Mikið áfall að missa tvær systur sínar úr krabbameini

Sigríður Thorlacius er ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar. Hún gekk í Menntaskólann við Hamrahlíð og söng þar í kórnum hjá Þorgerði Ingólfsdóttur, eins og svo margt af okkar færasta tónlistarfólki. Sigríður á að baki einstaklega farsælan feril sem popp-og djasssöngkona, með hljómsveitinni Hjaltalín, í samstarfsverkefninu GÓSS og fjölbreyttum verkefnum sem ætíð er tekið eftir. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar, þar á meðal Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2014 sem söngkona ársins. Sigríður, eins og langflestir Íslendingar, á sér sögu með krabbameinum. 

Yngst í fimm systra hópi, upplifir hún að missa tvær systur sínar úr krabbameinum. Á stuttu tímabili. Ingileif lést árið 2010 og Sólveig árið 2014. Báðar fengu þær heilaæxli. Að komast í gegnum slíkan missi er ekki auðvelt, það er stórt verkefni fyrir hvern sem er. Sigríður var rétt að skríða saman eftir fyrri missi og fær fréttir um að veikindi herji á enn aðra systur. En þann dag í dag er öll fjölskylda hennar smeyk við hvers konar höfuðverki, skiljanlega. Þau notuðu heldur aldrei orðið krabbamein um veikindi systranna, það var of yfirþyrmandi. 

Að sögn Sigríðar var partur af hennar bataferli að taka þátt í einhverju starfi sem skipti máli, að vita að hennar fjármunir myndu fara til rannsókna, fræðslu og forvarna og ráðgjafar fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Hún gerðist því Velunnari Krabbameinsfélagsins og hefur verið það í rúman hálfan áratug. Velunnarar eru mikilvægustu bakhjarlar félagsins, sem styðja það mánaðarlega með hóflegum fjárframlögum. Sigríði, og öllum okkar Velunnurum, erum við, sem og krabbameinsgreindir og aðstandendur, ævinlega þakklát. Með kraftmiklum rannsóknum, bættri fræðslu og forvörnum, fækkum við krabbameinum. 

Sigríður Thorlacius er eitt af 70 andlitum Krabbameinsfélagsins á afmælisárinu 2021. Við ætlum að birta 70 myndir eða myndskeið af fólki sem hefur komið við sögu í baráttunni gegn krabbameinum í 70 ára sögu félagsins. Krabbameinsfélagið er rekið fyrir sjálfsaflafé með stuðningi frá íslenskum almenningi og fyrirtækjum. Við hvetjum fólk til að fylgjast með á instagram og facebook, myllumerkið er #70andlit

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál