„Ég er aldrei dónaleg við þá sem æfa hjá mér“

Indíana Nanna Jóhannsdóttir.
Indíana Nanna Jóhannsdóttir. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Indíana Nanna Jóhannsdóttir, stofnandi og yfirþjálfari GoMove Iceland, hefur síðustu ár verið áberandi í heimi heilsuræktar hérlendis. Hún þjálfar yfir 200 konur í hverjum mánuði og leggur áherslu á að byggja upp sjálfstraust og þekkingu einstaklingsins. 

„GoMove Iceland er hjarta mitt og sál í rauninni. Ég stofnaði GoMove Iceland í janúar 2017 þegar ég byrjaði að þjálfa. Síðan þá hafa mörg verkefni litið dagsins ljós undir hatti GoMove: hópþjálfun, mömmuþjálfun, fjarþjálfun, bókaútgáfa og nú fljótlega fer af stað netnámskeið þar sem ég fer yfir mataræði, svefn og öndun. Kjarninn hjá fyrirtækinu er GoMove Online-æfingakerfið þar sem þú getur æft með mér og undir minni leiðsögn fimm daga vikunnar í beinni eða þegar þér hentar best. Yfir 200 konur æfa með mér í hverjum mánuði og höfum við saman byggt upp ótrúlega hvetjandi og lifandi samfélag.“

Hefurðu alltaf haft áhuga á hreyfingu og heilsunni?

„Ég æfði handbolta í fimmtán ár, þar fyrir utan var ég eitthvað í fimleikum, dansi og auðvitað var mikil útivera alltaf í skólanum og íþróttir. Svo já ég hef alltaf hreyft mig og verið að æfa eitthvað. En ég fór ekki að huga meðvitað að heilsunni fyrr en í menntaskóla. Þá áttaði ég mig á því að það væri kannski ekki hægt að borða bara hvað sem er ef maður vildi auka getu í handboltanum eða vera í þokkalegu formi. Það var þó þegar ég hætti í handboltanum, 21 árs, sem ég fór að sökkva mér virkilega ofan í styrktarþjálfun og heilsusamlegt mataræði.“

Setur svefninn í fyrsta sæti

Hvernig hugarðu að heilsunni daglega?

„Svefninn er alltaf í fyrsta sæti og er nokkuð niðurnegld svefnrútína á okkar heimili. Það breytir öllu að sofa vel. Á næturna sef ég alltaf með teip fyrir munninum til að tryggja neföndun en það eykur gæði svefnsins og slökun. Það hef ég gert í ár núna. Síðan passa ég alltaf að næra mig sérstaklega vel í fyrstu máltíð dagsins og tek viðeigandi bætiefni. Ég æfi og þjálfa skipulega alla virka daga og reyni svo að vera dugleg þar fyrir utan að ganga og synda. Dagarnir eru misvirkir en ég finn að mér líður alltaf best þegar ég hreyfi mig og fæ góða útiveru.“

Hvað gerir þú aldrei?

„Ég er aldrei dónaleg við þá sem æfa hjá mér. Það væri eitthvað algjörlega nýtt og mjög ólíkt mér.“

Nú virkar þú heilbrigð og í góðu formi, hvernig er venjulegur dagur í þínu lífi?

„Ég vakna með kærastanum mínum og stráknum okkar. Strákurinn minn er algjör kúrukarl svo dagarnir byrja oftast á kúri og spjalli uppi í rúmi sem við elskum. Svo græjum við hann í leikskólann og við löbbum svo saman. Ég fæ mér morgunmat í rólegheitum þegar ég kem heim. Síðan tekur við töluvinna fram að hádegi og þá þjálfa ég og æfi með GoMove Online-hópnum í beinni útsendingu. Eftir það fer ég oftast eitthvað á stjá í hádegismat og sinni síðan erindum fyrir vinnuna eða heimilið. Ég sæki strákinn minn í leikskólann seinnipartinn og við bröllum eitthvað saman. Síðan elda ég oftast kvöldmat og við borðum svo þrjú saman þegar kærastinn minn kemur heim af æfingu.“

Hvað er það ánægjulegasta sem þú hefur upplifað í lífinu?

„Fyrstu dagarnir eftir að strákurinn minn fæddist. Þeir voru ótrúlega krefjandi en svo fallegir á sama tíma. Tíminn stóð í stað og ekkert annað í lífinu skipti máli en við þrjú.“

En það erfiðasta?

„Það sem kemur upp er almennan á fyrsta árinu í lögfræðinni í Háskólanum, verkirnir frá 8-10 í útvíkkun í fæðingu, slitinn svefn með ungabarn á brjósti, að skrifa bókina mína Fjarþjálfun sem ég gaf út fyrir jólin 2019 þegar strákurinn minn var eins árs. En svo er þetta allt eitthvað sem ég er ótrúlega stolt af. Mín mesta þjáning en líka mín stærstu afrek.“

Á von á barni í júlí

Hvað vonarðu að framtíðin beri í skauti sér?

„Árið 2020 græddi ég stundir með strákunum mínum, kærasta og syni, sem ég hefði annars farið á mis við vegna anna. Það er ekki hægt að verðleggja það. Ég vona að við getum haldið áfram að vera eins mikið í núinu. Við eigum von á öðru barni í júlí á þessu ári svo það er ekkert nema stuð fram undan. Að stækka fjölskylduna og halda áfram að rækta þjálfunina og önnur verkefni samhliða henni verða mín stærstu verkefni á komandi árum. “

Hver er þín hugmyndafræði þegar kemur að þjálfun – hvað leggur þú áherslu á?

„Markmið mitt er alltaf að auka kunnáttu og sjálfstraust þeirra sem leita til mín. Sama hvort það sé tengt þjálfun, mataræði eða öðru. Ég blanda saman hefðbundnum og óhefðbundnum æfingum til að bæta alhliða styrk, auka hreyfigetu og tryggja fjölbreytni á æfingum. Ketilbjöllur, æfingar með eigin líkamsþyngd og hreyfingar úr æfingakerfi sem heitir Animal Flow er það sem þú sérð oftast í þjálfun hjá mér.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál