að grennast þurfti ég að endurnýja alla skóna mína. Hvað meinar þú, skóna, ekki minnkuðu á þér lappirnar? Jú heilan helling, þær styttust sannarlega ekki en þær afþrútnuðu sem þýddi næstum því heil skóstærð sem fæturnir minnkuðu um og allir mínir skór urðu of víðir. Vitið þið hvað skósafn miðaldra konu kostar? Töluvert meira en test hjá Greenfit get ég sagt ykkur.

Þegar ég fékk út úr fyrsta prófinu og sá hversu mikið ég þurfti að laga ákvað ég að ég myndi gefa sjálfri mér bætta heilsu. Ég ákvað að gefa mér 12 mánuði til að fínstilla mína heilsu og mín gildi. Ég ætla að leysa heilsugátuna og í hvert skipti gengur þetta aðeins betur og ég læri meira á hvað ég get og hvað ég má.

Ég veit ekki með þig en ég ætla ekki að horfa í augun á 80 ára gömlu mér og segja: "Fyrirgefðu að ég nennti ekki að setja þig í forgang og hugsa betur um þig. Fyrirgefðu að mér fannst þín heilsa ekki nógu mikilvæg"

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á Instagram: 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál