Það er áfall að greinast með krabbamein

Jenni Dagbjört Gunnarsdóttir ásamt dóttur sinni.
Jenni Dagbjört Gunnarsdóttir ásamt dóttur sinni.

Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla Hafnarfjarðarbæjar, greindist með brjóstakrabbamein í nóvember í fyrra. Hún segir áfall að fá krabbamein og eitt það erfiðasta sem hún hefur gengið í gegnum var að missa hárið og vera frá vinnu. Hún tekur einn dag í einu og ætlar að taka því rólega yfir páskana. Jenný Dagbjört er mikil páskakona. Hún segir páskana tíma til að slaka á og vera með þeim sem manni þykir hvað vænst um.

Hún hefur alla sína starfsævi unnið að málefnum barna enda er málaflokkurinn það sem hún brennur fyrir. Hún hefur unnið mikið yfir ævina en lífið tók óvænta stefnu hjá Jennýju í nóvember á síðasta ári.

„Það fannst ber í brjóstinu fyrir nokkrum árum sem talið var að væri góðkynja. Í eftirliti í nóvember í fyrra var ákveðið að taka sýni og í ljós kom að um illkynja æxli var að ræða. Maður heyrir mikið um sjúkdóma og fyllist harmi fyrir annað fólk en tengir ekki við það sjálfur að veikjast. Það var í það minnsta ofboðslega fjarri mér að ég yrði veik.“

Jenný segir að hún hafi alltaf getað gert allt sem hún vildi.

„Ég hef aldrei rekist á neinar hindranir í lífinu og alltaf getað gert það sem ég vil. Ég hef unnið mikið og er í skemmtilegri vinnu sem er eitt af áhugamálum mínum. Það var því mjög skrítið að upplifa það að verða veik og að þurfa að taka mér árs leyfi frá vinnu til að ná heilsunni aftur upp.“

Hefur alltaf hugsað vel um sig

Jenný hefur allt frá því hún man eftir sér gætt vel að heilbrigði í lífinu.

„Ég hef alltaf hreyft mig mikið og elska að fara í sund og gönguferðir. Ég hef passað mataræðið og haldið mig að mestu frá áfengi. Ég hef sofið vel og verið dugleg að stunda jákvæða, góða hegðun og þannig passað upp á mig.“ Jenný þurfti að fara í tvær aðgerðir og í þeim aðgerðum fundust þrjú æxli.

„Æxlin voru fjarlægð og rannsökuð og ljós kom að ég var með æxli af gerðinni HER 2. Það var ákveðið að ég þyrfti að fara í lyfjameðferð og geislameðferð. Síðan var mælt með því að ég færi í leyfi frá vinnu í eitt ár.

Það er áfall að greinast með krabbamein og vera kippt út úr öllu því sem maður er vanur að gera. Ég hef alltaf verið á fullu spani og notið þess.“

Hvernig leið þér að fá fréttirnar?

„Þegar ég fór til læknisins fyrst þá fraus ég. Síðan þegar ég var komin út í bíl þá fór ég að hágráta og ég man að ég grét bara næstu daga þar á eftir.

Ég tel mig heppna að hafa unnið mikið í mér á andlega sviðinu í gegnum lífið. Ég er góð í að raða og flokka þegar kemur að því að velja slagina sem ég vil taka hverju sinni og ég hef tekist á við alls konar hluti, sem betur fer, því ég hefði alveg getað valið að ýta þessum veikindum frá mér og halda síðan áfram af veikum mætti og lenda svo á vegg. Það er ekki eitthvað sem ég ætla að gera. Ég veit ekki hvar ég stæði ef ég væri þar.“

Erfiðast að missa hárið

Hvað hefur komið þér mest á óvart í ferlinu?

„Það sem mér hefur fundist erfiðast í öllu þessu er að ég hef alltaf haft nóg af fallegu hári og leyft því að vaxa næstum frjálst. Svo þegar ég fékk þessar fréttir var hárið orðið mjög sítt og ég var mjög ánægð með það. Það fylgja lyfjameðferðinni alls konar aukaverkanir, ein þeirra er að missa hárið. Í dag er ég búin að missa allt þetta fallega hár. Það hefur mér fundist erfiðast. Í staðinn fyrir það hef ég verið dugleg að kaupa mér alls konar flott höfuðföt og nýt þess að máta og prófa alls konar leiðir til að prýða höfuðið. Ég er að reyna að sjá alltaf það jákvæða.

Mér finnst mikilvægt að segja að ég er ekki krabbameinið, það er hluti af mínu lífi nú, tímabundið. Eitt ár er ekki langur tími á heilli mannsævi og ég reyni að halda mig við þær hugsanir.“

Jenný er auk þess mjög ánægð með að eftir þær fimm lyfjameðferðir sem hún hefur farið í, þá er hún ennþá fær um að fara út að ganga daglega.

„Ég fer út þótt mig langi ekkert að hreyfa mig, því mér líður alltaf betur á eftir. Ég er þakklát fyrir veðráttuna núna því það er auðvelt að fara og hreyfa sig í færðinni eins og hún er.

Eins hugsa ég vel um mig, klæði mig í falleg föt og er að passa að einangra mig ekki. Það er svo auðvelt að velja það að fela sig bara þegar maður er veikur. Að drekkja sorginni vegna veikindanna. En þangað fer ég ekki.“

Hver er upplifun þín af heilbrigðiskerfinu?

„Mig langar að tala um hve vel er hugsað um þá sem eru með krabbamein. Hvað krabbameinslæknarnir virðast vera framarlega í sínu fagi hér.

Fólkið sem er að annast mig er svo gott fólk og upplýsingaflæðið er til fyrirmyndar. Ég er með æðislega hjúkrunarkonu sem hugsar vel um mig. Hún mætir mér í hverri viku með þvílíkum kærleika að ég er gráti næst við að tala um það. Það skiptir öllu máli að sami einstaklingurinn taki á móti manni því þannig verður meðferðin ekki óvænt. Ég er einnig með æðislegan lækni

sem gefur sér allan tíma í heiminum til að útskýra allt svo vel fyrir mér. Ég kann mjög vel við hann. Ég er þannig að ég verð að vita og skilja það sem ég er að ganga í gegnum og vil ekki láta gera eitthvað við mig sem ég veit ekki hvað er.

Síðan ákvað ég um leið og aðgerðin var búin að fara í Ljósið og get ég ekki nægilega útskýrt hversu frábær sú starfsemi er.

Ég hvet alla sem eru greindir með krabbamein til að fara þangað. Þar er allt í boði. Námskeið, sjúkraþjálfun, tæki, iðjuþjálfun og alls konar handverk. Það er svo mikilvægt þegar manni er kippt út úr öllu að hafa einhvern stað til að mæta á. Starfsfólk Ljóssins er æðislegt og allir þar eru boðnir og búnir að vera til staðar fyrir okkur sem erum að koma þarna inn í fyrsta skiptið.“

Er að uppskera það sem hún hefur sáð

Stuðningur frá vinnufélögum skiptir einnig miklu máli að mati Jennýjar.

„Vinnufélagarnir hafa reynst mér óendanlega góðir. Það langar engan að fá krabbamein eða að missa vinnuna vegna krabbameins. Að geta gengið um með vinnuöryggiskennd alla daga er mikils virði. Þessa öryggiskennd gefa vinnufélagar mínir mér. Skrifstofa fræðslu- og frístundaþjónustunnar stendur með mér á þessari blindgötu sem ég er stödd á í dag.

Annar stuðningur sem mig langar að nefna er stuðningur frá fjölskyldunni minni. Þau eru stuðningsnetið mitt og þá langar mig sérstaklega að nefna Sigrúnu, dóttur mína, sem rakaði af sér hárið mér til stuðnings. Hún vildi stíga ölduna með mér og það hefur sonur minn Gunnar gert á sinn hátt líka.

Fjölskylda og vinir hringja mikið og að finna fyrir ást og að finna að maður skipti máli er svo gott fyrir mig. Ég er þessi kona sem hef meira reynt að vera til staðar fyrir aðra og á erfitt með að biðja um aðstoð fyrir mig. Því er svo gott að finna að maður er ekki einn. Vinkonur mínar hafa líka verið æðislegar.“

Jenný hefur lengi talað fyrir þeirri fjárfestingu að foreldrar eyði tíma með börnunum sínum.

„Það er fjárfesting sem ekki er hægt að meta til fjár og ég er að lifa það núna í eigin lífi. Sterk og góð tengsl eru það sem kemur manni meðal annars í gegnum veikindi. Fyrst verður maður að tengjast sjálfum sér og síðan öðru fólki. Það er mín skoðun á lífinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál