Lokaði á móður sína eftir erfiða æsku

Hlíf Ásgeirsdóttir ásamt Tinnu Guðrúnu og Hlyni Kristni Rúnarssyni stjórnendum …
Hlíf Ásgeirsdóttir ásamt Tinnu Guðrúnu og Hlyni Kristni Rúnarssyni stjórnendum Það er von.

Hlíf Ásgeirsdóttir er ung einstæð þriggja barna móðir, háskólanemi og aðstandandi. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Það er von. Hlíf er hörkutól, dugleg, sjálfstæð og þekkir ekki annað en að standa á eigin fótum. Hlíf og systkini hennar þrjú ræddu saman áður en hún kom í þáttinn og voru sammála um að þeim hefði þótt gott að heyra aðra aðstandendur segja frá sinni reynslu þegar þau voru börn.

Hlíf var aðeins sex ára þegar mamma hennar reyndi að svipta sig lífi en það er fyrsta minning hennar um móður sína. „Ég man ekki eftir verknaðnum sjálfum, við vorum ein heima með mömmu, ég man að allt í einu komu sjúkraliðar og ættingjar sem töluðu fyrir framan okkur systkinin, það var ekkert verið að hlífa okkur neitt,“ segir Hlíf. 

Móðir hennar var ofurseld læknalyfjum auk þess að vera með geðsjúkdóma. Hlíf segist ekki hafa gert sér grein fyrir því að mamma sín væri háð lyfjunum fyrr en hún var orðin töluvert eldri. Móðir hennar lést af völdum fíknsjúkdómsins aðeins 47 ára gömul og náði aldrei að horfast í augu við sjúkdóminn, afneitunin var það sterkt afl í henni.

Að alast upp hjá veikri móður var erfitt og flutti fjölskyldan ört og lýsir Hlíf miklu rótleysi og óöryggi. „Eini öruggi punkturinn var föðuramma okkar á Hvolsvelli,“ segir Hlíf en foreldrar Hlífar skildu þegar hún var ung og pabbi hennar var á sjó lengi í einu. „Þegar mamma fór í lengri tíma á geðdeild flutti pabbi okkur á Hvolsvöll, keypti undir okkur hús og réð barnapíu sem var með okkur allan sólarhringinn, það var erfitt, þetta er lítið þorp og það var horft á mann.“

Mikil meðvirkni einkenndi líf Hlífar og glímdi hún við skakka sjálfsmynd. Hún upplifði sig eins og hún væri aldrei nóg. Lífið var mikill feluleikur og mikil skömm fylgdi því að lífið væri ekki eins og hjá hinum krökkunum. „Ef maður fann smá til þá kom hún færandi hendi með verkjalyf, sama hvað það var. Við systur vildum ekki taka þessi lyf en einhverra hluta vegna geymdum við lyfin og söfnuðum upp en sögðumst taka þau því hún vildi það, það var hennar leið til að hjálpa okkur. Seinna þegar henni leið svo illa, í fráhvörfum, gátum við þá gefið henni lyfin sem við áttum,“ segir Hlíf. 

Á þessum tíma voru þær systur ekki búnar að átta sig á stöðu mála en meðvirknin átti eftir að þróast mikið og verða þannig að Hlíf á erfitt með að segja frá því en gerir það þó. „Maður fór að hjálpa henni að fá lyf, manni leið ekki vel fyrr en hún var búin að fá.“

Hlíf talar um magnið af lyfjum sem læknar skrifuðu upp á fyrir mömmu hennar, þolið fyrir lyfjunum var orðið ótrúlegt og oft tók hún tvö spjöld af verkjalyfjum í einu. Loks ákvað Hlíf ásamt systur sinni að setja mörk. Systkinin stóðu saman en þær tvær ákváðu að loka en bræðurnir tveir voru í samskiptum við móður sína. „Það var erfitt, maður heyrði hana í bakgrunni í símanum í fráhvörfum og bróðir minn bað mig að hjálpa þeim að redda lyfjum en ég gat bara sagt nei. Þetta var erfið ákvörðun í upphafi en löngu tímabær.“

Hlíf segir að hún hafi tekið margt með sér út í lífið eftir sitt uppeldi, hún fer aldrei í hlutverk fórnarlambs, er þolinmóð, vill lifa í mikilli rútínu og heldur henni ávallt. Þegar Hlíf var 22 ára fór hún í stutt samband með alkóhólista en sá ekki merkin strax. Barnsfaðir hennar átti mikla áfallasögu en hann hafði misst tvö systkini sín. „Þremur mánuðum eftir að ég missti mömmu mína missti sonur minn pabba sinn.“ 

Sonur hennar var aðeins sex ára þegar hann missti pabba sinn úr þessum sama sjúkdómi. Hlíf talar um mikilvægi þess að taka erfiðar ákvarðanir og setja fólki mörk. „Það stendur enginn með þér ef þú gerir það ekki.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn Það er von á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál