Dóra byrjaði að drekka 14 ára gömul

Dóra Jóhanns byrjaði að drekka áfengi 14 ára gömul og …
Dóra Jóhanns byrjaði að drekka áfengi 14 ára gömul og fann strax að áfengi var algjör lausn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dóra Jóhannsdóttir, leikkona og handritshöfundur, byrjaði að drekka þegar hún var aðeins 14 ára gömul. Til að byrja með upplifði hún ekki stjórnleysi í drykkjunni en uppgötvaði snemma að áfengi var eins konar lausn fyrir hana til að flýja vandamálin. Hún hefur verið edrú í meira en eitt ár í dag og segir edrúlífið vera dásamlegt. Dóra prýðir forsíðu Vikunnar

Manstu eftir augnablikinu þar sem þú áttaðir þig á því að drykkjan væri orðin vandamál?

„Já, mjög greinilega. Mér finnst ég vita hvaða dag það var, klukkan hvað og hvar ég var þegar ég fattaði að ég vildi drekka minna en gæti það bara ekki. En ég sé líka þegar ég lít lengra til baka að þetta var orðið óheilbrigt áður. Þegar ég byrjaði að drekka fjórtán ára varð ég ekkert stjórnlaus strax en ég geri mér grein fyrir því að ég upplifði áfengið sem algjöra lausn. Ég fór úr því að vera kvíðin, í vanlíðan og á vondum stað andlega yfir í að vera frjáls og sjálfsörugg þegar ég var í glasi. Þegar fólk er með það sem oft er kallað andlegt mein, eitthvað brotið, einhvern tómleika sem maður þarf að fylla upp í, þá lagar fíknin það um stundarsakir. Fólk þekkir þetta líka úr öðrum fíknum, hvort sem það er spila-, kynlífs-, matarfíkn eða önnur fíkn. Það er verið að fylla upp í eitthvert tómarúm.“

Hún segir að frá því að hún hafi fyrst reynt að hætta og þar til hún fór í langtímameðferð til Svíþjóðar á síðasta ári hafi hlutirnir gerst svakalega hratt.

„Ástandið var orðið alveg hræðilegt síðustu vikurnar fyrir meðferðina. Ég fór í nokkrar meðferðir hér heima, það var enginn að pressa á mig að fara þegar ég fór fyrst, ég fann bara sjálf að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum. En þegar það gekk ekki varð hvert fall dýpra og örvæntingin sífellt meiri. Fólkið mitt var farið að hafa miklar áhyggjur. Ég vildi svo mikið hætta, en ég bara gat það ekki. Þetta var mjög óhugnanlegt og ég óska engum að ganga í gegnum þessa lífsreynslu. Ég vaknaði á hverjum morgni og vildi helst hlekkja mig fasta við eitthvað heima til að komast ekki út. Það getur enginn kennt manni þessa örvæntingu, sem er svo nauðsynleg til að ná að gefast upp og biðja um alla þá hjálp sem maður getur fengið, maður þarf að finna hana sjálfur. Flestir sem eru komnir í þær aðstæður að vera búnir að missa stjórn á lífi sínu vilja komast út úr þeim en geta það ekki án hjálpar. Það þarf hins vegar að biðja um hjálpina og vera tilbúinn að þiggja hana. Þetta er sjúkdómur.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í Vikunni sem fæst á næsta sölustað eða í áskrift.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál