„Í atvinnumennsku lætur maður ekkert stoppa sig“

Hanna Rún og maðurinn hennar Nikita Bazev eru fallegt par.
Hanna Rún og maðurinn hennar Nikita Bazev eru fallegt par.

Dansarinn Hanna Rún Bazev Óladóttir er á því að það þurfi mikinn kraft í hverja hreyfingu í dansinum. Hún er á því að fólk þurfi að fórna miklu ef það ætlar að komast á toppinn. Hún og eiginmaður hennar, Nikita Bazev, hafa náð langt á dansgólfinu. Þau deila lífinu saman og eiga tvö börn.

„Það er margt í gangi þessa dagana, fyrir utan að sinna börnunum okkar tveim og heimilinu þá erum við hjónin að byrja að æfa aftur á fullu og undirbúa okkur fyrir keppnisgólfið. Ég er búin að vera að hanna danskjóla sem verið er að fara að sauma á mig, svo ég er að byrja að panta efnin, kristallana og allt það sem ég þarf í nýju danskjólana. Ég sé um að skreyta kjólana. Ég er einnig að vinna alla virka daga í Gullsmiðju Óla sem er skartgripaverslun foreldra minna. Svo erum við Nikita að vinna í því að byrja dansnámskeiðin okkar aftur. Við stofnuðum nýlega dansíþróttafélagið Rúbín sem við hlökkum mikið til að geta farið af stað með aftur. Einnig er ég að vinna í undirbúningi fyrir verkefni sem er mikil áskorun fyrir mig, sem ég hlakka til að segja frá þegar nær dregur.“

Hanna Rún með börnum sínum tveimur.
Hanna Rún með börnum sínum tveimur.

Dansinn er bæði list og íþrótt

„Þegar ég heyri orðið dans þá kemur svo mikið upp í hugann því dans fyrir mér er svo mikið. Ég get hreinsað hugann í gegnum dansinn. Fyrir mér er dansinn bæði list og íþrótt. Það eru auðvitað til margar gerðir af dansi en alveg sama hvaða dans það er sem þú ert að dansa, þá er alltaf einhver saga. Þú þarft að tjá tilfinningarnar í gegnum hreyfingarnar. Það hvernig þú hreyfir þig og stíliserar hverja hreyfingu; er list. Til að geta dansað alla dansana frá a til ö, með fullum krafti þarf mikinn styrk og úthald; svo dansinn er líka íþrótt.

Ef ég tala nú bara um samkvæmisdansinn þá er líka mikil leikræn tjáning. Hver dans hefur sinn karakter og við þurfum að geta skipt hratt á milli dansa. Sem dæmi þá er rúmban dans ástarinnar. Þegar við semjum lotuna er saga á bak við sem getur verið hvernig sem er og tilfinningarnar í sporunum mismunandi. Þær geta verið reiði, gleði og sorg svo eitthvað sé nefnt og þessar tilfinningar þurfa að vera með þegar við dönsum. Mér finnst dansinn góður fyrir bæði líkama og sál.“

Er mikilvægt fyrir þig að hreyfa þig og hvernig æfir þú á milli keppna?

„Það er mjög mikilvægt fyrir mig að hreyfa mig reglulega og halda mér í góðu formi. Ef ég tek of langa pásu þá er ég lengur að ná mér upp og á sama stað og ég var. Úthaldið er fljótt að fara og vöðvarnir fljótir að rýrna. Þegar maður tekur langar pásur eins og við höfum gert núna; sér í lagi þar sem ég er að koma aftur eftir aðra meðgönguna mína, þá er alltaf alveg hrikalega erfitt að byrja aftur. Það er allt annað að koma til baka eftir meðgöngu heldur en bara venjulega hvíld. Það er svo mikið sem við og sérstaklega ég þarf að vinna í að styrkja og vinna upp aftur. Mér líður mikið betur í líkamanum þegar ég er í góðu formi því ég er einnig með gigt sem getur verið alveg hrikalega vond ef ég er í hvíld og lélegu formi. Þannig að þótt ég væri ekki að dansa þá yrði ég að halda mér í góðu formi og hreyfa mig.“

Það skiptir Hönnu Rún mig miklu máli að ala börnin sín upp við að þau finni að fjölskyldan er traust og stendur saman. Hún er alltaf smart en það sem vekur athygli við Hönnu Rún er hvað hún er alltaf með fallega skartgripi.

„Skartgripirnir sem pabbi hefur smíðað eru allir í miklu uppáhaldi. Ég held mikið upp á sérsmíði því það gerir hvern grip svo persónulegan. Það er erfitt að velja uppáhaldsskartið, en giftingar- og trúlofunarhringarnir eru auðvitað í miklu uppáhaldi. Pabbi smíðaði þá báða. Síðan held ég mikið upp á Silkilínuhringana mína eftir pabba. Svo armabandið mitt sem ég ber alltaf sem er 14 kt gull með hvítagullshjarta. Eins þykir mér mjög vænt um hálsmenið sem ég er með um hálsinn alla daga og tek ekki af mér, en það er hálsmen sem ég hannaði og heitir „Ég er“.

Hanna Rún hannaði „Ég er“ hálsmenið sem hún gengur með …
Hanna Rún hannaði „Ég er“ hálsmenið sem hún gengur með alla daga.

Hálsmenið er mjög þýðingarmikið en það var það sem ég vildi þegar ég hannaði menið. Mér þykir vænt um að deila því að hálsmenin eru til sölu í Gullsmiðju Óla og eru handsmíðuð daglega. „Ég er“-hálsmenið er handgert frá grunni og öll menin handsöguð út sem gerir það að verkum að enginn hringur er fullkominn hringur og engin tvö eins; sem tákn um að enginn er fullkominn og engir tveir eins.

Mér þykir vænt um alla þá skartipi sem ég á og geng mikið með því hver gripur hefur einhverja þýðingu og minningu.“

Hanna Rún segir manninn sinn hafa valið trúlofunarhringinn og hann hafi beðið pabba hennar að sjá um að smíða hann.

„Ég vissi ekkert fyrr en Nikita fór á skeljarnar fyrir framan Gullfoss árið 2013. Ég var þá ólétt að Vladimir Óla. Ég geng eingöngu með gullskart því mér finnst silfrið ekki klæða mig og hann veit það vel. Þess vegna fékk hann pabba til að smíða 14 kt gullhring með demanti. Þegar við giftum okkur smíðaði pabbi fyrir okkur klassíska 14 kt gullgiftingarhringapar sem eru póleraðir og hann gerði þá rúnaða að innan sem gerir það að verkum að það er mjög þægilegt að vera með þá.“

„Ég er“-hálsmenið er handgert frá grunni og öll menin handsöguð …
„Ég er“-hálsmenið er handgert frá grunni og öll menin handsöguð út sem gerir það að verkum að enginn hringur er fullkominn hringur og engin tvö eins; sem tákn um að enginn er fullkominn og engir tveir eins.

Aldrei að gefast upp ef þú ætlar á toppinn

Hanna Rún er með mörg járn í eldinum á nýju ári.

„Það er margt sem okkur langar að gera en við erum að finna taktinn í ástandinu, eins og með danskeppnir og fleira í þeim dúrnum.

Það verður eitthvað sem kemur til okkar með stuttum fyrirvara. Nikita hefur komið til mín og sagt mér að pakka ofan í tösku því við séum að fara að fljúga um nóttina í keppni sem haldin verður í London daginn eftir. Það er bara gaman. Vonandi getum við byrjað að kenna námskeiðin okkar sem fyrst og þá er ýmislegt skemmtilegt í kringum það líka.“

Skartgripirnir sem Hanna Rún gengur með eru einstaklega fallegir.
Skartgripirnir sem Hanna Rún gengur með eru einstaklega fallegir.

Getur þú gefið gott ráð þegar kemur að dansi og að elta drauma sína í atvinnumennsku?

„Já það er bara að halda áfram sama hvað. Það er kalt á toppnum, um leið og þú hefur náð árangri og vekur athygli í því sem þú ert að gera eru því miður alltaf einhverjir sem eiga erfitt með að samgleðjast og reyna að skemma. Það er bara þannig og ekki hægt að breyta því. En það skiptir mjög miklu máli að hafa hausinn í lagi og að muna af hverju maður er að gera það sem maður er að gera. Til að komast á toppinn og ná árangri þarf oft að fórna einhverju sem getur verið erfitt á vissum aldri. Það kostar blóð, svita og tár að komast langt og ná árangri og það gerist ekki bara af sjálfu sér uppi í sófa fyrir framan sjónvarpið með nammi í skál. Þó svo það sé vissulega eitthvað sem er mikilvægt að gera inn á milli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »