Tekur 300 æfingar á ári og er ómöguleg ef hún sefur illa

Sigþrúður á toppi Hvannadalshnjúks.
Sigþrúður á toppi Hvannadalshnjúks.

Fyrir áramótin 2017 setti Sigþrúður Ármann sér það markmið að klára 100 æfingar áður en að hún yrði fertug. Hafði hún rúmlega hundrað daga til að ná markmiði sínu þar sem hún á afmæli um miðjan apríl. Eftir að hafa náð settu marki hélt hún áfram að skora á sjálfa sig og hefur sett sér það markmið að klára 300 æfingar á hverju ári. Fékk hún fleiri með sér í lið og hvetur hópurinn hvert annað áfram. Nú ætlar hún að láta til sín taka á fleiri sviðum og er komin í prófkjör fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Kraganum. 

Hvað breyttist í lífi þínu þegar þú fórst að æfa markvisst marga marga daga í röð?

„Ég fór að verða háð því að æfa þar sem ég fann fyrir aukinni orku og meiri vellíðan. Núna finnst mér ég varla geta byrjað daginn nema að hreyfa mig eitthvað,“ segir Sigþrúður. 

Hvernig hafði hreyfingunni verið háttað fyrir þann tíma?

„Ég hafði verið ágætlega dugleg að hreyfa mig og hef verið í Boot camp frá árinu 2006. Um tíma bjó ég við ströndina nálægt Barcelona og hljóp frekar mikið þar. Það er gaman að segja frá því að ég hitti Messi reglulega þar, því faðir hans bjó í hverfinu. Ég fer nær alltaf út að hlaupa þegar ég fer til útlanda og finnst skemmtilegt að kynnast ólíkum borgum á hlaupum.“

Hér er Sigþrúður á afmælisdaginn sinn en hún byrjaði daginn …
Hér er Sigþrúður á afmælisdaginn sinn en hún byrjaði daginn á Helgafelli kukkan sjö um morguninn. Með henni á myndinni eru Anna Sigríður Arnardóttir, Helga Árnadóttir, Marín Magnúsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Björg Vigfúsdóttir og Helga Thors.

Hvernig leið þér þegar þú varst búin að taka þessar 100 æfingar?

„Mér leið frábærlega og var svakalega ánægð að ná settu markmiði. Það hvatti mig til að halda áfram. Eftir þetta setti ég mér markmið um að klára alltaf 100 æfingar á 120 daga tímabili allt árið um kring, sem gera 300 æfingar á ári. Það sem er svo skemmtilegt að fleiri í kringum mig fóru að gera hið sama og saman stofnuðum við hóp og hvetjum við hvert annað áfram. Við köllum okkur „Club 100“.“

Þegar Sigþrúður er spurð að því hvernig kórónuveiran hafi farið með hana segist hún hafa hreyft sig allan tímann. 

„Ég lagði mikla áherslu á að hreyfa mig og fór mikið út í náttúruna. Ég á hund og það hvatti mig áfram að fara út með hann. Ég fann hversu þakklát ég var að búa á Íslandi og að hafa tækifæri til að fara út í nátttúruna. Mér varð oft hugsað til vina minna á Spáni sem voru í útgöngubanni og fastir inni í íbúðum sínum. Það er jákvætt hversu margir hafa verið duglegir að hreyfa sig síðustu mánuði. Útivera og hreyfing hefur jákvæð áhrif á okkur líkamlega og andlega. Heilbrigði er svo mikilvæg forvörn. Við þurfum að hvetja fólk á öllum aldri til að hreyfa sig, jafnt unga sem aldna. En er þetta ekki með þetta eins og svo margt annað, við byrjum á okkur sjálfum og reynum að verða öðrum til fyrirmyndar.“

Hér er Sigþrúður að hlaupa maraþon í New York fyrir …
Hér er Sigþrúður að hlaupa maraþon í New York fyrir nokkrum árum.

Hvaða viðbrögð hefur þú fengið við átakinu ykkar?

„Ég hef fengið virkilega jákvæð viðbrögð. Þau sem taka þátt í Club 100 tala um að þau hreyfi sig miklu meira nú en áður. Aðalmálið er að drífa sig að stað og gera helst eitthvað á hverjum degi. Það þarf ekki að vera mikið getur til dæmis verið göngutúr í hverfinu. Allt telur. Við erum ekki að æfa saman en erum dugleg að hvetja hvert annað áfram. Hvatningin skiptir miklu máli. Það er ekki hægt að sitja heima og gera ekki neitt þegar aðrir í hópnum hvetja mann af stað. Við sem erum í hópnum erum að gera alls konar; hjóla, fara á skíði, spila golf, blak og áfram mætti telja. Mér finnst mjög gaman að prófa eitthvað nýtt og maður fær skemmtilegar hugmyndir frá öðrum í hópnum,“ segir hún.

Höfuðstaða við Jökulsárlón.
Höfuðstaða við Jökulsárlón.

Hver er þín uppáhaldsæfing?

„Fyrir um tveimur árum síðan kynntist ég hot power yoga hjá Iceland Power jóga. Ég heillaðist alveg og fer mikið í jóga. Það má segja að mín uppáhaldsæfing þessa stundina sé höfuðstaða og fer ég í hana á ólíklegustu stöðum til dæmis uppi á Heimakletti í Vestmannaeyjum og við Jökulsárlón. Mér finnst æðislegt að vera úti í náttúrunni, ýmist á hlaupum eða í fjallgöngum. Í maí fór ég á Kvennadalshnúk með 125 konum. Það var algjörlega meiriháttar. Samstaðan og gleðin í hópnum gaf mér mikinn kraft, sannkallaðan lífskraft sem var einmitt yfirskrift ferðarinnar. Ég var svo lánsöm að vera með upphafskonu verkefnisins G. Sigríði og fleiri frábærum konum á línu. Þvílík jákvæðni sem frá þeim skein. Ég held að orkan sem ég fékk á hnúknum eigi stóran þátt í því að ég ákvað að fara í framboð með skömmum fyrirvara. Eftir að hafa toppað hnúkinn finnst mér ég geta allt!“ segir Sigþrúður og brosir.

Margrét Íris Baldursdóttir og Sigþrúður Ármann í fjallgöngu. Margrét er …
Margrét Íris Baldursdóttir og Sigþrúður Ármann í fjallgöngu. Margrét er gift bróður Sigþrúðar, Magnúsi Ármann.
Hér er Sigþrúður á leið upp á Hvannadalshnjúk á dögunum.
Hér er Sigþrúður á leið upp á Hvannadalshnjúk á dögunum.

Hvaða tíma dags ertu að hreyfa þig?

„Ég hreyfi mig oftast á morgnana. Mér finnst frábært að vakna snemma og drífa mig af stað. Það gefur mér orku inn í daginn.“

Hlustar þú á tónlist á meðan þú æfir eða ertu að hlusta á hlaðvörp?

„Góð tónlist er mjög hvetjandi, sérstaklega í útihlaupum. Upp á síðkastið finnst mér mjög gott að hlusta ekki á neitt. Ég upplifi náttúruna öðruvísi og enn sterkar í þögninni. Ég held að kyrrðin sé oft vanmetin. Með þessu fæ ég tíma til að hugsa skýrt og fæ oft fullt af hugmyndum. Síðan er það líka mjög góð æfing að reyna að hugsa sem minnst og bara njóta augnabliksins,“ segir hún. 

Höfuðstaða í Vestmannaeyjum.
Höfuðstaða í Vestmannaeyjum.

Hvernig er mataræðinu háttað? Er eitthvað sem þú ert ekki að borða?

„Mér finnst æðislegt að borða góðan mat eins og steikur, fisk og grillað grænmeti. Ég borða frekar hollan mat og finnst harðfiskur að sjálfsögðu alveg ómissandi. Ég er samt líka algjör sælkeri og hef borðað ógrynni af súkkulaðirúsínum í gegnum tíðina.“

Finnur þú fyrir því að hafa þurft að breyta lifnaðarháttum eftir fertugt?

„Ég tek meira eftir því hvað svefninn skiptir miklu máli. Dagurinn er eiginlega alveg ónýtur ef ég er illa sofin. Þá finn ég hvað mataræðið hefur mikil áhrif á líðan. Ég held að það skipti mjög miklu máli að halda sér í líkamlega og andlega góðu formi, að hugsa jákvætt og fagna aldrinum. Mesti ávinningurinn af allri hreyfingunni er hve jákvæð áhrif hreyfingin hefur á bæði andlega og líkamlega vellíðan. Það gefur manni styrk til að njóta lífsins til fulls.“

Siþgrúður á toppi Helgafells. Þegar hún var að æfa mig …
Siþgrúður á toppi Helgafells. Þegar hún var að æfa mig fyrir Hvannadalshnúk fór hún á Helgafell í allskonar veðri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál