Mataræðið var í rúst hjá Rebel Wilson

Rebel Wilson þurfti að finna heildstæða nálgun að bættri heilsu. …
Rebel Wilson þurfti að finna heildstæða nálgun að bættri heilsu. Hún hreyfði sig alltaf mikið en matarræðið var í rúst. Skjáskot/Instagram

Rebel Wilson hefur tekið líf sitt í gegn að undanförnu og bætt heilsu sína til mikilla muna. Í viðtali við Wardrobe Icons gefur hún lesendum innsýn í fegurðarrútínu sína og hvernig hún hefur náð að festa í sessi heilsusamlegar venjur.

Notar alltaf sólarvörn

„Þegar ég er ekki að vinna er húðumhirða mín þannig að ég passa upp á að þrífa hana vel. Þar sem ég er með mjög ljósa húð passa ég að vera alltaf með sólarvörn. Ég elska að vera úti í sólinni og þar sem ég er frá Ástralíu hefur mikilvægi sólarvarnar verið innprentað í mig og ég fer einu sinni á ári í leysi sem fjarlægir allar skemmdir vegna sólarinnar. Ég finn mikinn mun á húðinni eftir leysimeðferðina. Ég tel það góða fjárfestingu því skaði af völdum sólarinnar getur breyst í húðkrabbamein síðar á ævinni,“ segir Wilson.

Var sama hvernig hún leit út

Wilson segir að sér finnist gaman að vera spurð út í fegurðarráð. „Ég var alltaf bara stelpan úr sveitum Ástralíu, ég ólst ekki upp við að punta mig. Ég hafði því lengi vel enga þekkingu á slíku. Þá sótti ég líka stelpnaskóla og þar var mér alveg sama hvernig ég leit út. Ég fór til dæmis ekki í handsnyrtingu fyrr en ég var 25 ára!

Það er mikið álag á líkama mínum í vinnunni og ég er alltaf hrædd um að meiðast. Ég passa því alltaf upp á að teygja vel á öllu og passa að allt sé í lagi áður en ég mæti til vinnu. Mig langar að prófa pílates en hef ekki látið verða af því.“

Mataræðið var í rúst

Wilson kallaði síðastliðið ár Ár heilsunnar og tók heilsuna föstum tökum. „Ég hafði aldrei tekið heilsuna í gegn á heildrænan hátt fyrr. Ég var að kynna mér frjósemismál og skoða þá kosti sem voru í boði fyrir mig ef ég skyldi vilja stofna fjölskyldu í framtíðinni. Þá sagði læknirinn að það að vera eins heilsumiðaður og mögulegt væri væri í raun besta leiðin. Þannig að það snerist ekki bara um að missa kíló heldur að vera í góðu jafnvægi. Ég hef alltaf elskað að fara í ræktina og fór sex sinnum í viku. Mataræðið var hins vegar í rúst. Ég borðaði bara kolvetni. Ég fór til næringarráðgjafa sem kenndi mér að auka inntöku prótíns og annarra fæðutegunda sem ég hafði algjörlega litið framhjá. Þar með náði ég stjórn á óhóflegum löngunum. Ég byrja hvern dag á að drekka tvær vatnsflöskur. Það getur tekið sinn tíma en ég held að það hjálpi mikið.

Stjórnaðist af tilfinningalegu áti

Tilfinningalegt át var einnig nokkuð sem ég þurfti að takast á við. Áður en ég hóf þessa breytingu kom ég heim og borðaði heila pítsu eða heilan dall af ís. Ég notaði mat til þess að hugga mig eftir langan dag. Þetta var hegðunarmynstur sem ég þurfti að breyta. Ég hef ekki alveg náð að kryfja þetta til mergjar en ég er búin að ná betri tökum á þessu.“

Skipuleggur máltíðir

Aðspurð hvernig hún haldi sér við efnið segir hún að mikilvægt sé að hafa áætlun. „Ef þú ert ekki samkvæmur þér og fylgir áætlun getur það verið mjög erfitt. Ég fæ mjög mikið út úr því að skipuleggja máltíðirnar. Ég elska til dæmis vefjur með nautakjöti, kjötið gefur prótín og osturinn hefur bæði kalk og prótein. Þá bæti ég við ýmsu grænmeti og avókadói. Afganga frysti ég og borða þetta út vikuna. Mér finnst gott að borða svipað flesta daga.“

Vill viðhalda góðum árangri

Wilson segir að nú sé hún ánægð ef hún nái að viðhalda árangrinum. „Ég missti tæp þrjátíu kíló á síðasta ári, ef ég næ að viðhalda því er ég ánægð. Hér áður fyrr missti ég fimm til tíu kíló og fékk þau öll aftur. Vonandi með svona heildstæðri nálgun næ ég að viðhalda árangrinum.“

Frábært að verða fertug

Wilson er nýorðin fertug og finnst það frábært. „Ég hafði alltaf heyrt fólk eins og til dæmis Opruh tala um hvað það væri frábært að verða 40 ára því maður valdefldist. Og það er satt! Ég hef næga reynslu að baki til að sjá ef einhver er að koma rétt fram við mig. Ég umber ekkert rugl lengur. Það á við í öllum þáttum lífs míns, bæði í einkalífinu og í vinnunni.

Mikilvægt að elska sjálfan sig

Galdurinn er að elska sjálfan sig. Fegurð er til í öllum stærðum og gerðum. Það er eitthvað virkilega fallegt við það þegar einstaklingur elskar sjálfan sig og líkama sinn eins og hann er. Þetta er klisja og stundum vill maður bara gretta sig og segja „blah!“ en svona er þetta. Ég áttaði mig á í heilsuferðalagi mínu að í svo mörg ár elskaði ég bara ekki sjálfa mig. Ég dældi í mig þúsundum af hitaeiningum sem ég þurfti ekki. Ég hélt að ég væri að vera góð við sjálfa mig en var það ekki. Svo dvínar fegurðin með árunum en persónuleikinn ekki. Maður þarf því að hugsa ekki síður um það að þróa hæfileika sína og persónuleika,“ segir Wilson að lokum.

Rebel Wilson hreyfir sig mikið.
Rebel Wilson hreyfir sig mikið. Skjáskot/Instagram
mbl.is