„Líkaminn þarf að fá að vinna“

Ólöf Steingrímsdóttir einkaþjálfari.
Ólöf Steingrímsdóttir einkaþjálfari. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Ólöf Steingrímsdóttir er 39 ára einkaþjálfari hjá Tacticaltraining.is og algjört hörkutól. Ólöf, sem vaknar þegar flestir eru enn steinsofandi, líkir mannslíkamanum við vél sem þarf á góðri næringu og vatni að halda. Að hennar mati ætti fólk að byrja á því að fá sér vatn áður en það fær sér koffín. 

Íþróttir og hreyfing hafa alltaf verið stór hluti af lífi Ólafar. Það lá því beint við að læra einkaþjállfun. „Ég er manneskja sem getur ekki verið til án þess að hreyfa sig. Ég var búin að útbúa ræktarsal heima og komin með æfingar á Zoom þegar ræktinni var lokað í kórónuveirufaraldrinum því ég bara verð að nota líkamann, annars verður lífið frekar grátt,“ segir Ólöf.

„Ég valdi þetta starf líklega vegna þess að ég hef ástríðu fyrir að hjálpa fólki að skilja líkama sinn, við erum vinnudýr. Líkaminn þarf að fá að vinna, hann þarf að fá að vera sterkur og fá gott eldsneyti. Þegar ég næ að hjálpa fólki að skilja líkamann, hjálpa því með verki eða eymsl, hjálpa því að ná markmiðum sínum, upplifi ég svo mikla gleði að ég næ ekki að lýsa því með orðum.

Ég vakna 4:30 eða 5:00 og geri mig klára fyrir daginn. Fæ mér alltaf kaffibolla, tek vítamínin mín, fæ mér morgunmat og kem mér af stað niður í World Class,“ segir Ólöf þegar hún er spurð út í hvernig venjulegur dagur er í hennar lífi. Ólöf er móðir, á ungan son og fullorðna dóttur. Þær vikur sem hún er með son sinn fær hún hjálp á morgnana. 

„Ég tek á móti kúnnunum mínum og raða inn æfingum hjá þeim, skoða ferlið þeirra og fæ upplýsingar um hvernig gengur utan æfinga hjá þeim og svo bara spjalla við þau. Þetta er án efa skemmtilegasta starf sem ég veit um. Ég hendist í grautinn frammi yfirleitt um tíu og held svo áfram, passa að hlaða líkamann vel yfir daginn af góðri næringu og vatni. Ég tek eina til tvær æfingar alla virka daga. Ég tek bæði frí frá vinnu og æfingum á laugardögum en er farin að mæta á sunnudögum í World Fit-salinn á Völlunum sem er æðislegur og algjör leikvöllur fyrir manneskju eins og mig. Sunnudagar eru heilagir hjá mér. Þá er æfing, brunch, pottur eða sund og svo er slakað á, alltaf.“

Ólöf vaknar eldsnemma og mætir í vinnuna.
Ólöf vaknar eldsnemma og mætir í vinnuna. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Skiptir mataræðið máli?

„Mataræðið og vökvabúskapur skipta öllu máli, líkaminn okkar er fullkomin vél sem þarf eldsneyti og þarf frið til að hlaða inn orku fyrir daginn og til að starfa rétt. Ef við troðum alls konar ógeði í vélina þá er útkoman eftir því og kerfið nær ekki að vinna rétt. Ef við setjum ekki jafnt og þétt vökva á vélina verður orkan engin og við verðum þreytt og byrjum að geispa og finnst við þurfa að leggja okkur. Krafturinn dvínar. Ef við verðum þreytt er oft fyrsta sem við ættum að gera að drekka vatn áður en við leitum í koffín.“

Ólöf bendir á að ef fólk er með markmið á borð við að létta sig, þyngja sig, styrka eða stækka vöðva þarf það að borða rétt magn af kaloríum. Það er einstaklingsbundið hversu mikið fólk þarf að borða og fer meðal annars eftir því hversu miklu fólk brennir. Einnig þarf að huga að réttum hlutföllum fitu, prótíns og kolvetna. „Þetta hljómar flóknara en það er. Ég hef boðið mínum kúnnum upp á fjarþjálfun í smáforriti þar sem þeir fá bara reiknað ofan í sig og sex uppskriftir til að velja úr fyrir hvert mál út vikuna. Þeir fá nýtt plan í hverri viku á Tacticaltraining.is.“

Laugardagar eru frídagar hjá Ólöfu.
Laugardagar eru frídagar hjá Ólöfu. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Hver er lykillinn að því að detta ekki í sukk og svínarí í sumarfríinu? 

„Lykillinn er að venja sig á betra úrval í sukki og svínaríi. Það er hægt að leyfa sér góða sukkfæðu og fara betur með matvæli. Útbúa mat sjálfur í stað þess að hoppa á næsta skyndibitastað. Ekki taka þrjár vikur í einu af sukki heldur koma vel fram við líkamann og taka ekki frí frá heilbrigði þótt maður leyfi sér eitthvað endrum og eins. Ég hef oft dottið með nefið á kaf í súkkulaði en ég er ekki með alla skápa fulla af þessu heldur. Það kemur fyrir að maður fær sér eitthvað sem er ekki eftir bókinni og það er allt í lagi. Maður heldur bara áfram og pælir ekkert í því.“

Ólöf hvetur fólk til þess að flýta sér hægt en örugglega. Það er mikilvægt að gera hreyfingu að venju. Hún telur æfingar tvisvar í viku ekki gera mikið fyrir fólk. Til þess að gera æfingar að venju þarf að æfa að minnsta kosti þrisvar í viku. „Þá ertu með það fast að þrír af sjö dögum vikunnar eru dagar fyrir ákveðna hreyfingu sem þú stundar og venst fljótt. Að ætla sér að mæta sjö sinnum í viku þegar þú ert að byrja er of mikið fyrir flesta. Það eru þó einhverjir sem eru gerðir þannig að það hentar þeim best að hafa þetta hluta af hverjum degi en líkaminn þarf alltaf hvíld og þarf líka að slaka á,“ segir Ólöf.

Fólk ætti að æfa að minnsta kosti þrisvar í viku …
Fólk ætti að æfa að minnsta kosti þrisvar í viku til að koma hreyfinu í rútínu. Ljósmynd/Arnold Björnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál