Misjöfn svefnrútína fræga fólksins

Martha er einn vinsælasti sjónvarpskokkur heims en sefur mjög illa.
Martha er einn vinsælasti sjónvarpskokkur heims en sefur mjög illa.

Svefninn getur verið mjög misjafn hjá fólki. Sumir sofa vel en aðrir eiga í stöðugri baráttu við svefninn. Sunday Times tók púlsinn á nokkrum þekktum einstaklingum hvað svefn varðar og kom margt áhugavert í ljós.

Manolo Blahnik, 78 ára

Manolo Blahnik skóhönnuður.
Manolo Blahnik skóhönnuður. Skjáskot/Instagram

„Ég fer venjulega að sofa í kringum miðnætti og vakna klukkan hálfátta á morgnana, en ekki núna. Í þessum heimsfaraldri hef ég vanið mig á að halda áfram að vinna þar til ég sofna síðdegis. Ég tek mér aldrei blund því mér líður illa ef ég geri það.

En í þessu samkomubanni [...] ef ég er að skoða Instagram (sem ég geri ekki oft), þá er ég sofnaður eftir fimm til sex færslur. Ég vakna svo um tíu að kvöldi, borða, les og vinn til tvö að nóttu eða þar til ég sofna.

Venjulegt fólk fær átta tíma svefn en ég er góður með fimm til sex tíma svefn. Ég er ekki með vekjaraklukku og drekk ekki kaffi. Það fyrsta sem ég geri á morgnana er að fara í sturtu. Ég vil alltaf vera hreinn. Svo sef ég alltaf best heima hjá mér á Kanarí-eyjum með hundana mína hjá mér,“ segir Blahnik.

Miranda Kerr, 37 ára

Miranda Kerr.
Miranda Kerr. AFP

„Ég fer að sofa um hálftíu og vakna klukkan hálfsex á morgnana. Maðurinn minn þarf að fara á fætur þá svo vekjaraklukkan hans vekur mig. Ég þoli ekki ef hann ýtir á „snooze“-takkann því ég get aldrei sofnað aftur. Til allrar hamingju fyrir hann þá reyni ég að vera glaðlynd á morgnana þó að ég sé engin morgunmanneskja. Ég knúsa hann og spyr hann hvernig hann hafi sofið.“

„Áður en ég fer að sofa þá set ég símann á flugvélastillingu. Þannig næ ég að kúpla mig út og það kemur í veg fyrir að ég skoði tölvupóstana um miðja nótt þegar ég vakna með börnunum,“ segir Kerr sem á þrjú börn og það yngsta aðeins 17 mánaða.

„Mér finnst best að hugleiða fyrir svefninn. Þannig næ ég að slaka á og sofna yfirleitt fljótt eftir það. Svo er ég dugleg að nota ilmkjarnaolíur. Ég elska til dæmis að spreyja lofnarblómsvatni á koddann og andlit mitt. Svo set ég á mig gott rakakrem áður en ég sofna.“

Martha Stewart, 79 ára

Martha Stewart.
Martha Stewart. Pinterest.

„Ég þjáist af svefnleysi og fæ því aldrei „góðan nætursvefn“, aldrei. Ég hef aldrei sofið vel. Ekki einu sinni sem barn. Þá las ég alltaf undir sæng með vasaljós. Núna í samkomubanni horfi ég á kvikmyndir og sjónvarpsþætti í gríð og erg. Svo tek ég til í fataskápnum, endurskipulegg eldhúsið, prófa ný deig eða dekra við kisurnar um miðjar nætur. Allt til þess að komast hjá því að sofa.“

„Ég fæ að meðaltali fjögurra klukkustunda svefn og tvo til þrjá tíma af því að bylta mér sem mér finnst vera tímasóun. Ég myndi frekar vilja lesa bók en að reyna að sofna. Ég hef aldrei þurft vekjaraklukku en hef hana þó stillta til öryggis.“

„Reyndar reyni ég ekki mikið að ná fram gæðasvefni. Ég er ekki með neinar gardínur fyrir gluggana í svefnherberginu sem snúa í austur og svo eru tvö risastór búr af páfagaukum á neðri hæðinni. Síðan á ég mjög ákveðna kisu sem vill aðeins sofa á öxlinni minni og svo slekk ég aldrei á náttborðsljósinu. Vinir mínir hafa stungið upp á alls kyns bætiefnum til þess að laga svefninn en þá myndi ég missa allan þann tíma sem ég hef til þess að læra eitthvað nýtt og gefandi,“ segir Stewart.

Tracy Anderson, 46

Tracy Anderson líkamsræktarfrömuður.
Tracy Anderson líkamsræktarfrömuður. Skjáskot/Instagram

„Flesta daga er ég vöknuð klukkan sjö og farin út úr húsi um tíuleytið. Ég hef alltaf sofið vel, jafnvel þegar ég er undir miklu álagi. Það held ég að sé líkamsræktinni að þakka. Ég nota enga tækni til þess að sofa, ég vil ekki að einhver tæki segi mér hvernig ég á að sofa vel. Ég vil finna það á sjálfri mér. Það fyrsta sem ég geri á morgnana er að þvo andlit mitt og setja á mig rakakrem,“ segir Anderson líkamsræktarfrömuður.

mbl.is