Meðferð í Kanada bjargaði lífi Elínar

Elín Vigdís Guðmundsdóttir er gestur í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu.
Elín Vigdís Guðmundsdóttir er gestur í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu. Aðsendar/Einkaeigu

Elín Vigdís Guðmundsdóttir glímdi við erfiða átröskun sem unglingur. Í dag er hún formaður samtakanna SÁTT, Sam­taka um átrösk­un og tengd­ar rask­an­ir en í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsinu segir hún bræðrunum Gunnari Dan Wiium og Davíð Karli Wiium hvernig meðferð í Kanada bjargaði lífi hennar. 

Markmið SÁTT er meðal annars að auka skilning og þekkingu stjórnvalda á átröskunum sem og að stuðla að vitundarvakningu almennt.

Elín Vigdís glímdi við átröskun sem unglingur og fór í meðferð í Kanada fyrir rúmlega fimmtán árum. Hún segir að meðferðin hafi bjargað lífi sínu. Hún fór í meðferðina beint eftir stúdentspróf. Hún segist hafa verið meðvituð um veikindi sín en hrædd við að sleppa tökunum. Í hennar huga var átröskunin eins og fíkn, hún deyfði kvíðann og vanlíðan sína. Hún upplifði ákveðna stjórn, að minnsta kosti til að byrja með. Elín Vigdís var úrvinda þegar hún var veik en ekki í afneitun. Hún var meðvituð um að hún hefði misst tilfinningu fyrir hamingjunni en átröskunin deyfði sársaukann. 

Í meðferðinni í Kanada fékk hún heildræna aðstoð. Fyrst hún var komin í meðferðina ákvað Elín Vigdís með semingi að gera allt sem henni var sagt að gera. Það tæki hana hvort sem er enga stund að fara aftur á fyrri stað. Meðferðin var mjög erfið, það voru strangar reglur og mjög sársaukafull vinna fór fram í meðferðinni.

Þegar hún les dagbækur frá þessum tíma í dag sér hún hversu mikill tilfinningarússíbani meðferðin var. Það var erfitt að borða og þyngdaraukningin var erfið. Að lokum fann hún sjálfa sig smám saman með aðstoð alls konar verkfæra eins og listsköpun, hugleiðslu, hekli, lesefni um andleg málefni og tónlist. Allt þetta hjálpaði henni að ná bata.

Í öruggu umhverfi með fagaðilum og öðrum sjúklingum tókst henni að takast á við vandann. Eftir meðferðina átti hún fullt af vinum og verkfæri sem hún hefur notað. Eins og hjá öðru ungu fólki tók lífið við. Elín menntaði sig, eignaðist börn, lærði að verða jógakennari  og var í leiklist.

Elín Vigdís náði tökum á veikindum sínum í meðferð í …
Elín Vigdís náði tökum á veikindum sínum í meðferð í Kanada.

Elín Vigdís hefur alltaf verið opin með sína reynslu og hjálpað einum og einum. Fyrir einu og hálfu ári byrjaði hún að kenna jóga og hugleiðslu hjá átröskunarteymi Landspítalans á Kleppi. Þá áttaði hún sig á því hve alvarleg staðan er hér á landi. Hún ákvað því að stofna samtökin SÁTT ásamt Margréti Helgadóttur og Elísu Guðrúnu Brynjólfsdóttur, með það að markmiði að bæta meðferðarúrræði hér á landi og stuðla að bættum forvörnum og fræðslu og einnig að veita aðstandendum stuðning. Hún segir stöðu aðstandenda mjög mikilvæga í öllu ferlinu. Þeir séu í afar þungbærri stöðu, mikill misskilningur sé um átraskanir og þeim fylgir alveg hræðileg vanlíðan líka fyrir aðstandendur og það skipti miklu máli að þeir fái fræðslu og stuðning. Þeir skipti svo miklu í bataferlinu.

Í þættinum leggur Elín Vigdís áherslu á að það sé mikilvægt að fólk átti sig á því hversu flókið og þungbært það getur verið að glíma við átröskun. Bataferlið er erfitt og flókið fyrst en verður svo fallegt. Þegar fólk hefur tekist á við þau verkefni sem þarf að takast á við þá er frelsi. Það sé það fallega. 

Varðandi útlitsþráhyggju, áhrif samfélagsmiðla, megrun, djúsföstur og allt það segir Elín að í hennar huga skipti mestu máli að hugsa um börnin og þau skilaboð sem við sendum þeim. Þegar kemur að djúsföstum og öllum aðgerðum og ráðstöfunum sé ásetningurinn að baki það sem skipti mestu máli. Hvernig við tölum um okkur hefur áhrif á börnin okkar. Ef við getum ekki sýnt okkur mildi og sátt, hvernig eigum við að kenna þeim að líða vel. Við erum fyrirmyndirnar og þar er ábyrgðin okkar.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarspvef mbl.is og horfa á hann á YouTube. 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál